Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver getur séð framtíðina fyrir?

Hver getur séð framtíðina fyrir?

Hver getur séð framtíðina fyrir?

„Ég er Guð . . . Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:9, 10.

Á ÓVISSUTÍMUM eins og nú rýna sérfræðingar í stjórnmálum, fjármálum og þjóðfélagsfræði í fortíð og nútíð til að reyna að spá fyrir um framtíðina. Aðrir leita í stjörnuspeki eða dulspeki til að komast að því hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir þá persónulega en verða oft fyrir vonbrigðum. Er einhver leið að vita hvaða framtíð bíði þessa heims, fjölskyldna okkar eða sjálfra okkar? Getur einhver séð inn í framtíðina?

Orðin, sem vitnað er í hér að ofan, standa í Biblíunni. Það var alvaldur Guð Jehóva sem sagði þau við Jesaja spámann og var að lýsa getu sinni til að sjá fram í tímann. Fyrir milligöngu Jesaja sagði Guð fyrir að Ísraelsmenn þess tíma yrðu leystir úr haldi Babýloníumanna og myndu snúa heim aftur til að endurbyggja Jerúsalem og musterið. Hversu nákvæmur var þessi spádómur? Tvö hundruð árum fyrir fram tilgreindi Jesaja hvaða maður myndi sigra Babýlon. Hann átti að heita Kýrus. Jesaja lýsti líka nákvæmlega hvaða aðferð Kýrus myndi beita til að vinna borgina — að breyta farvegi árinnar Efrat sem var hluti af varnarkerfi borgarinnar. Jesaja spáði meira að segja að Kýrus myndi koma að stóru borgarhliðunum opnum og óvörðum. Borgin yrði því auðunnin. — Jesaja 44:24–45:7.

Í samanburði við Guð eru við mennirnir algerlega ófærir um að sjá fram í tímann. „Vertu ekki hróðugur af morgundeginum,“ skrifaði hinn vitri konungur Salómon, „því að þú veist ekki, hvað dagurinn ber í skauti sínu.“ (Orðskviðirnir 27:1) Þetta hefur ekkert breyst. Enginn maður getur séð inn í framtíðina, ekki einu sinni sína eigin. En hvað gerir Guð svona ólíkan mönnunum? Hann skilur fullkomlega allt sem hann hefur skapað, þar með talið eðli og tilhneigingar mannsins. Ef hann vill getur hann séð nákvæmlega fyrir hvað fólk og heilu þjóðirnar eiga eftir að gera. Hann hefur líka ótakmarkað vald til að stjórna því hvernig málum lyktar. Þegar hann segir fyrir milligöngu spámanna sinna að eitthvað muni gerast ‚lætur hann orð þjóna sinna rætast og gerir það sem sendimenn hans boða‘. (Jesaja 44:26) Það er aðeins Jehóva Guð sem getur gert það.

Jesaja var uppi meira en 700 árum fyrir daga Jesú sem var Messías. Engu að síður spáði Jesaja um komu Messíasar. En á 18. öld tóku biblíugagnrýnendur að draga í efa að Jesajabók væri ósvikin. Þeir fullyrtu að spádómar Jesaja hefðu alls ekki verið spádómar heldur verið skrifaðir eftir að atburðirnir áttu sér stað. Er það rétt? Árið 1947 fannst afrit af bók Jesaja ásamt öðrum fornhandritum í helli nálægt Dauðahafinu. Fræðimenn komust að raun um að þetta afrit hefði verið gert meira en hundrað árum fyrir fæðingu hins fyrirheitna Messíasar. Já, Biblían sagði fyrir um framtíðina.

Jesaja og aðrir biblíuritarar höfðu ekki til að bera það innsæi að þeir gætu sjálfir séð fram í tímann heldur töluðu þeir „orð frá Guði, knúðir af heilögum anda“. (2. Pétursbréf 1:21) Í næstu grein verður fjallað nánar um nokkur atriði í lífi Jesú sem spáð var um fyrir milligöngu Jesaja. Síðan munum við skoða hvað Jesús og lærisveinar hans sögðu fyrir um okkar daga og nánustu framtíð.