Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvenær heimsóttu vitringarnir Jesú?

Í Matteusarguðspjalli segir frá því að „vitringar frá Austurlöndum“ hafi heimsótt Jesú og fært honum gjafir. (Matteus 2:1-12) Það er ekki tekið fram hve margir þessir „vitringar“ hafi verið sem heimsóttu Jesú og ekkert bendir til að þeir hafi verið þrír eins og arfsagnir herma. Þeir eru ekki heldur nafngreindir í frásögu Biblíunnar.

Í New International Version Study Bible er gefin þessi skýring við Matteus 2:11: „Gagnstætt því sem almennt er talið heimsóttu vitringarnir ekki Jesú meðan hann lá í jötunni nóttina sem hann fæddist, líkt og fjárhirðarnir gerðu. Þeir komu nokkrum mánuðum síðar og „gengu inn í húsið og sáu barnið“. Þetta kemur heim og sama við það að þegar Heródes ætlaði að láta myrða barnið skipaði hann svo fyrir að öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, skyldu tekin af lífi. Hann miðaði aldurshópinn við það sem „svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum“. — Matteus 2:16.

Hefðu vitringarnir heimsótt Jesú nóttina sem hann fæddist og fært honum gull og aðrar verðmætar gjafir er ólíklegt að María hefði aðeins fórnað tveim fuglum 40 dögum síðar þegar hún fór með Jesú í musterið í Jerúsalem. (Lúkas 2:22-24) Fórn hennar var samkvæmt ákvæði í lögmálinu fyrir fátækt fólk sem hafði ekki efni á að fórna hrúti. (3. Mósebók 12:6 -8) En hvað sem því líður hafa þessar dýrmætu gjafir eflaust komið á heppilegum tíma og nýst til að halda fjölskyldunni uppi meðan á dvölinni í Egyptalandi stóð. — Matteus 2:13-15.

Hvers vegna liðu fjórir dagar frá því að Lasarus dó þangað til Jesús kom að gröf hans?

Svo virðist sem Jesús hafi hagað málum þannig af ásettu ráði. Hvers vegna getum við sagt það? Lítum á frásöguna í 11. kafla Jóhannesarguðspjalls.

Lasarus var vinur Jesú og átti heima í Betaníu. Þegar hann veiktist alvarlega komu systur hans boðum um það til Jesú. (Vers 1-3) Jesús var um tvær dagleiðir frá Betaníu þegar þetta gerðist. (Jóhannes 10:40) Lasarus dó líklega um það leyti sem fréttirnar bárust Jesú. Hvað gerði Jesús? Hann var „um kyrrt á sama stað í tvo daga“ áður en hann lagði af stað til Betaníu. (Vers 6, 7) Þar sem hann beið í tvo daga og ferðin tók tvo daga kom hann ekki að gröfinni fyrr en fjórum dögum eftir að Lasarus dó. — Vers 17.

Jesús hafði áður reist tvær manneskjur upp frá dauðum — aðra rétt eftir að hún dó og hina líklega sama dag og hún dó. (Lúkas 7:11-17; 8:49-55) Skyldi hann geta reist upp mann sem var búinn að vera dáinn í fjóra daga og byrjaður að rotna? (Vers 39) Athygli vekur að í biblíuskýringarriti segir að meðal Gyðinga hafi verið sú trú að engin von væri „fyrir manneskju sem hefði verið dáin í fjóra daga; þá sáust sýnileg merki þess að líkið var byrjað að rotna og sálin var búin að yfirgefa líkamann en hún var talin sveima yfir honum í þrjá daga.“

Ef einhverjir þeirra sem voru staddir við gröfina höfðu efasemdir áttu þeir eftir að verða vitni að valdi Jesú yfir dauðanum. Hann stóð fyrir framan opna gröfina og hrópaði: „Lasarus, kom út!“ Og „hinn dáni kom út“. (Vers 43, 44) Framtíð hinna látnu byggist á upprisunni en ekki þeirri útbreiddu ranghugmynd að sálin lifi áfram eftir líkamsdauðann. — Esekíel 18:4; Jóhannes 11:25.