Hann getur vakið upp frá dauðum
Nálægðu þig Guði
Hann getur vakið upp frá dauðum
HEFURÐU misst náinn ástvin? Þá hefurðu orðið fyrir einhverri sársaukafyllstu lífsreynslu sem hugsast getur. Skaparinn finnur til með þér og getur meira að segja bætt þann skaða sem dauðinn veldur. Í Biblíunni hefur hann látið skrásetja frásögur af upprisu fólks fyrr á tímum. Það gerði hann til að sýna að hann er ekki aðeins lífgjafi mannkyns heldur getur líka vakið fólk upp frá dauðum. Við skulum skoða eina frásögu af því þegar Jesús Kristur reisti mann upp frá dauðum, en hann hafði fengið vald til þess frá Guði, föður sínum. Frásöguna af þessu kraftaverki er að finna í Lúkasarguðspjalli 7:11-15.
Árið 31 var Jesús á leið til borgarinnar Nain í Galíleu. (Vers 11) Það var líklega áliðið dags þegar hann kom að útjaðri borgarinnar. Biblían segir svo frá: „Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni.“ (Vers 12) Geturðu ímyndað þér sorg þessarar ekkju þegar einkasonur hennar dó? Þetta var í annað sinn sem hún missti fyrirvinnu og verndara.
Jesús veitti þessari syrgjandi móður athygli. Hún gekk sennilega nálægt börunum sem notaðar voru til að flytja lík sonar hennar. Frásagan segir: „Er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: ‚Grát þú eigi!‘“ (Vers 13) Jesús var mjög hrærður yfir því hvernig komið var fyrir ekkjunni. Kannski varð honum hugsað til sinnar eigin móður. Hún var líklega orðin ekkja þegar hér er komið sögu og það var stutt í að hún myndi syrgja Jesú.
Jesús gekk í áttina til mannfjöldans — en ekki til að slást í för með líkfylgdinni. Hann „snart líkbörurnar“ og mannfjöldinn nam staðar. Síðan sagði hann eins og sá sem hefur fengið vald yfir dauðanum: „‚Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!‘ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.“ (Vers 14, 15) Þessi ungi maður tilheyrði ekki lengur móður sinni eftir að hann var látinn. Þegar Jesús „gaf hann móður hans“ urðu þau aftur fjölskylda. Sorg ekkjunnar hefur örugglega sefast og í staðinn hafa gleðitárin tekið að streyma niður kinnarnar.
Þráirðu að upplifa slíka gleði — að hitta látinn ástvin á ný? Þú mátt vera viss um að Guð skilur hvernig þér líður. Jesús fann til með ekkjunni og endurspeglaði þannig meðaumkun Guðs enda var hann fullkomin spegilmynd föður síns. (Jóhannes 14:9) Biblían kennir okkur að Guð þrái að reisa upp frá dauðum þá sem hann geymir í minni sínu. (Jobsbók 14:14, 15) Orð hans, Biblían, gefur okkur dásamlega von um líf í paradís á jörð þar sem við fáum að sjá látna ástvini reista upp frá dauðum. (Lúkas 23:43; Jóhannes 5:28, 29) Við hvetjum þig til að fræðast meira um þennan Guð sem getur vakið menn upp frá dauðum og um það hvernig þú getur eignast þá von að hitta látna ástvini á ný.
[Mynd á blaðsíðu 27]
„Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.“