Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spádómar um okkar daga

Spádómar um okkar daga

Spádómar um okkar daga

Í BIBLÍUNNI eru spádómar þess efnis að ríki Guðs muni koma á varanlegum friði og hamingju hér á jörð. (Daníel 2:44) Í faðirvorinu kenndi Jesús lærisveinum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Í miklum spádómi, sem Jesús sagði lærisveinunum á Olíufjallinu, spáði hann ákveðnum atburðum og aðstæðum sem myndu verða rétt áður en þetta ríki tæki til starfa hér á jörð. Saman ættu þessir atburðir að mynda ákveðið tákn sem allt hjartahreint fólk myndi koma auga á. Hve mörgum atriðum úr þessu tákni hefur þú orðið vitni að?

Alþjóðleg stríð. Jesús sagði: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 höfðu stríð oftast verið svæðisbundin. Heimsstyrjöldin breiddist ekki einungis út um stóran hluta jarðarinnar heldur kom hún einnig af stað örari þróun í vopnaframleiðslu en áður hafði þekkst. Til dæmis var nýlega búið að finna upp flugvélar. Í stríðinu voru þær síðan notaðar til að varpa sprengjum á óbreytta borgara. Fjöldaframleiðsla á vopnum gerði að verkum að fleiri lágu í valnum en nokkur hefði getað ímyndað sér. Um helmingur þeirra 65 milljóna hermanna, sem tóku þátt í stríðinu, féllu eða særðust. En þegar leið á 20. öldina hélt blóðbaðið áfram. Sagnfræðingur sagði að það yrði „aldrei vitað með vissu“ hve margir hermenn og óbreyttir borgarar hefðu fallið í síðari heimsstyrjöldinni. Og enn geysa stríð.

Hungur á mörgum stöðum. Jesús sagði: „Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7) Árið 2005 sagði í tímaritinu Science: „Í heiminum eru 854 milljónir manna (um 14% jarðarbúa) sem búa í lengri eða skemmri tíma við vannæringu.“ Árið 2007 kom fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að 33 lönd skorti mat til að brauðfæða íbúa sína. En nú hefur heimsframleiðsla á korni aukist. Hvernig stendur þá á þessum skorti? Ein ástæðan er sú að land og korn, sem nota mætti til að brauðfæða fólk, er frekar nýtt til að framleiða etanól. „Það þarf jafnmikið korn til að framleiða etanól í eina áfyllingu á fjórhjóladrifinn jeppa og þarf til að brauðfæða einn mann í heilt ár,“ sagði í dagblaðinu The Witness í Suður-Afríku. Í iðnríkjunum hefur hækkandi matvöruverð jafnvel neytt fólk til að velja á milli þess að kaupa mat eða borga fyrir aðrar nauðsynjar, eins og lyf eða húshitun.

Öflugir jarðskjálftar. Jesús sagði: „Þá verða landskjálftar miklir.“ (Lúkas 21:11) Ef þér finnst fleiri verða fyrir tjóni vegna jarðskjálfta en áður hefurðu rétt fyrir þér. „Jarðskjálftavirkni hefur aukist skyndilega um allan hnöttinn,“ sagði indverskur jarðskjálftafræðingur að nafni R. K. Chadha árið 2007. „Enginn veit af hverju.“ Enn fremur hefur hröð fólksfjölgun á jarðskjálftasvæðum gert það að verkum að fleiri verða fyrir tjóni í þessum hamförum. Jarðskjálftinn í Indlandshafi 2004 og flóðbylgjan, sem fylgdi í kjölfarið, var „sá mannskæðasti í nærri 500 ár“, samkvæmt U.S. Geological Survey.

Illviðráðanlegir sjúkdómar. „Þá verða . . . drepsóttir,“ sagði Jesús. (Lúkas 21:11) Bæði gamlir og nýir sjúkdómar leggjast á stöðugt fleira fólk um allan heim og erfitt hefur reynst að finna lækningu við þeim. Sem dæmi má nefna að hvað eftir annað hefur þurft að draga úr alþjóðlegum markmiðum um að útrýma malaríu vegna þess að mönnum hefur til þessa ekki tekist að ná stjórn á sjúkdómnum. Auk þess hafa gamalkunnir sjúkdómar eins og berklar og nýrri sjúkdómar eins og alnæmi drepið milljónir manna. „Einn þriðji af íbúum heims er smitaður af berklum,“ segir í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Stofnunin segir einnig að í mörgum löndum stuðli HIV-veiran að útbreiðslu berkla. Á hverri sekúndu smitast nýr einstaklingur af berklum og berklagerillinn verður sífellt lyfþolnari. Árið 2007 greindist sjúklingur í Evrópu með berkla sem „ekkert einasta lyf gat unnið á,“ samkvæmt tímaritinu New Scientist.

Siðferðilegt og félagslegt hrun. „Vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna,“ sagði Jesús. (Matteus 24:12) Auk þess sagði Páll postuli fyrir að siðferðileg og félagsleg gild yrðu látin lönd og leið. Hann lýsti hvernig ástandið myndi verða „á síðustu dögum“, rétt áður en ríki Guðs myndi binda enda á þetta heimskerfi: „Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hefurðu ekki tekið eftir að fólk sýnir þessa slæmu eiginleika meira en áður fyrr?

Jesús og Páll nefndu ekki alla þá sögulegu, félagslegu og stjórnmálalegu þætti sem hafa stuðlað að því að heimsástandið er eins og það er. Í spádómum þeirra er engu að síður lýst nákvæmlega atburðum og viðhorfum sem við höfum orðið vitni að nú á dögum. En hvað um framtíðina? Spádómar Jesaja um komu Messíasar reyndust áreiðanlegir. En Jesaja spáði líka hvaða breytingar Guðsríki muni hafa í för með sér, jarðarbúum til mikillar blessunar. Skoðum það nánar í næstu grein.

[Mynd á blaðsíðu 6]

„Þjóð mun rísa gegn þjóð.“

[Mynd á blaðsíðu 7]

„Þá verða . . . drepsóttir.“

[Credit line]

© WHO/P. Virot