Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að vera góður faðir

Að vera góður faðir

Að vera góður faðir

„Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ — Kólossubréfið 3:21.

HVERNIG getur faðir komið í veg fyrir að börn hans verði ístöðulaus? Hann verður að gera sér grein fyrir hve hlutverk hans sem faðir er mikilvægt. „Föðurhlutverkið er einstakt og flókið fyrirbæri sem hefur mikil áhrif á tilfinninga- og vitsmunaþroska barna,“ segir í tímariti um geðheilsu.

Hvert er hlutverk föðurins? Í mörgum fjölskyldum er litið svo á að það sé eitt helsta hlutverk föðurins að veita aga. Margar mæður hafa sagt við óþekkt barn: „Bíddu bara þangað til pabbi þinn kemur heim!“ Börn þurfa auðvitað að fá hóflegan aga og ákveðna festu til þess að þau verði heilsteyptir einstaklingar á fullorðinsárum. En það er meira sem felst í því að vera góður faðir.

Því miður búa ekki allir feður svo vel að hafa átt sér góða fyrirmynd á uppvaxtarárunum. Sumir ólust upp án þess að faðirinn væri á heimilinu. Aðrir áttu kannski strangan og kuldalegan föður og hafa því tilhneigingu til að vera þannig í viðmóti við börnin sín. Hvað geta þeir gert til að feta ekki í fótspor feðranna og verða betri uppalendur?

Til er góður leiðarvísir sem hefur að geyma hagnýt og áreiðanleg ráð um hvernig hægt sé að vera góður faðir. Í Biblíunni er að finna bestu leiðbeiningarnar um fjölskyldulíf sem völ er á. Ráð hennar eru ekki bara kenningar og þau eru aldrei til tjóns. Ráðleggingar Biblíunnar endurspegla visku höfundar hennar, Jehóva Guðs, sem er líka höfundur fjölskyldunnar. (Efesusbréfið 3:14, 15) Ef þú ert faðir ættirðu að hugleiða það sem Biblían segir um foreldrahlutverkið. *

Það er mikilvægt að sinna föðurhlutverkinu vel til að börnin dafni bæði líkamlega og tilfinningalega en líka til þess að þau eignist gott samband við Guð. Ef barn á náið og kærleiksríkt samband við föður sinn getur það auðveldað því að eignast gott og náið samband við Guð. Reyndar kemur það líka fram í Biblíunni að Jehóva er skapari okkar og því í raun faðir okkar allra. (Jesaja 64:7) Við skulum nú líta á sex atriði sem börn þurfa að fá frá feðrum sínum. Og við skulum athuga hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað feðrum að sinna þessum þörfum vel.

Barn þarf að fá ást frá föður sínum

Jehóva er fullkomið dæmi um góðan föður. Í Biblíunni er lýst tilfinningum Jehóva til Jesú, frumburðar síns. Þar segir: „Faðirinn elskar soninn.“ (Jóhannes 3:35; Kólossubréfið 1:15) Oftar en einu sinni lét Jehóva í ljós að hann elskaði son sinn og hefði velþóknun á honum. Þegar Jesús lét skírast talaði Jehóva frá himnum og sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ (Lúkas 3:22) Jesús var aldrei í vafa um ást föður síns. Hvað geta feður lært af fordæmi Guðs?

Vertu ófeiminn að segja börnunum að þú elskir þau. Kelvin er fjögurra barna faðir. Hann segir: „Ég hef alltaf reynt að láta börnin mín vita að ég elski þau, ekki bara með því að segja það heldur líka með því að sýna hverju og einu þeirra persónulegan áhuga. Oft sá ég um að skipta á þeim og baða þau.“ Börnin þurfa líka að vita að þú sért ánægður með þau. Vertu því ekki of gagnrýninn og stöðugt að leiðrétta þau. Hrósaðu þeim frekar eins oft og þú getur. Donizete á tvær unglingsstúlkur. Hann segir: „Faðir ætti alltaf að leita að tækifærum til að hrósa börnum sínum.“ Ef börnin vita að þú ert ánægður með þau getur það stuðlað að því að þau hafi heilbrigt sjálfsmat. Og það getur síðan hjálpað þeim að eignast náið samband við Guð.

Barn þarf að eiga sér góða fyrirmynd

Jesús „gerir það eitt sem hann sér föðurinn gera“, segir í Jóhannesi 5:19. Taktu eftir að þarna segir að Jesús hafi séð og gert það sem faðir hans gerði. Þannig er það líka oft með börn. Ef faðirinn sýnir eiginkonu sinni virðingu er líklegt að sonur hans eigi eftir að sýna konum virðingu þegar hann eldist. En fordæmi föðurins hefur ekki bara áhrif á synina heldur getur það líka haft áhrif á viðhorf dætranna til karla.

Finnst börnunum þínum erfitt að biðjast afsökunar? Hér er fordæmi foreldranna líka mikilvægt. Kelvin rifjar upp atvik þegar tveir sona hans eyðilögðu dýra myndavél. Hann varð svo reiður að hann barði í viðarborð sem brotnaði í tvennt. Kelvin sá mjög eftir þessu og bað bæði eiginkonuna og börnin afsökunar á því að hafa misst stjórn á skapi sínu. Honum finnst að afsökunarbeiðni hans hafi haft jákvæð áhrif á börnin. Þau eiga ekki erfitt með að biðjast afsökunar.

Barn þarf að búa við hlýju og gleði

Jehóva er kallaður ‚hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Það kemur ekki á óvart að Jesús skyldi hafa yndi af því að vera með föður sínum. Í Orðskviðunum 8:30 er varpað ljósi á samband Jesú og föður hans: „Ég [var] með í ráðum við hlið honum [föðurnum] . . . og lék mér fyrir augliti hans alla tíma.“ Augljóst er að Jesús naut þess að vera með föður sínum og það var innilegt og gott samband milli þeirra.

Börn þurfa að búa við hlýju og gleði. Ein leið til að skapa slíkt umhverfi er að gefa sér tíma til að leika við þau. Það getur hjálpað foreldrum og börnum að styrkja tengslin. Felix tekur undir það. Hann á son á unglingsaldri og segir: „Með því að taka frá tíma fyrir afþreyingu með syni mínum höfum við orðið nánari. Við förum í leiki saman, hittum vini og heimsækjum skemmtilega staði. Þetta hefur styrkt fjölskylduböndin.“

Barn þarf að fá fræðslu um trúarleg gildi

Jesús fékk kennslu hjá föður sínum. Hann gat því sagt: „Það sem ég heyrði hjá [föðurnum], það tala ég til heimsins.“ (Jóhannes 8:26) Guð leggur feðrum þá skyldu á herðar að fræða börnin um trúarleg og siðferðileg mál. Eitt af því sem þú átt að gera sem faðir er að kenna börnunum lífsreglur Guðs svo að þær festi rætur í hjörtum þeirra. Þú ættir að byrja kennsluna snemma. (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Felix byrjaði að lesa sögur úr Biblíunni fyrir son sinn þegar hann var enn þá mjög ungur. Hann notaði litríkar og áhugaverðar sögur, meðal annars úr Biblíusögubókinni minni. * Þegar sonurinn varð eldri valdi Felix önnur biblíutengd rit sem hentuðu hans aldri.

Donizete segir: „Það er ekki áreynslulaust að gera fjölskyldunámið ánægjulegt. Foreldrar þurfa að sýna hve mikils þeir meta andleg mál því að börn eru fljót að koma auga á það ef orð og verk fara ekki saman.“ Carlos á þrjá syni. Hann segir: „Við höfum fjölskyldufund einu sinni í viku til að fara yfir þarfir fjölskyldunnar. Allir fá tækifæri til að velja hvað verði til umræðu.“ Kelvin reyndi að tala við börnin um Guð hvar og hvenær sem var. Það minnir okkur á orð Móse: „Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“ — 5. Mósebók 6:6, 7.

Barn þarf að fá aga

Börn þurfa að fá aga svo að þau verði duglegir og ábyrgir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi. Sumir foreldrar virðast halda að agi feli í sér hörku, hótanir eða niðrandi orð. Í Biblíunni eru hins vegar engin tengsl á milli aga og hörku. Foreldrar eiga miklu heldur að aga börnin af ást, líkt og Jehóva gerir. (Hebreabréfið 12:4-11) Í Biblíunni segir: „Feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ — Efesusbréfið 6:4.

En stundum er þörf á refsingu. Barn verður samt að skilja af hverju því er refsað. Agi foreldranna ætti aldrei að verða til þess að barninu finnist sér vera hafnað. Biblían aðhyllist ekki barsmíðar sem geta jafnvel valdið meiðslum. (Orðskviðirnir 16:32) Kelvin segir: „Þegar ég þurfti að leiðrétta börnin mín í alvarlegum málum reyndi ég alltaf að leiða þeim fyrir sjónir að ég væri að leiðrétta þau af því að ég elskaði þau.“

Barn þarf að fá vernd

Það þarf að vernda börn gegn óæskilegum áhrifum og slæmum félagsskap. Því miður eru til vondir menn í þessum heimi sem eru ákveðnir í að notfæra sér saklaus börn. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Hvernig geturðu verndað börnin þín? Í Biblíunni fáum við þetta ráð: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ (Orðskviðirnir 22:3) Til þess að geta forðað börnunum frá ógæfu verðurðu að vera á varðbergi gagnvart hættum. Reyndu að sjá fyrir aðstæður sem gætu skapað hættu og gerðu varúðarráðstafanir. Ef þú leyfir til dæmis börnunum að nota Netið skaltu ganga úr skugga um að þau kunni að nota það á öruggan hátt. Það gæti verið heppilegast að hafa tölvuna á opnu svæði á heimilinu þar sem þú getur auðveldlega fylgst með notkun hennar.

Faðir verður að fræða börnin og búa þau undir hættur sem geta mætt þeim í þessum sjúka heimi. Vita börnin þín hvað þau eiga að gera ef einhver reynir að misnota þau þegar þú ert ekki til staðar? * Börnin verða að vita hvað sé viðeigandi og hvað óviðeigandi notkun á kynfærunum. Kelvin segir: „Ég lét aldrei aðra um að kenna börnunum mínum þetta, ekki einu sinni kennarana. Mér fannst það vera ábyrgð mín að fræða börnin um kynlíf og vara þau við barnaníðingum.“ Börnin hans komust heilu og höldnu í gegnum uppvöxtinn og búa núna öll í hamingjusömu hjónabandi.

Leitaðu hjálpar Guðs

Besta gjöfin, sem faðir getur gefið börnum sínum, er að hjálpa þeim að eignast gott og innilegt samband við Guð. Þar hefur fordæmi föðurins gríðarlega mikið að segja. Donizete segir: „Faðir verður að sýna hve mikils hann metur samband sitt við Guð. Þetta ætti ekki síst að koma vel í ljós þegar hann þarf að glíma við vandamál eða erfiðleika. Þá sýnir hann hve vel hann treystir Jehóva. Þegar hann biður bæna með fjölskyldunni og tekur ítrekað fram hve þakklátur hann sé fyrir gæsku Guðs kennir hann börnunum mikilvægi þess að eiga Guð að vini.“

Hver er þá lykillinn að því að vera góður faðir? Leitaðu ráða hjá þeim sem veit best hvernig á að ala upp börn — hjá Jehóva Guði. Ef þú kennir börnunum í samræmi við leiðbeiningarnar í orði hans máttu búast við að sjá þann árangur sem lýst er í Orðskviðunum 22:6: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Þótt biblíulegu ráðin, sem eru til umræðu í þessari grein, beini athyglinni að hlutverki föðurins eiga mörg þeirra líka við hlutverk móðurinnar.

^ gr. 18 Gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 25 Nánar er fjallað um hvernig hægt er að vernda börnin gegn kynferðislegri misnotkun í Vaknið! október-desember 2007, bls. 3-11. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Faðir verður að setja börnunum gott fordæmi.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Faðir ætti að fræða börnin um trúarleg gildi.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Barn þarf á kærleiksríkum aga að halda.