Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spádómar um nánustu framtíð okkar

Spádómar um nánustu framtíð okkar

Spádómar um nánustu framtíð okkar

PÉTUR postuli skrifaði um framtíð mannsins hér á jörðinni. Hann sagði: „Eftir fyrirheiti hans [Guðs] væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Loforð um „nýjan himin og nýja jörð“ var fyrst gefið fyrir milligöngu Jesaja spámanns. (Jesaja 65:17; 66:22) Með því að vitna í þennan spádóm gaf Pétur til kynna að hann hefði ekki ræst að fullu á hans dögum.

Seinna, um árið 96, fékk Jóhannes postuli opinberun þar sem hin „nýja jörð“ var sett í samhengi við Guðsríki og þá blessun sem það hefur í för með sér. (Opinberunarbókin 21:1-4) Spádómar Jesú og Páls postula um ástandið, sem myndi ríkja rétt áður en Guðsríki tæki völdin, eru að rætast núna. Við getum því vænst þess að þessi nýi heimur komi von bráðar fyrir atbeina Guðsríkis. Hvernig verður þessi heimur? Við getum lesið um það í Jesajabók.

Blessanir í nýja heiminum

Friður um allan heim og sameinuð tilbeiðsla. „Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:2-4.

Friður milli manna og dýra. „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru, og ljónið mun bíta gras eins og nautið . . . Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.“ — Jesaja 11:6-9.

Nægur matur handa öllum. „Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni.“ — Jesaja 25:6.

Enginn deyr framar. „[Guð] mun . . . afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað.“ — Jesaja 25:8.

Dánir fá upprisu. „Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna, lík þeirra rísa upp. Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna . . . jörðin [mun] fæða þá sem dánir eru.“ — Jesaja 26:19.

Messías er réttlátur dómari. „Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.“ — Jesaja 11:3, 4.

Blindir og heyrnarlausir læknast. „Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast.“ — Jesaja 35:5.

Óbyggðir verða frjósamar. „Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri. Eins og dverglilja skal hún blómgast, gleðjast, gleðjast og fagna.“ — Jesaja 35:1, 2.

Ný jörð. „Ég skapa nýjan himin [nýja himneska stjórn] og nýja jörð [nýtt réttlátt mannfélag] og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa . . . Menn [íbúar nýja heimsins sem Guð hefur lofað] munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra. Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í, ekki planta og annar neyta en þjóð mín mun ná aldri trjánna og mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar. Þeir munu ekki erfiða til einskis og ekki eignast börn sem deyja fyrir tímann því að þeir eru niðjar þeirra sem Drottinn hefur blessað og börn þeirra með þeim. Áður en þeir hrópa mun ég svara og áður en þeir hafa orðinu sleppt mun ég bænheyra.“ „Eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, standa frammi fyrir augliti mínu, segir Drottinn, munu niðjar yðar og nafn standa þar.“ — Jesaja 65:17-25; 66:22.

Spádómar um stórkostlega framtíð

Það er ekki bara í Jesajabók sem spáð er um blessanir framtíðarinnar. Biblían er full af spádómum um allt það sem Guð ætlar að gera fyrir milligöngu ríkis síns sem hann hefur falið Kristi að stjórna. * Langar þig til að lifa í paradís hér á jörð? Þú getur það. Aflaðu þér þekkingar á því sem Biblían kennir um fyrirætlun Guðs og kynntu þér hvernig þú getur orðið hluti af henni. Vottar Jehóva vilja mjög gjarnan hjálpa þér við það.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Fleiri upplýsingar um ríki Guðs og hverju það mun koma til leiðar er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían? á bls. 76-85. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Menn munu búa í friði hver við annan og við dýrin.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Dánir munu lifna á ný.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Öll jörðin verður paradís.