Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju ættum við að biðja í nafni Jesú?

Af hverju ættum við að biðja í nafni Jesú?

JESÚS fjallaði oft um bænina í kennslu sinni. Á hans dögum báðu trúarleiðtogar Gyðinga „á gatnamótum“. Af hverju? „Til þess að menn [sæju] þá.“ Þeir sóttust greinilega eftir aðdáun annarra vegna guðrækni sinnar. Margir fóru með langar og endurtekningarsamar bænir rétt eins og þeir yrðu „bænheyrðir fyrir mælgi sína“. (Matteus 6:5-8) Jesús benti á hve fánýtt þetta væri og sýndi þannig einlægu fólki fram á hvað þyrfti að forðast þegar beðið er til Guðs. En hann gerði meira en að kenna fólki hvernig það ætti ekki að biðja.

Jesús kenndi okkur að biðja um að nafn Guðs yrði helgað, ríki hans kæmi og að vilji hans yrði gerður. Hann sýndi líka fram á að það væri viðeigandi að biðja Guð um hjálp í persónulegum málum. (Matteus 6:9-13; Lúkas 11:2-4) Með dæmisögum benti hann á að við yrðum að sýna þrautseigju, trú og auðmýkt til að hljóta bænheyrslu. (Lúkas 11:5-13; 18:1-14) Og hann undirstrikaði orð sín með góðu fordæmi. — Matteus 14:23; Markús 1:35.

Þessar leiðbeiningar hafa örugglega hjálpað lærisveinum Jesú að gera bænir sínar innihaldsríkari. En mikilvægasta lærdóminn varðandi bænina kenndi Jesús lærisveinunum ekki fyrr en síðasta kvöld sitt hér á jörðinni.

„Tímamót í sögu bænarinnar“

Jesús notaði síðustu kvöldstundina aðallega til að hvetja trúföstu postulana. Þetta var viðeigandi tími til að opinbera ný sannindi. „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,“ sagði hann. „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ Síðar gaf hann þeim þetta hughreystandi loforð: „Hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.“ Undir lok þessarar umræðu sagði hann: „Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“ — Jóhannes 14:6, 13, 14; 16:24.

Þetta voru einstaklega mikilvæg orð. Í heimildarriti nokkru segir að þau marki „tímamót í sögu bænarinnar“. Jesús var ekki að segja fólki að hætta að biðja til Guðs og biðja til sín í staðinn. Hann var að gera mönnum kleift að nálgast Jehóva Guð með nýjum hætti.

Að sjálfsögðu hefur Guð alltaf hlustað á bænir trúfastra þjóna sinna. (1. Samúelsbók 1:9-19; Sálmur 65:3) En frá því að Ísraelsþjóðin varð sáttmálaþjóð Guðs urðu þeir sem vildu fá bænheyrslu að viðurkenna hana sem útvalda þjóð Guðs. Og seinna, frá dögum Salómons, urðu þeir að viðurkenna að musterið væri útvalinn fórnarstaður Guðs. (5. Mósebók 9:29; 2. Kroníkubók 6:32, 33) En þetta tilbeiðsluform var aðeins tímabundið. Eins og Páll postuli skrifaði geymdi lögmálið, sem Ísraelsmönnum var gefið, og fórnirnar, sem færðar voru í musterinu, „aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess“. (Hebreabréfið 10:1, 2) Skugginn varð að víkja fyrir raunveruleikanum. (Kólossubréfið 2:17) Frá árinu 33 e.Kr. var samband fólks við Jehóva ekki lengur háð hlýðni við Móselögin heldur hlýðni við þann sem lögmálið spáði um, það er að segja Jesú Krist. — Jóhannes 15:14-16; Galatabréfið 3:24, 25.

Nafn „sem hverju nafni er æðra“

Jesús gerði okkur kleift að nálgast Guð með betri hætti. Hann er öflugur vinur sem opnar leiðina svo að Guð geti heyrt og svarað bænum okkar. Hvers vegna getur Jesús gert þetta fyrir okkur?

Þar sem við erum öll fædd syndug getum við aldrei með verkum okkar eða fórnum hreinsað okkur af syndinni eða áunnið okkur rétt á að eiga samband við heilagan Guð. (Rómverjabréfið 3:20, 24; Hebreabréfið 1:3, 4) En Jesús gat endurleyst mannkynið með því að fórna fullkomnu mannslífi sínu og greiða fyrir syndir manna. (Rómverjabréfið 5:12, 18, 19) Núna hafa allir tækifæri til að standa hreinir frammi fyrir Jehóva og geta haft „djörfung“ til að nálgast hann í bæn, en þó aðeins ef þeir trúa á lausnarfórn Jesú og biðja í hans nafni. — Efesusbréfið 3:11, 12.

Þegar við biðjum í nafni Jesú sýnum við trú á þrenns konar hlutverk sem hann gegnir í fyrirætlun Guðs: (1) Hann er „Guðs lamb“ og fórn hans gefur okkur tækifæri til að fá fyrirgefningu synda okkar. (2) Jehóva reisti hann upp frá dauðum og nú starfar hann sem æðstiprestur og útdeilir blessun lausnarfórnarinnar. (3) Hann einn er „vegurinn“ til að nálgast Jehóva í bæn. — Jóhannes 1:29; 14:6; Hebreabréfið 4:14, 15.

Við heiðrum Jesú með því að biðja í nafni hans. Slíkur heiður er viðeigandi því að Jehóva vill að „fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig . . . og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“. (Filippíbréfið 2:10, 11) Með því að biðja í nafni Jesú heiðrum við umfram allt Jehóva sem gaf son sinn í okkar þágu. — Jóhannes 3:16.

Við ættum að biðja af „öllu hjarta“ en ekki á vélrænan hátt.

Til að við getum skilið hve mikilvæga stöðu Jesús hefur, notar Biblían ýmsa titla og nöfn til að lýsa honum. Þá verður okkur ljóst hve mikla blessun við hljótum vegna þess sem Jesús hefur gert fyrir okkur, er að gera núna og mun gera í framtíðinni. (Sjá rammann „ Hlutverk Jesú“ .) Já, Jesú hefur verið gefið „nafnið, sem hverju nafni er æðra“. * Honum hefur verið gefið allt vald á himni og jörðu. — Filippíbréfið 2:9; Matteus 28:18.

Meira en vani

Ef við viljum að Jehóva heyri bænir okkar verðum við að biðja í nafni Jesú. (Jóhannes 14:13, 14) En við viljum ekki aðeins endurtaka orðin „í Jesú nafni“ af vana. Af hverju ekki?

Tökum dæmi. Þegar þú færð bréf frá kaupsýslumanni gæti því lokið með orðinu „virðingarfyllst“. Heldurðu að þetta lýsi einlægum tilfinningum kaupsýslumannsins eða er hann bara að fylgja almennum venjum við bréfaskriftir? Þegar við notum nafn Jesú í bænum okkar verður það að vera þýðingarmeira en kveðja í lok formlegs bréfs. Þótt við séum hvött til að biðja „án afláts“ eigum við að gera það af „öllu hjarta“ en ekki á vélrænan hátt. — 1. Þessaloníkubréf 5:17; Sálmur 119:145.

Hvernig er hægt að forðast að nota orðin „í Jesú nafni“ á vélrænan hátt? Væri ekki tilvalið að hugleiða alla þá góðu eiginleika sem Jesús býr yfir? Hugsaðu um það sem hann hefur nú þegar gert fyrir þig og er fús til að gera. Þú getur lofað Jehóva í bæn og þakkað honum fyrir það stórkostlega hlutverk sem hann hefur gefið syni sínum. Þegar þú gerir það styrkir það trú þína á loforð Jesú: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.“ — Jóhannes 16:23.

^ gr. 14 Samkvæmt orðabókinni Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words getur gríska orðið sem þýtt er „nafn“ merkt „allt sem nafn ber með sér um yfirvald, persónuleika, stöðu, tign, mátt [og] yfirburði“.