Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er ríki Guðs?

Hvað er ríki Guðs?

Hvað er ríki Guðs?

HVERT var aðalumræðuefni Jesú þegar hann var hér á jörð? Hann sagði sjálfur að það væri ríki Guðs. (Lúkas 4:43) Þegar fólk hlustaði á hann heyrði það hann líklega oft nefna þetta ríki. Kom mönnum það á óvart eða fannst þeim það flókið? Var Jesús spurður hvað þetta ríki væri? Nei, það er ekki minnst á neinar slíkar spurningar í guðspjöllunum. Vissi fólk þá hvað ríki Guðs var?

Staðreyndin er sú að í hinum fornu ritningum, sem voru heilagar í augum Gyðinga, var þessu ríki lýst á lifandi og skýran hátt og sagt hvað það væri og hverju það myndi koma til leiðar. Nú á dögum getum við lært enn meira um ríkið á mjög svipaðan hátt og Gyðingar gerðu forðum daga — með því að leita til Biblíunnar. Við skulum nú skoða sjö atriði sem kennd eru í Biblíunni varðandi Guðsríki. Gyðingar á dögum Jesú og fyrir hans daga höfðu greiðan aðgang að upplýsingum um fyrstu þrjú atriðin. Næstu þrjú voru opinberuð af Kristi eða postulum hans á fyrstu öldinni. Hið síðasta hefur komið í ljós á okkar dögum.

1. Ríki Guðs er raunveruleg stjórn sem stendur að eilífu. Í fyrsta spádómi Biblíunnar kom fram að Guð myndi senda frelsara til að bjarga trúföstu fólki. Hann var kallaður ‚sæði‘ og átti að afmá alla þá illsku sem kom í kjölfar uppreisnar Adams, Evu og Satans. (1. Mósebók 3:15) Löngu seinna fékk hinn trúfasti Davíð konungur áhugaverðar upplýsingar um þetta ‚sæði‘, eða Messías. Hann átti að verða konungur ríkis sem yrði ólíkt öllum öðrum stjórnum. Það myndi standa að eilífu. — 2. Samúelsbók 7:12-14.

2. Ríki Guðs mun afnema allar stjórnir mannanna. Daníel spámaður fékk að sjá sýn þar sem hann sá heimsveldi koma hvert á fætur öðru allt fram til okkar daga. Taktu eftir hvað segir í lok þessarar sýnar: „Á dögum þessara [síðustu mennsku] konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ Öll ríki, eða stjórnir, þessa heims verða afmáð að eilífu. Þau hverfa af sjónarsviðinu og með þeim styrjaldir, kúgun og spilling. Eins og kemur fram í spádómi Daníels fer ríki Guðs bráðum með yfirráð yfir allri jörðinni. (Daníel 2:44, 45) Þetta ríki verður ekki aðeins raunveruleg stjórn heldur líka sú eina sem eftir stendur. *

3. Ríki Guðs mun binda enda á stríð, sjúkdóma, hungursneyðir og meira að segja dauðann. Hrífandi spádómar Biblíunnar upplýsa okkur um hvað ríki Guðs muni koma til leiðar hér á jörðinni. Stjórn Guðs mun gera það sem engin mennsk stjórn hefur nokkurn tíma gert eða mun geta gert. Hugsaðu þér — öll stríðsvopn verða afmáð að eilífu. „Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ (Sálmur 46:10) Það verða engir sjúkdómar og engin þörf fyrir lækna eða sjúkrahús. „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Þá verður aldrei aftur uppskerubrestur, matarskortur, vannæring eða hungur. „Gnóttir korns munu vera í landinu.“ (Sálmur 72:16) Jarðarfarir, líkvökur, grafreitir og líkhús verða liðin tíð. Eymdin og sorgin, sem tengist þeim, verður úr sögunni. Hinn miskunnarlausi óvinur okkar dauðinn verður að lokum gerður að engu. Guð „mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu“. — Jesaja 25:8.

4. Guð hefur valið stjórnanda ríkis síns. Messías er ekki sjálfskipaður í embætti konungs og er ekki heldur valinn af ófullkomnum mönnum. Jehóva Guð hefur sjálfur valið hann. Heitin Messías og Kristur bera það með sér. Báðir titlarnir þýða „hinn smurði“. Þessi konungur er smurður eða útvalinn af Jehóva til að gegna sérstöku embætti. Jehóva segir um hann: „Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.“ (Jesaja 42:1; Matteus 12:17, 18) Hver veit betur en skaparinn hvers konar stjórnanda við þörfnumst?

5. Jesús hefur sýnt fram á að hann sé rétti stjórnandinn. Jesús frá Nasaret reyndist vera hinn fyrirheitni Messías. Hann fæddist í ættinni sem Guð hafði valið. (1. Mósebók 22:18; 1. Kroníkubók 17:11; Matteus 1:1) Þegar hann var hér á jörð uppfyllti hann fjölda spádóma um Messías sem skráðir höfðu verið öldum áður. Það var einnig staðfest frá himni ofan að hann væri Messías. Hvernig þá? Guð talaði frá himnum og sagði að Jesús væri sonur sinn, englarnir bentu á hann sem hinn fyrirheitna Messías og Jesús vann kraftaverk í mætti Guðs — oft í viðurvist hundraða eða jafnvel þúsunda vitna. * Jesús sýndi aftur og aftur hvernig stjórnandi hann myndi verða. Hann hafði ekki aðeins kraftinn til að hjálpa fólki heldur líka viljann til að gera það. (Matteus 8:1-3) Hann var óeigingjarn, samúðarfullur, hugrakkur og lítillátur. Ævisaga hans hér á jörð er skráð í Biblíuna þannig að allir geti lesið hana.

6. Kristur á sér 144.000 meðstjórnendur. Jesús sagði að aðrir, þar á meðal postularnir, myndu ríkja með honum á himnum. Hann kallaði þennan hóp „litla hjörð“. (Lúkas 12:32) Seinna fékk Jóhannes postuli að vita að í þessari litlu hjörð væru 144.000 einstaklingar. Þeir myndu fá það áhugaverða verkefni á himnum að ríkja með Kristi sem konungar og prestar. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3.

7. Ríki Guðs er við völd á himnum og bíður þess að taka öll völd yfir jörðinni. Þetta síðasta atriði er eitt af því stórkostlegasta sem við getum fræðst um. Í Biblíunni er að finna nægar sannanir fyrir því að Jesús hafi nú þegar tekið við völdum sem konungur á himnum. Hann ríkir þar núna, á okkar dögum, og innan skamms mun hann ríkja yfir allri jörðinni og uppfylla þá stórkostlegu spádóma sem minnst var á fyrr í greininni. En hvernig getum við verið viss um að ríki Guðs sé tekið til starfa? Og hvenær mun það byrja að ríkja yfir jörðinni?

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Spádómar eins og þessi sýna að ríki Guðs er ekki eitthvað sem býr innra með manninum eins og mörgum er kennt. Sjá greinina „Lesendur spyrja“ á bls. 13.