Eru náttúruhamfarir refsing frá Guði?
Lesendur spyrja
Eru náttúruhamfarir refsing frá Guði?
Guð beitir ekki náttúruhamförum til að hegna saklausu fólki. Það hefur hann aldrei gert og mun aldrei gera. Hvers vegna ekki? Vegna þess að „Guð er kærleikur“ eins og Biblían segir í 1. Jóhannesarbréfi 4:8.
Guð gerir allt í kærleika. Og sá sem er kærleiksríkur myndi aldrei valda saklausu fólki þjáningum enda segir í Biblíunni: „Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein.“ (Rómverjabréfið 13:10) Og í Jobsbók 34:12 stendur: „Vissulega breytir Guð ekki ranglega“.
Í Biblíunni er að vísu spáð fyrir um að á okkar dögum myndu verða náttúruhamfarir svo sem miklir „landskjálftar“. (Lúkas 21:11) En það þýðir ekki að Jehóva valdi þeim, ekkert frekar en veðurfræðingur beri ábyrgð á tjóni af völdum fellibyls sem hann spáir. En hver ber þá sök á þjáningunum, sem hamfarir valda, fyrst Guð stendur ekki á bak við þær?
Biblían segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda“, það er að segja Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hann hefur verið manndrápari allt frá því að hann gerði uppreisn í byrjun mannkynssögunnar. (Jóhannes 8:44) Hann metur mannslífið lítils. Satan lætur sjálfur stjórnast af eigingirni og því er ekki að undra að hann hafi búið til heimskerfi sem elur á sjálfselsku. Í heimi nútímans viðgengst slíkt arðrán að margir eiga ekki um annað að velja en að búa á hættusvæðum, þar sem reikna má með hamförum af völdum náttúrunnar eða af völdum manna. (Efesusbréfið 2:2; 1. Jóhannesarbréf 2:16) Græðgi manna á því einhverja sök á þeim hörmungum sem fólk verður fyrir. (Prédikarinn 8:9) En hvernig?
Ótrúlega oft eru hamfarir að minnsta kosti að einhverju leyti af völdum manna. Tökum sem dæmi húsin sem sópuðust burt í aurskriðum úr fjallshlíðum við strönd Venesúela eða ógæfuna sem dundi yfir íbúa New Orleans-borgar þegar fellibylur skall á henni og mikil flóð fylgdu í kjölfarið. Á þessum stöðum og fleirum hafa náttúrufyrirbæri eins og hvassviðri og úrkoma valdið hamförum mikið til vegna vanþekkingar manna á umhverfismálum, óvandaðra mannvirkja, skipulagsleysis, andvaraleysis gagnvart viðvörunum og vegna klúðurs embættismanna.
Lítum aðeins á slys sem átti sér stað á dögum Jesú. Þá hrundi turn og 18 manns fórust. (Lúkas 13:4) Kannski hrundi turninn vegna mannlegra mistaka, kannski var það „tími og tilviljun“ sem réði því eða hvort tveggja. En það var örugglega ekki refsing frá Guði. — Prédikarinn 9:11.
Hefur Guð einhvern tíma valdið náttúruhamförum? Já en ólíkt öðrum hamförum voru þær markvissar, afar sjaldgæfar og það var ekki tilviljanakennt hverjir fórust og hverjir lifðu. Tvö dæmi um slíkar hamfarir eru Nóaflóðið og eyðing borganna Sódómu og Gómorru á dögum Lots. (1. Mósebók 6:7-9, 13; 18:20-32; 19:24) Dómur Guðs í þessum tilfellum afmáði þá sem voru óforbetranlegir en bjargaði fólki sem var réttlátt í augum Guðs.
Staðreyndin er sú að Jehóva Guð bæði getur, vill og hefur vald til að binda enda á allar þjáningar og náttúruhamfarir. Í Sálmi 72:12 er spáð um Jesú Krist sem Guð hefur krýnt til konungs: „Hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar.“