Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann skilur kvöl okkar

Hann skilur kvöl okkar

Nálægðu þig Guði

Hann skilur kvöl okkar

Jóhannes 11:33-35

„HLUTTEKNING er kvöl þín í hjarta mér.“ Þannig lýsti aldraður trúboði Votta Jehóva þessum dýrmæta eiginleika. Jehóva Guð er besta dæmið um hluttekningu. Hann finnur til með þjónum sínum. Hvernig getum við verið viss um það? Hluttekning Jehóva birtist með fullkomnum hætti í því sem Jesús sagði og gerði þegar hann var á jörðinni. (Jóhannes 5:19) Tökum sem dæmi atvikið sem er lýst í Jóhannesarguðspjalli 11:33-35.

Þegar Lasarus, vinur Jesú, dó langt fyrir aldur fram hélt Jesús til heimabæjar hans. Systur Lasarusar, þær María og Marta, voru eins og gefur að skilja bugaðar af sorg. Jesú þótti innilega vænt um þessa fjölskyldu. (Jóhannes 11:5) Hvernig brást hann við? Í frásögninni segir: „Þegar Jesús sá [Maríu] gráta og þau gráta, sem með henni komu, komst hann við, varð djúpt hrærður og sagði: ‚Hvar hafið þið lagt hann?‘ Þau sögðu: ‚Drottinn, kom þú og sjá.‘ Þá grét Jesús.“ (Jóhannes 11:33-35) Hvers vegna grét Jesús? Lasarus, vinur hans, var að vísu dáinn en Jesús var í þann mund að reisa hann upp frá dauðum. (Jóhannes 11:41-44) Hvað annað gat hafa snert Jesú svona djúpt?

Líttu aftur á ritningarstaðinn sem vitnað er í hér að ofan. Þar segir að Jesús hafi ‚komist við‘ og orðið „djúpt hrærður“ þegar hann sá Maríu gráta og þá sem með henni voru. Orðin sem hér eru notuð í frummálinu gefa til kynna sterkar kenndir. * Jesús var djúpt snortinn af því sem hann sá. Geðshræring hans var augljós því að augu hans flutu í tárum. Þjáningar annarra snertu greinilega hjarta Jesú. Hefurðu einhvern tíma tárfellt af því að einhver sem þér þykir vænt um var að gráta? — Rómverjabréfið 12:15.

Hluttekning Jesú gefur okkur dýrmæta innsýn í eiginleika og starfshætti Jehóva Guðs. Mundu að Jesús endurspeglaði eiginleika Jehóva, föður síns, svo vel að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Þegar við lesum að Jesús hafi grátið getum við því verið viss um að Jehóva finnur til með þjónum sínum. Aðrir biblíuritarar staðfesta þetta. (Jesaja 63:9; Sakaría 2:8) Jehóva er sannarlega góðhjartaður Guð.

Hluttekning er aðlaðandi eiginleiki. Þegar við erum niðurdregin eða döpur löðumst við að fólki sem getur sett sig í spor okkar og sýnt okkur samúð. Við hljótum því að laðast enn meir að Jehóva, hluttekningarsömum og skilningsríkum Guði sem finnur til með okkur og skilur kvöl okkar. — Sálmur 56:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Gríska orðið, sem notað er til að lýsa gráti Jesú, merkir oft „að gráta í hljóði“ en orðið, sem notað er til að lýsa gráti Maríu og hinna, getur merkt „að gráta hástöfum eða kveina“.