Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvers vegna var ilmolía Maríu svona dýr?

Fáeinum dögum fyrir dauða Jesú kom María, systir Lasarusar, með „alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum“, eða ilmolíu, og hellti yfir höfuð Jesú. (Markús 14:3-5; Matteus 26:6, 7; Jóhannes 12:3-5) Í frásögnum Markúsar og Jóhannesar segir að ilmsmyrslin hafi verið 300 denara virði — sem jafngilti árslaunum verkamanns.

Hvaðan kom þessi dýra ilmolía? Nardussmyrslin, sem Biblían talar um, eru yfirleitt talin vera unnin úr smávaxinni ilmjurt (Nardostachys jatamansi) sem vex í Himalajafjöllum. Dýr nardusolía var oft þynnt út og jafnvel búnar til eftirlíkingar. En Markús og Jóhannes tala báðir um ‚ómenguð, dýr nardussmyrsl‘. Þar sem þessi ilmsmyrsl voru svona dýr gætu þau hafa komið alla leið frá Indlandi.

Í frásögn Markúsar segir að María hafi ‚brotið alabastursbuðkinn‘. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Alabastursbuðkur var yfirleitt hannaður með mjóum hálsi sem auðvelt var að innsigla svo að ilmurinn dýri læki ekki út. Alan Millard segir í bók sinni Discoveries From the Time of Jesus: „Það er auðvelt að ímynda sér hvernig konan hefur brotið [flöskuhálsinn], án þess að gefa sér tíma til að losa innsiglið af, svo að ilmurinn fyllti loftið þegar í stað.“ Það myndi skýra hvers vegna „húsið fylltist ilmi smyrslanna“. (Jóhannes 12:3) Þetta var mjög dýr gjöf en vel við hæfi. Hvers vegna? Konan hafði orðið vitni að því skömmu áður að Jesús reisti Lasarus, bróður hennar, upp frá dauðum og hún sýndi þakklæti sitt með þessum hætti. — Jóhannes 11:32-45.

Var Jeríkó ein borg eða tvær?

Matteus, Markús og Lúkas segja allir frá kraftaverkalækningu í námunda við Jeríkó. (Matteus 20:29-34; Markús 10:46-52; Lúkas 18:35-43) Matteus og Markús segja að Jesús hafi gert kraftaverkið þegar hann var að fara „út úr“ eða „frá“ Jeríkó. En Lúkas segir að það hafi verið þegar Jesús „nálgaðist“ Jeríkó.

Var aðeins ein borg með þessu nafni á dögum Jesú eða voru þær tvær? Bókin Bible Then & Now svarar því: „Á tíma Nýja testamentisins hafði Jeríkó verið endurbyggð um það bil mílu (1,6 km) suður af gömlu borginni. Heródes mikli hafði gert sér vetrarhöll þar.“ Bókin Archaeology and Bible History staðfestir þetta og segir: „Jeríkó var tvískipt borg á dögum Jesú . . . Gamla gyðingaborgin var um hálfan annan kílómetra frá þeirri rómversku.“

Kannski gerði Jesús kraftaverkið þegar hann var að fara frá gyðingaborginni og koma til rómversku borgarinnar eða öfugt. Það er greinilega gott að þekkja aðstæður á þeim tíma sem sagan var rituð til að skýra það sem gæti í fljótu bragði virst mótsögn.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Alabastursbuðkur undir ilmolíu.

[Credit line]

© Réunion des Musées Nationaux/Art Resource, NY