Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig gat Adam syndgað fyrst hann var fullkominn?

Hvernig gat Adam syndgað fyrst hann var fullkominn?

Lesendur spyrja

Hvernig gat Adam syndgað fyrst hann var fullkominn?

Adam gat syndgað vegna þess að Guð gaf honum frjálsan vilja. Þessi frjálsi vilji stangast alls ekki á við fullkomleika Adams. Aðeins Guð er fullkominn í algerum skilningi. (5. Mósebók 32:3, 4; Sálmur 18:31; Markús 10:18) Enginn annar og ekkert annað getur verið fullkomið nema í takmörkuðum skilningi. Hnífur getur til dæmis hentað fullkomlega til að skera kjöt en myndirðu nota hníf til að borða súpu? Hlutur er því aðeins fullkominn að hann nýtist til þess sem honum var ætlað.

En hver var þá ætlun Guðs með því að skapa Adam? Markmið Guðs var að leiða af Adam vitiborið fólk með frjálsan vilja. Þeir sem vildu glæða kærleika sinn til Guðs og vega hans myndu sýna það með því að velja að hlýða lögum hans. Það er því ljóst að hlýðni var ekki forrituð í huga mannsins heldur þurfti hver og einn að ákveða af sjálfsdáðum að hlýða Guði. (5. Mósebók 10:12, 13; 30:19, 20) Ef Adam hefði ekki getað valið að óhlýðnast hefði hann verið ófullgerður, ófullkominn, í hlutverki sínu sem maður með frjálsan vilja. Hvernig kaus Adam að nota frjálsan vilja sinn? Frásaga Biblíunnar sýnir fram á að hann fylgdi eiginkonu sinni og óhlýðnaðist boði Guðs um „skilningstré góðs og ills“. — 1. Mósebók 2:17; 3:1-6.

Ætli Guð hafi þá skapað Adam með siðferðilegan galla þannig að hann hafi verið ófær um að taka viturlegar ákvarðanir eða standast freistingar? Áður en Adam óhlýðnaðist hafði Jehóva Guð skoðað alla hina jarðnesku sköpun, þar á meðal fyrstu hjónin, og lýst því yfir að verk sitt væri „harla gott“. (1. Mósebók 1:31) Þegar Adam syndgaði þurfti skapari hans því ekki að lagfæra einhvern hönnunargalla, heldur kallaði hann Adam strax til ábyrgðar og það með réttu. (1. Mósebók 3:17-19) Adam hafði ekki látið kærleika til Guðs og réttlætisins knýja sig til að hlýða Guði framar öllu.

Hafðu líka í huga að þegar Jesús var á jörðinni var hann fullkominn maður eins og Adam. Jesús var getinn með heilögum anda ólíkt öðrum afkomendum Adams. Þess vegna erfði hann enga tilhneigingu til að falla fyrir freistingum. (Lúkas 1:30, 31; 2:21; 3:23, 38) Hann var trúfastur föður sínum af fúsum vilja undir gífurlegum þrýstingi. Adam beitti frjálsum vilja sínum og bar þess vegna sjálfur ábyrgð á því að hafa ekki hlýtt boði Jehóva.

Hvers vegna kaus þá Adam að óhlýðnast Guði? Hélt hann að það myndi með einhverjum hætti bæta aðstæður hans? Nei, því að Páll postuli skrifaði: „Adam lét ekki tælast.“ (1. Tímóteusarbréf 2:14) Adam ákvað að láta undan óskum konu sinnar sem hafði þegar kosið að borða af forboðna trénu. Hann vildi heldur þóknast henni en hlýða skaparanum. Þegar Adam var fenginn forboðni ávöxturinn hefði hann átt að staldra við og hugsa um hvaða afleiðingar óhlýðni myndi hafa á samband sitt við Guð. Þar sem Adam bar ekki órjúfanlegan kærleika til Guðs var hann ósköp máttlítill undir þrýstingi, einnig frá konu sinni.

Adam syndgaði áður en hann eignaðist börn og þar af leiðandi hafa allir afkomendur hans fæðst ófullkomnir. En eins og Adam höfum við öll fengið frjálsan vilja. Vonandi kjósum við að hugsa um góðvild Jehóva með þakklæti og efla kærleika okkar til hans. Hann á skilið að fá hlýðni okkar og tilbeiðslu. — Sálmur 63:7; Matteus 22:36, 37.