Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Máttur Guðs birtist í stjörnunum

Máttur Guðs birtist í stjörnunum

Máttur Guðs birtist í stjörnunum

„Hefjið upp augun og horfið til himins. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu, nefnir þær allar með nafni. Þar sem hann er mikill að mætti og voldugur að afli verður engrar vant.“ — JESAJA 40:26.

SÓLIN okkar er ekki nema meðalstór stjarna. En þrátt fyrir það er massi hennar 330.000 sinnum meiri en massi jarðar. Flestar nærliggjandi stjörnur eru smærri en sólin. En massi annarra, eins og til dæmis stjörnunnar V382 Cygni, er að minnsta kosti 27 sinnum meiri en massi sólarinnar.

Hversu mikla orku gefur sólin frá sér? Eldur þyrfti að vera gríðarlega öflugur til að þú fyndir hitann frá honum í 15 kílómetra fjarlægð. Sólin er að meðaltali í um 150 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu. En á sólríkum degi getur hiti hennar samt brennt húðina. Og þótt ótrúlegt megi virðast nær aðeins um einn milljarðasti af orku sólar til jarðar. Þetta litla brot er samt nóg til að viðhalda lífinu á jörðinni.

Vísindamenn hafa reiknað út að sólin gefi frá sér næga orku til að geta viðhaldið um 31 milljón milljónum pláneta eins og jörðinni. Tökum annað dæmi til að lýsa þessari ógnarorku. Ef hægt væri að safna allri þeirri orku sem sólin gefur frá sér á einni sekúndu myndi hún nægja til að sjá Bandaríkjunum „fyrir nægri orku næstu níu milljónir ára, miðað við núverandi orkunotkun,“ segir á heimasíðu bandarísku geimveðurstofunnar (Space Weather Prediction Center).

Orka sólarinnar á upptök sín í kjarna hennar — kjarnaofni þar sem atóm renna saman og leysa úr læðingi feikilega orku. Sólin er svo stór og kjarni hennar svo þéttur að það tekur milljónir ára fyrir orkuna, sem myndast í kjarnanum, að komast upp á yfirborðið. „Ef sólin hætti að framleiða orku í dag, myndu líða 50 milljónir ára áður en verulegra áhrifa færi að gæta á jörðinni,“ að því er fram kemur á vefsíðu geimveðurstofunnar.

Lítum nú á aðra staðreynd. Þegar þú horfir til himins á heiðskírri nóttu sérðu þúsundir stjarna og frá hverri þeirra streymir óhemjumikil orka sambærileg orkunni frá sólinni okkar. Og vísindamenn áætla að til séu milljarðar milljarða stjarna í alheiminum!

Hvaðan komu allar þessar stjörnur? Flestir vísindamenn telja núna að alheimurinn hafi orðið til skyndilega fyrir um 14 milljörðum ára, þótt ástæðan sé þeim ráðgáta enn sem komið er. Í Biblíunni segir einfaldlega: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Það má með sanni segja að sá sem skapaði hin mögnuðu kjarnorkuver sem við köllum stjörnur sé „voldugur að afli“. — Jesaja 40:26.

Hvernig notar Guð mátt sinn?

Jehóva Guð notar mátt sinn til að styðja og styrkja þá sem gera vilja hans. Páll postuli lagði sig allan fram um að segja öðrum frá Guði. Páll var ekki ofurmannlegur en hann gat samt látið margt gott af sér leiða þrátt fyrir harða andstöðu. Hvernig tókst honum það? Hann gerði sér grein fyrir því að hann fékk ‚mikinn kraft‘ frá Guði. — 2. Korintubréf 4:7-9.

Jehóva Guð hefur líka notað mátt sinn til að eyða þeim sem brjóta vísvitandi gegn meginreglum hans. Jesús Kristur benti á eyðingu Sódómu og Gómorru og flóðið á dögum Nóa sem dæmi um það hvernig Jehóva notar eyðingarmátt sinn gegn hinum illu. Samkvæmt spádómi Jesú mun Jehóva bráðum nota mátt sinn aftur til að eyða þeim sem hunsa meginreglur hans. — Matteus 24:3, 37-39; Lúkas 17:26-30.

Hvaða áhrif hefur þetta á þig?

Eftir að hafa hugleitt mátt Guðs, sem birtist í stjörnunum, er þér kannski innanbrjósts eins og Davíð konungi sem sagði: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“ — Sálmur 8:4, 5.

Já, það vekur með okkur auðmýkt að hugleiða hve smá við erum í samanburði við víðáttur alheimsins. En við þurfum ekki að óttast mátt Guðs. Hann innblés Jesaja spámanni að skrifa þessi uppörvandi orð: „Hann [Guð] veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt. Ungir menn þreytast og lýjast, æskumenn hnjóta og falla en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ — Jesaja 40:29-31.

Ef þú vilt breyta í samræmi við vilja Guðs geturðu verið viss um að hann gefur þér heilagan anda sinn til að styrkja þig. En þú verður að biðja um anda hans. (Lúkas 11:13) Með hjálp Guðs geturðu staðist hvaða prófraun sem er og fengið styrk til að gera það sem er rétt. — Filippíbréfið 4:13.

[Innskot á blaðsíðu 7]

Með hjálp Guðs geturðu fengið styrk til að gera það sem er rétt.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Réttsælis frá efstu mynd til vinstri: Hringiðuþokan, Sjöstirnið, Sverðþokan, Andrómeduþokan.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Massi sólar er 330.000 sinnum meiri en massi jarðar.

[Mynd credit line á blaðsíðu 7]

Sjöstirnið: NASA, ESA og AURA/Caltech. Allar aðrar myndir hér fyrir ofan: National Optical Astronomy Observatories.