Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Til lesenda

Til lesenda

Til lesenda

ÞAÐ er ánægjulegt að upplýsa að frá og með þessu tölublaði Varðturnsins verða gerðar ýmsar breytingar á efni og útliti blaðsins. En áður en við kynnum breytingarnar skulum við líta á það sem helst óbreytt.

Blaðið heitir Varðturninn kunngerir ríki Jehóva eins og verið hefur. Það heldur því áfram að heiðra Jehóva sem hinn sanna Guð og hughreysta lesendur með fagnaðarerindinu um ríki hans. Í greinunum á bls. 5 til 9 í þessu tölublaði er rætt um hvað ríki Guðs sé og hvenær það komi. Sömuleiðis mun Varðturninn halda áfram að efla trú á Jesú Krist eins og blaðið hefur gert áratugum saman, og það mun hér eftir sem hingað til halda sannleika Biblíunnar á lofti og skýra hvað atburðirnir í heiminum merki með hliðsjón af spádómum Biblíunnar.

Hvað breytist þá? Lítum á nokkrar nýjungar sem verða í þeirri útgáfu blaðsins sem þú ert að lesa, en hún kemur út fjórum sinnum á ári. *

Nokkrir fastir þættir verða í blaðinu. Undir fyrirsögninni „Vissir þú?“ verður fjallað um áhugavert efni sem varpar ljósi á þýðingu ýmissa frásagna í Biblíunni. Í greinaflokknum „Nálægðu þig Guði“ verður dregið fram hvaða læra má um Jehóva af ákveðnum ritningargreinum. Í þættinum „Lesendur spyrja“ verður að finna svör við ýmsum algengum spurningum um biblíuleg mál. Margir hafa til dæmis velt fyrir sér hvort ríki Guðs sé í hjarta mannsins. Svarið er að finna á bls. 13. 

Af og til munu birtast greinar handa fjölskyldum, foreldrum og börnum. Í greinaflokknum „Farsælt fjölskyldulíf“ verða tekin fyrir ýmis vandamál sem fjölskyldur eiga við að glíma í daglegu lífi og bent á hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað fólki að leysa þau. Foreldrar, sem vilja lesa með börnum sínum, geta notað sér greinaflokkinn „Kenndu börnunum“. Og í greinaflokknum „Fyrir unga lesendur“ verða námsverkefni ætluð börnum og unglingum.

Ýmsir aðrir greinaflokkar munu birtast af og til í blaðinu. Einn þeirra nefnist „Líkið eftir trú þeirra“ og þar verður að finna hvatningu til að taka sér ákveðnar biblíupersónur til fyrirmyndar. Til dæmis geturðu lesið hrífandi frásögu á bls. 18 til 21 í þessu blaði þar sem segir frá Elía spámanni og bent er á hvernig við getum líkt eftir trú hans. Í greinaflokknum „Bréf frá . . . “ segja trúboðar og aðrir víða um heim frá reynslu sinni. Greinaflokkurinn „Lærum af Jesú“ fjallar um undirstöðukenningar Biblíunnar á einfaldan hátt.

Það er trú okkar að Varðturninn haldi áfram að höfða til lesenda sem virða Biblíuna og langar til að vita hvað hún kennir. Við vonum að þetta tímarit hjálpi þér að svala sannleiksþorsta þínum.

ÚTGEFENDUR

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Varðturninn verður eftirleiðis gefinn út með tvenns konar sniði. Önnur útgáfan kemur út fjórum sinnum á ári og er ætluð til dreifingar meðal almennings. Hin útgáfan kemur út mánaðarlega og efni hennar er notað á samkomum votta Jehóva sem standa öllum opnar.