Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við getum verið hamingjusöm þrátt fyrir vonbrigði

Við getum verið hamingjusöm þrátt fyrir vonbrigði

Við getum verið hamingjusöm þrátt fyrir vonbrigði

HVER hefur ekki orðið fyrir vonbrigðum? Jehóva Guð, faðir okkar á himnum, hefur meira að segja kynnst þeim sársauka sem fylgir vonbrigðum. Tökum dæmi. Hann frelsaði Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi og blessaði þá ríkulega en samt „freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael“ æ ofan í æ. (Sálmur 78:41) Engu að síður hefur Jehóva alltaf verið ‚hinn sæli Guð‘. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.

Það er vissulega margt sem getur valdið manni vonbrigðum. Hvernig getum við komið í veg fyrir að vonbrigði ræni okkur hamingjunni? Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva Guð tók á málum þegar hann varð fyrir vonbrigðum?

Orsakir vonbrigða

„Tími og tilviljun“ mætir okkur öllum eins og bent er á í orði Guðs. (Prédikarinn 9:11) Slys, sjúkdómar eða glæpir geta fyrirvaralaust valdið okkur þjáningum — og vonbrigðum. Í Biblíunni stendur líka: „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt.“ (Orðskviðirnir 13:12) Áköf eftirvænting vekur með okkur gleði en ef biðin verður of löng getum við orðið vonsvikin og niðurdregin. Duncan * hafði alltaf langað til að vera trúboði en eftir allmörg ár í trúboðsstarfi þurftu hann og konan hans að snúa heim. „Í fyrsta sinn á ævinni var ég alveg ráðvilltur,“ segir hann. „Ég hafði engin markmið. Ekkert virtist skipta máli lengur.“ Og sársaukinn og vonbrigðin geta verið langvarandi. „Ég var komin sjö mánuði á leið þegar ég missti fóstur,“ segir Claire. „Það eru mörg ár síðan en þegar ég sé dreng uppi á sviðinu að flytja ræðu hugsa ég enn með sjálfri mér: ‚Sonur minn hefði verið á þessum aldri núna.‘“

Það getur líka verið sársaukafullt ef einhver bregst vonum manns, til dæmis þegar slitnar upp úr trúlofun, hjónaband fer út um þúfur, barn gerir uppreisn, félagi svíkur mann eða vinur er vanþakklátur. Við búum meðal ófullkominna manna og tímarnir eru erfiðir þannig að það eru endalausir möguleikar á vonbrigðum.

Okkar eigin mistök geta líka valdið okkur vonbrigðum. Ef til vill finnst okkur að við séum einskis virði ef við föllum á prófi, fáum ekki vinnu eða tekst ekki að vinna ástir einhvers. Það veldur okkur líka vonbrigðum ef ástvinur hættir að þjóna Jehóva. Mary segir: „Dóttur minni virtist ganga vel og ég taldi mig hafa verið henni góð fyrirmynd. En þegar hún sneri baki við Jehóva Guði og þeim gildum, sem fjölskyldan hafði í hávegum, fannst mér ég vera algerlega mislukkuð. Það skipti engu máli þó að mér gengi vel í lífinu að öðru leyti. Ég var ákaflega niðurdregin.“

Hvernig er hægt að takast á við vonbrigði af þessu tagi? Til að svara því skulum við kanna hvernig Jehóva brást við vonbrigðum.

Einbeittu þér að lausninni

Jehóva Guð sá vel fyrir fyrstu hjónunum en þau reyndust vanþakklát og gerðu uppreisn gegn honum. (1. Mósebók, 2. og 3. kafli) Síðan leyfði Kain, sonur þeirra, huga sínum að spillast. Hann hunsaði viðvörun Guðs og myrti bróður sinn. (1. Mósebók 4:1-8) Geturðu ímyndað þér vonbrigði Jehóva?

En urðu þessi vonbrigði til þess að gera Guð vansælan? Nei, hann hafði ákveðið að fylla jörðina fullkomnum mönnum og hélt áfram að vinna að því. (Jóhannes 5:17) Það var í þeim tilgangi sem hann gaf lausnargjaldið og setti á stofn ríki sitt. (Matteus 6:9, 10; Rómverjabréfið 5:18, 19) Jehóva einblíndi ekki á vandamálin heldur einbeitti sér að lausninni.

Í Biblíunni erum við hvött til að einbeita okkur að hinu jákvæða í stað þess að sýta það sem hefði getað orðið eða við hefðum átt að gera. Þar segir: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

Rétt sýn á vonbrigði

Ýmsir atburðir geta gerbreytt lífi okkar. Við gætum skyndilega misst vinnuna, maka okkar eða verkefni í þjónustu Jehóva. Við gætum misst heilsuna, heimili okkar eða vini. Hvernig tökumst við á við slíkar breytingar?

Sumum hefur reynst vel að setja sér markmið. Duncan, sem áður var nefndur, segir: „Við hjónin vorum niðurbrotin þegar við gerðum okkur ljóst að við gætum ekki snúið aftur til starfa sem trúboðar. En svo settum við okkur tvö markmið: Að annast tengdamóður mína og halda áfram að boða trúna í fullu starfi ef mögulegt væri. Aðrar ákvarðanir hjá okkur taka mið af þessum markmiðum. Það gerir hlutina miklu einfaldari.“

Margir hafa tilhneigingu til að mikla fyrir sér neikvæðu hliðarnar þegar þeir verða fyrir vonbrigðum. Kannski tekst okkur ekki sem skyldi að ala upp barn, fá hentuga vinnu eða boða fagnaðarerindið á erlendri grund. Og þá hugsum við kannski sem svo að við séum algerlega misheppnuð. En Jehóva var ekki misheppnaður þó að mannkynið færi ekki af stað eins og hann ætlaði sér. Við erum ekki heldur mislukkaðar manneskjur þó að okkur takist ekki allt sem við ætlum okkur í fyrstu tilraun. — 5. Mósebók 32:4, 5.

Það er hægur vandi að reiðast þegar aðrir valda okkur vonbrigðum. En Jehóva bregst ekki þannig við. Davíð konungur olli honum vonbrigðum þegar hann drýgði hór og sá síðan til þess að eiginmaður konunnar félli í bardaga. Jehóva sá hins vegar að Davíð iðraðist í fullri einlægni og leit því áfram á hann sem þjón sinn. Jósafat konungi varð líka á þegar hann stofnaði til bandalags við óvini Guðs. Spámaður Jehóva sagði: „Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins. Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu.“ (2. Kroníkubók 19:2, 3) Jehóva vissi að Jósafat hafði ekki snúið baki við honum þótt honum hefðu orðið á mistök einu sinni. Við getum á sama hátt viðhaldið vináttuböndum með því að bregðast ekki of harkalega við þegar vinum okkar verður eitthvað á. Vinir okkar hafa eflaust marga góða eiginleika þó að þeir geti valdið okkur vonbrigðum stöku sinnum. — Kólossubréfið 3:13.

Það má líta á vonbrigði sem óhjákvæmilegan áfanga á leið að settu marki. Við verðum fyrir vonbrigðum með sjálf okkur þegar við syndgum. En við getum náð okkur aftur á strik ef við gerum nauðsynlegar ráðstafanir og höldum áfram. Þegar Davíð konungur varð fyrir sárum vonbrigðum með sjálfan sig skrifaði hann: „Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég . . . Þá játaði ég synd mína fyrir þér [Jehóva] . . . og þú fyrirgafst syndasekt mína.“ (Sálmur 32:3-5) Ef okkur er ljóst að við höfum ekki gert það sem Guð vænti af okkur ættum við að biðja hann fyrirgefningar, breyta um stefnu og vera ákveðin í að fylgja ráðum hans betur eftirleiðis. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Vertu viðbúinn vonbrigðum

Við verðum áreiðanlega öll fyrir einhvers konar vonbrigðum í framtíðinni. Hvernig getum við verið viðbúin þeim? Bruno er roskinn vottur sem varð fyrir vonbrigðum sem breyttu lífi hans. Hann segir: „Það sem hjálpaði mér mest að takast á við vonbrigðin var að ég hélt áfram að styrkja sambandið við Jehóva eins og ég hafði gert fram að því. Ég vissi af hverju hann leyfir að þetta illa heimskerfi standi. Ég hafði unnið að því árum saman að byggja upp náið samband við Jehóva. Ég var ákaflega þakklátur fyrir að ég skyldi hafa gert það. Það var hughreystandi að vita að hann væri með mér og það hjálpaði mér að þrauka þegar þunglyndið lagðist á mig.“

Þegar við hugsum til framtíðarinnar getum við verið örugg um eitt: Þó að við völdum sjálfum okkur vonbrigðum og aðrir geti brugðist vonum okkar bregst Guð okkur aldrei. Hann sagði meira að segja að nafn sitt, Jehóva, merkti „ég verð sá sem ég verð“. (2. Mósebók 3:14, New World Translation) Það vekur með okkur það traust að hann verði hvaðeina sem þarf til að láta fyrirheit sín ná fram að ganga. Hann hefur lofað að fyrir atbeina ríkis síns nái vilji hans fram að ganga „svo á jörðu sem á himni“. Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir . . . né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú.“ — Matteus 6:10; Rómverjabréfið 8:38, 39.

Við getum treyst því að loforð Guðs fyrir munn Jesaja spámanns rætist. Hann sagði: „Ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ (Jesaja 65:17) Það er yndislegt að hugsa til þess að innan tíðar munu minningarnar um fyrri vonbrigði heyra sögunni til.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sumum nöfnum er breytt.

[Innskot á blaðsíðu 23]

Við erum ekki mislukkaðar manneskjur þó að okkur takist ekki allt sem við ætlum okkur í fyrstu tilraun.

[Innskot á blaðsíðu 24]

Í Biblíunni erum við hvött til að einbeita okkur að hinu jákvæða í stað þess að sýta það sem hefði getað orðið.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Þó að menn hafi brugðist Guði er hann hamingjusamur vegna þess að fyrirætlun hans nær fram að ganga.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Við auðveldum sjálfum okkur að takast á við vonbrigði ef við setjum okkur markmið sem styrkja samband okkar við Jehóva.