Hvernig urðum við til?
Hvernig urðum við til?
AF HVERJU SKIPTIR ÞAÐ MÁLI? Mörgum er kennt að lífið á jörðinni hafi kviknað af tilviljun. Því er haldið fram að röð ósennilegra tilviljana hafi orðið til þess að maðurinn hafi þróast með öllum sínum vitsmunalegu hæfileikum og tilfinningalegu og andlegu þörfum.
En ef við værum afsprengi þróunar og enginn skapari væri til væri mannkynið í vissum skilningi munaðarlaust. Þá væri enginn okkur vitrari sem við gætum ráðfært okkur við — enginn sem gæti hjálpað okkur að leysa vandamál okkar. Við yrðum að reiða okkur á visku mannanna til að afstýra umhverfisslysum, leysa stjórnmáladeilur og leiðbeina okkur þegar við ættum við persónuleg vandamál að glíma.
Heldurðu að þessi lífssýn geti veitt þér hugarfrið? Ef ekki, þá ættirðu að velta fyrir þér hinum möguleikanum. Bæði er hann miklu álitlegri og einnig skynsamlegri.
Hvað segir Biblían?
Biblían kennir að mannkynið sé skapað beint af Guði. Við erum ekki afkvæmi skeytingarlausrar tilviljunar heldur eigum við okkur ástríkan og vitran föður. Lítum á hvað stendur skýrum stöfum í Biblíunni.
1. Mósebók 1:27. „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“
Sálmur 139:14. „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“
Matteus 19:4-6. „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“
Postulasagan 17:24, 25. „Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð. Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.“
Opinberunarbókin 4:11. „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“
Hvernig geta svör Biblíunnar veitt okkur sannan hugarfrið?
Sú vitneskja að „hvert faðerni [á] jörðu“ fái nafn sitt frá Guði hefur áhrif á það hvernig við lítum á annað fólk. (Efesusbréfið 3:15) Hún hefur sömuleiðis áhrif á það hvaða augum við lítum sjálf okkur og vandamál okkar. Áhrifin eru sem hér segir:
Þegar erfiðar ákvarðanir blasa við gerum við okkur ekki óþarfa áhyggjur af sundurleitum skoðunum manna heldur reiðum okkur á ráð Biblíunnar. Af hverju? Af því að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“. —Það kostar vissulega áreynslu og sjálfsögun að fara eftir ráðum Biblíunnar. Stundum eru leiðbeiningar hennar jafnvel á þá lund að við þurfum að breyta öðruvísi en við höfum tilhneigingu til. (1. Mósebók 8:21) En ef við viðurkennum að við eigum okkur ástríkan föður á himnum sem skapaði okkur er rökrétt að álykta sem svo að hann viti hvað sé okkur fyrir bestu. (Jesaja 55:9) Í Biblíunni fáum við þessa hvatningu: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Ef við gerum það losnum við að töluverðu leyti við kvíðann og áhyggjurnar sem fylgja erfiðleikum og ákvörðunum.
Þegar við verðum fyrir fordómum finnum við ekki til smæðar og vanmáttar né ímyndum okkur að við séum minna virði en fólk af öðrum kynþætti eða uppruna. Við þroskum öllu heldur með okkur heilbrigða sjálfsvirðingu. Af hverju? Af því að faðir okkar, Jehóva Guð, „fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er“. — Postulasagan 10:34, 35.
Þessi vitneskja kemur líka í veg fyrir að við látum fordóma í garð annarra villa okkur sýn og brengla hugsun okkar. Við gerum okkur ljóst að það er engin gild ástæða til að finnast maður sjálfur vera fremri fólki af öðrum kynþætti, því að við vitum að Guð „skóp . . . af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar“. — Postulasagan 17:26.
Sú vitneskja að við erum sköpunarverk Guðs og að hann lætur sér annt um okkur er forsenda þess að við getum átt ósvikinn hugarfrið. En það þarf meira til að varðveita innri frið.
[Innskot á blaðsíðu 4]
Þróaðist mannkynið?
[Mynd á blaðsíðu 5]
Sú vitneskja að skaparinn lætur sér annt um okkur getur veitt okkur ósvikinn hugarfrið.