Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Móðurhlutverkið – gefandi og ánægjulegt starf

Móðurhlutverkið – gefandi og ánægjulegt starf

Móðurhlutverkið – gefandi og ánægjulegt starf

NÚ Á dögum vinnur meirihluti kvenna utan heimilis. Í iðnvæddum löndum eru nánast jafn margar konur og karlar í launuðum störfum. Í þróunarlöndum þurfa konur oft að strita klukkutímum saman við landbúnaðarstörf til að aðstoða við að sjá fyrir fjölskyldunni.

Margar konur upplifa mikla togstreitu. Þær vilja sinna fjölskyldunni og heimilinu en þurfa líka að vinna úti til að afla nauðsynja. Þessar konur afla ekki aðeins peninga til að kaupa mat og föt og borga fyrir húsnæði heldur sjá þær líka um að elda matinn, þvo fötin og þrífa heimilið.

Auk þess leggja kristnar mæður sig fram um að byggja upp trú hjá börnunum. „Í hreinskilni sagt er mjög erfitt að sinna bæði vinnunni og fjölskyldunni vel, sérstaklega ef maður er með ung börn,“ viðurkennir Cristina sem á tvær ungar dætur. „Það er erfitt að veita börnunum alla þá athygli sem þau þarfnast.“

Hvað knýr mæður til að fara út á vinnumarkaðinn? Hvað þurfa þær að glíma við? Og verða mæður að vinna utan heimilis til að njóta velgengni?

Hvers vegna vinna mæður úti?

Margar mæður vinna fulla vinnu af brýnni nauðsyn. Sumar eru einstæðar og eru því eina fyrirvinna fjölskyldunnar. Og sum hjón uppgötva að ein laun nægja ekki til að sjá fyrir brýnustu nauðsynjum fjölskyldunnar.

En sumar mæður eru ekki í fullri vinnu einungis af fjárhagsástæðum. Þó nokkuð margar vinna úti til að efla sjálfsöryggið. Sumar vinna til að vera fjárhagslega sjálfstæðar eða til að eiga fyrir munaðarvörum. Auk þess eru margar konur mjög góðar í því sem þær gera og hafa ánægju af vinnunni.

Hópþrýstingur gæti verið önnur ástæða fyrir því að mörgum mæðrum finnst þær tilneyddar að fara út á vinnumarkaðinn. Flestir viðurkenna að útivinnandi mæður þurfa stöðugt að glíma við streitu og álag. En þær sem velja að vera heimavinnandi eru oft misskildar eða verða jafnvel að athlægi. „Það er ekki auðvelt að útskýra fyrir öðrum að maður sé ‚bara húsmóðir,‘“ viðurkennir kona nokkur. Hún segir: „Sumir gefa í skyn með orðum sínum eða fasi að maður sé að sóa lífinu.“ Rebeca, sem á tveggja ára dóttur, segir: „Þótt það sé almennt viðurkennt í þjóðfélaginu að konur eigi að hugsa vel um börnin sín finnst mér eins og litið sé niður á þær mæður sem vinna ekki úti.“

Ímyndin og veruleikinn

Fjölmiðlar draga oft upp mynd af hinni „fullkomnu konu“ sem nýtur velgengni í starfi — hún er vel launuð, óaðfinnanlega klædd og sjálfsörugg. Þegar hún kemur heim hefur hún orku til að leysa vandamál barnanna, leiðrétta mistök eiginmannsins og greiða úr hverju því vandamáli sem kemur upp á heimilinu. Það er skiljanlegt að fáum konum takist að uppfylla þessar óraunhæfu kröfur.

Í veruleikanum eru mörg störf, sem konur sinna, einhæf og frekar illa launuð. Sumar útivinnandi mæður finna ef til vill að vinnan veitir þeim ekki tækifæri til að nota hæfileika sína til fulls. Bókin Social Psychology bendir á: „Þrátt fyrir framfarir í jafnréttismálum halda karlmenn áfram að fá hærri laun og komast í valdameiri stöður. Konur, sem byggja sjálfsímynd sína á starfi sínu, eru því afar illa settar.“ Spænska fréttablaðið El País segir: „Talið er að konur séu þrisvar sinnum líklegri en karlar til að finna fyrir streitu og kvíða því að meirihluti þeirra er á tvöfaldri vakt — annarri í vinnunni og hinni heima.“

Hvernig geta eiginmenn aðstoðað?

Það er auðvitað persónuleg ákvörðun hvort kristin móðir vinnur utan heimilis eða ekki. En ef hún er gift ættu hún og eiginmaður hennar að taka slíka ákvörðun eftir að hafa rætt málið vandlega og skoðað allar hliðar þess. — Orðskviðirnir 14:15.

Segjum sem svo að hjón komist að þeirri niðurstöðu að vegna fjárhagsaðstæðna þurfi þau bæði að vinna fulla vinnu. Þá er sérstaklega mikilvægt að eiginmaðurinn fylgi ráðleggingum Biblíunnar: „Eins skuluð þið, eiginmenn, sýna eiginkonum ykkar nærgætni sem hinum veikari og virða þær mikils því að þær munu erfa með ykkur náðina og lífið.“ (1. Pétursbréf 3:7, Biblían 2007) Eiginmaður sýnir konu sinni virðingu með því að vera næmur á líkamlegt og tilfinningalegt atgervi hennar. Hann hjálpar henni með heimilisverkin hvenær sem tækifæri gefst. Hann líkir eftir Jesú og telur það ekki fyrir neðan virðingu sína að vinna lítilfjörleg störf heldur er fús til þess. (Jóhannes 13:12-15) Hann lítur á þessi störf sem tækifæri til að sýna að hann elskar duglega eiginkonu sína. Og hún metur hjálp hans mikils. — Efesusbréfið 5:25, 28, 29.

Samvinna á heimilinu er ómissandi ef bæði hjónin þurfa að vinna úti. Sú staðreynd kom vel fram í ABC fréttablaðinu á Spáni. Þar var sagt frá rannsókn sem framkvæmd var af Fjölskyldumálastofnun Spánar. Í fréttinni var há skilnaðatíðni á Spáni ekki aðeins sögð vera vegna þess að „trúarleg og siðferðileg gildi væru á undanhaldi“ heldur líka vegna þess að „konur fóru út á vinnumarkaðinn án þess að eiginmenn tækju þátt í húsverkunum“.

Mikilvægt starf kristinnar móður

Þótt Jehóva feli feðrum höfuðábyrgðina á uppeldi barnanna vita kristnar mæður að þær hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna — ekki síst á fyrstu árum barnanna. (Orðskviðirnir 1:8; Efesusbréfið 6:4) Jehóva beindi orðum sínum bæði til feðra og mæðra þegar hann sagði Ísraelsþjóðinni að brýna lögmálið fyrir börnunum. Hann vissi að þetta myndi kosta tíma og þolinmæði, ekki síst á mótunarárum barnanna. Þess vegna sagði Guð að foreldrar ættu að fræða börnin á heimilinu, á ferðalögum, þegar farið er á fætur og þegar lagst er til hvíldar. — 5. Mósebók 6:4-7.

Í orði Guðs er lögð áherslu á hve virðulegt og mikilvægt móðurhlutverkið er. Í Orðskviðunum 6:20 er börnum sagt: „Hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ Í frummálinu þýðir orðið, sem þýtt er „viðvörun“, bókstaflega „lög“. Að sjálfsögðu ætti gift kona að ræða við eiginmann sinn áður en hún setur börnum sínum einhverjar reglur eða lög. En eins og þetta vers gefur til kynna hafa mæður rétt á að setja reglur. Og börn, sem taka til sín trúarlega og siðferðilega fræðslu mæðra sinna, njóta góðs af því. (Orðskviðirnir 6:21, 22) Teresa á tvo unga stráka. Hún útskýrir hvers vegna hún hefur ákveðið að vinna ekki úti og segir: „Mikilvægasta starf mitt er að kenna börnunum að þjóna Guði. Ég vil geta sinnt þessu starfi á sem bestan hátt.“

Mæður sem skiptu sköpum

Ísraelski konungurinn Lemúel naut góðs af uppeldinu sem hann fékk hjá móður sinni. Orðin, sem „móðir hans kenndi honum“, eru hluti af innblásnu orði Guðs. (Orðskviðirnir 31:1; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Lýsing hennar á vænni eiginkonu hjálpar ungum mönnum enn í dag til að taka viturlega ákvörðun þegar þeir velja sér konu. Og varnaðarorð hennar í sambandi við siðleysi og ofdrykkju eiga ekki síður við nú á dögum en þegar þau voru skrifuð. — Orðskviðirnir 31:3-5, 10-31.

Á fyrstu öldinni hrósaði Páll postuli Evnike fyrir uppeldið á syni hennar Tímóteusi. Eiginmaður hennar var ekki kristinn og tilbað líklega gríska guði. Evnike þurfti því að sannfæra Tímóteus svo að hann festi trú á „heilagar ritningar“. Hvenær byrjaði hún að kenna honum út frá Ritningunni? Í Biblíunni segir að hún hafi kennt honum „frá blautu barnsbeini“ — alveg frá því að hann var ungbarn. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15) Trú hennar, gott fordæmi og kennsla hafa greinilega undirbúið Tímóteus fyrir trúboðsstarfið sem hann sinnti síðar á ævinni. — Filippíbréfið 2:19-22.

Í Biblíunni er líka talað um mæður sem sýndu trúum þjónum Guðs gestrisni og þannig fengu börnin góðar fyrirmyndir. Til dæmis er talað um konu frá Súnem sem bauð Elísa spámanni inn á heimili sitt að staðaldri. Seinna reisti hann son hennar upp frá dauðum. (2. Konungabók 4:8-10, 32-37) María, móðir biblíuritarans Markúsar, er annað dæmi. Hún virðist hafa boðið heimili sitt undir samkomur fyrir hina frumkristnu. (Postulasagan 12:12) Markús hefur örugglega notið góðs af því að umgangast postulana og aðra kristna menn sem komu reglulega heim til hans.

Það er augljóst að Jehóva metur mjög mikils erfiði trúfastra kvenna sem kenna börnum sínum meginreglur hans. Honum þykir innilega vænt um hollustu þeirra og viðleitni til að skapa andlega uppbyggjandi andrúmsloft á heimilinu. — 2. Samúelsbók 22:26; Orðskviðirnir 14:1.

Besta valið

Eins og sést af þessum dæmum úr Biblíunni er greinilegt að það veitir mikla umbun að hugsa vel um líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar þarfir fjölskyldunnar. En það er ekki auðvelt verk. Störf húsmóðurinnar virðast oft erfiðari en krefjandi forstjórastaða.

Ef útivinnandi móðir ákveður í samráði við eiginmann sinn að minnka vinnuna gæti fjölskyldan þurft að sætta sig við minni efnisleg gæði. Móðirin gæti líka orðið fyrir háði frá þeim sem skilja ekki ákvörðun hennar. En umbunin, sem slík ákvörðun veitir, getur bætt svo um munar fyrir fórnirnar. Paqui er þriggja barna móðir og þarf að vinna hlutastarf. Hún segir: „Ég vil vera heima þegar börnin koma úr skólanum svo að þau hafi einhvern til að tala við.“ Hvaða gagn hafa börnin af þessu? „Ég hjálpa þeim með heimalærdóminn og ef einhver vandamál koma upp get ég tekið strax á þeim,“ segir hún. „Þessi tími, sem við erum saman á hverjum degi, hjálpar okkur að halda tjáskiptaleiðinni opinni. Ég met þennan tíma svo mikils að ég hafnaði fullri vinnu sem mér var boðin.“

Margar kristnar mæður hafa komist að raun um að ef þær geta minnkað vinnuna utan heimilis kemur það allri fjölskyldunni til góða. „Þegar ég hætti að vinna var eins og allt gengi miklu betur fyrir sig á heimilinu,“ segir Cristina sem minnst var á áður. „Ég hafði tíma til að tala við börnin mín og hjálpa manninum mínum á ýmsum sviðum. Ég fór að hafa gaman af því að kenna stelpunum og sjá þær læra og taka framförum.“ Eitt atvik stendur sérstaklega upp úr. „Eldri dóttirin lærði að ganga á dagheimilinu,“ segir hún, „en ég kenndi yngri dótturinni að ganga hér heima. Hún tók fyrstu skrefin sín og féll svo beint í fangið á mér. Þetta var alveg ógleymanleg stund.“

Það er annað sem hjón ættu að hafa í huga. Ef móðirin minnkar vinnuna lækka tekjur heimilisins ef til vill ekki eins mikið og halda mætti. „Stór hluti af laununum mínum fór í ferðakostnað og dagvistunargjöld,“ segir Cristina. „Þegar við fórum yfir stöðuna kom í ljós að launin mín bættu í raun ekki svo miklu við tekjur heimilisins.“

Eftir að hafa skoðað málin vandlega hafa sum hjón komist að þeirri niðurstöðu að kostir þess að eiginkonan sjái um fjölskylduna í fullu starfi vegi þyngra en fjárhagslegu fórnirnar. „Mér finnst frábært að konan mín geti verið heima til að sjá um stelpurnar okkar,“ segir Paul, eiginmaður Cristinu. „Við fundum bæði fyrir miklu meiri streitu þegar hún vann úti.“ Hvaða áhrif hefur þessi breyting haft á dætur þeirra? „Þær finna til meira öryggis en áður,“ segir Paul, „og við getum verndað þær betur gegn slæmum áhrifum á fyrstu æviárunum.“ Af hverju finnst þessum foreldrum svona mikilvægt að verja eins miklum tíma með börnunum og mögulegt er? Paul segir: „Ég er sannfærður um að ef við foreldrarnir mótum ekki huga og hjarta barnanna þá mun einhver annar gera það.“

Að sjálfsögðu þurfa öll hjón að skoða málin út frá eigin aðstæðum og enginn ætti að gagnrýna ákvarðanir þeirra. (Rómverjabréfið 14:4; 1. Þessaloníkubréf 4:11) Það er samt þess virði að skoða hvaða gagn fjölskyldan hefur af því ef móðirin ákveður að vinna ekki fulla vinnu utan heimilis. Teresa, sem minnst var á áður, segir að lokum: „Ekkert gefur manni eins mikla gleði og lífsfyllingu og að hugsa um börnin sín og kenna þeim.“ — Sálmur 127:3.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Kristnar mæður gegna mikilvægu hlutverki í uppeldi barnanna.