Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frumkristnir menn í heimi grískrar tungu

Frumkristnir menn í heimi grískrar tungu

Frumkristnir menn í heimi grískrar tungu

GRÍSKA var töluð á stórum hluta þess svæðis þar sem kristnir menn á fyrstu öld boðuðu trú sína. Ritningin, sem þeir notuðu til að rökstyðja boðskapinn um Jesú, var til á grísku. Þegar þeim var innblásið að skrifa rit Nýja testamentisins, sem svo er kallað, skrifuðu flestir á grísku og notuðu orð, orðtök og myndmál sem var auðskilið fólki sem bjó við grísk menningaráhrif. En hvorki Jesús, postularnir né nokkrir af riturum Nýja testamentisins voru þó grískir. Þeir voru allir Gyðingar. — Rómverjabréfið 3:1, 2.

Hvernig stóð á því að grísk tunga gegndi svona mikilvægu hlutverki í útbreiðslu kristninnar? Hvernig gerðu kristnir ritarar og trúboðar fyrstu aldar boðskap sinn aðlaðandi fyrir grískumælandi lesendur og áheyrendur? Og af hverju er þetta söguskeið áhugavert fyrir okkur?

Útbreiðsla grískrar menningar

Alexander mikli lagði undir sig Persaveldi á fjórðu öld f.Kr. og lagðist síðan í frekari landvinninga. Til að sameina þær ólíku þjóðir, sem hann lagði undir sig, hvöttu hann og arftakar hans til þess að þær tækju upp hellenska menningu, það er að segja gríska tungu og siði.

Jafnvel eftir að Rómverjar lögðu gríska heimsveldið undir sig og sviptu það pólitískum völdum hélt grísk menning áfram að hafa sterk áhrif á grannþjóðir Grikkja. Á annarri og fyrstu öld f.Kr. hafði rómverski aðallinn mikið dálæti á öllu sem grískt var — listum, arkitektúr, bókmenntum og heimspeki. Slíkt var dálætið að skáldið Hóratíus sagði: „Hinir herteknu Grikkir hertóku ósiðaðan sigurvegarann.“

Í valdatíð Rómverja blómstraði grísk menning í helstu borgum Litlu-Asíu, Sýrlands og Egyptalands. Hellensk menning setti mark sitt á alla þætti mannlífsins, allt frá stjórnvaldsstofnunum og löggjöf til verslunar, iðnaðar og tísku. Í flestum borgum, þar sem grísk menning festi rætur, voru íþróttahús þar sem ungir menn þjálfuðu sig, og leikhús þar sem sýnd voru grísk leikrit.

„Þótt Gyðingar væru tregir til soguðust þeir líka hægt og bítandi út í þessa straumiðu hellenskrar menningar,“ segir sagnfræðingurinn Emil Schürer. Heittrúaðir Gyðingar spyrntu við fótum í fyrstu af ótta við heiðin áhrif grískrar menningar, en þrátt fyrir það setti hún smám saman mark sitt á marga þætti daglegs lífs meðal Gyðinga. Eins og Schürer bendir á var „yfirráðasvæði Gyðinga frekar lítið og umkringt nánast á allar hliðar af hellenskum héruðum sem Gyðingar neyddust til að eiga í stöðugum samskiptum við vegna verslunar“.

Hlutverk Sjötíumannaþýðingarinnar

Margir Gyðingar fluttust búferlum og settust að víða í borgum umhverfis Miðjarðarhaf þar sem töluð var gríska og hellensk menning var ráðandi. Gyðingar iðkuðu trú sína áfram og sóttu hinar árlegu hátíðir í Jerúsalem. En með tíð og tíma hrakaði hebreskukunnáttu margra. * Það var því ærin ástæða til að þýða hin hebresku rit Biblíunnar á gríska tungu sem töluð var af fjöldanum. Fræðimenn af hópi Gyðinga hófust handa við þýðinguna um 280 f.Kr., sennilega í Alexandríu í Egyptalandi sem var miðstöð hellenskrar menningar á þeim tíma. Þar varð til Sjötíumannaþýðingin.

Sagt er að tilkoma Sjötíumannaþýðingarinnar hafi markað tímamót. Með henni var lokið upp fjársjóðum hebresku ritanna fyrir vestrænni menningu. Án hennar hefði vitneskjan um samskipti Guðs við Ísraelsmenn verið geymd í lítt þekktum ritum á máli sem fáir skildu, og hefði ekki nýst til að greiða fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins um víða veröld. En í Sjötíumannaþýðingunni var að finna þá forsögu, þau hugtök og það orðfæri sem þurfti til að miðla þekkingu á Jehóva Guði til fólks af alls konar þjóðerni. Sökum útbreiðslu sinnar var grísk tunga betur til þess fallin en nokkurt annað tungumál að útbreiða sannleikann um Guð.

Trúskiptingar og guðrækið fólk

Á annarri öld f.Kr. voru Gyðingar búnir að þýða mörg af bókmenntaverkum sínum á grísku og farnir að frumsemja ný verk á grísku. Þetta átti drjúgan þátt í því að upplýsa heiðnar þjóðir um trú og sögu Ísraelsmanna. Sagnfræðingar segja að á þeim tíma hafi margir heiðnir menn „átt náin samskipti við samfélög Gyðinga, tekið þátt í guðsdýrkun þeirra og haldið lög þeirra að einhverju eða öllu leyti“. — The History of the Jewish People in the Age of Jesus Christ.

Sumir heiðnir menn tóku gyðingatrú, létu umskerast og urðu þar með trúskiptingar eins og það er kallað. Aðrir tóku upp ýmislegt úr gyðingdómnum án þess að taka beinlínis gyðingatrú. Í grískum bókmenntum eru þeir oft kallaðir „guðræknir“ eða „guðhrætt fólk“. Kornelíus er nefndur „trúmaður og guðrækinn“. Í Litlu-Asíu og Grikklandi hitti Páll postuli margt guðrækið fólk sem átti náið samneyti við Gyðinga. Svo dæmi sé tekið ávarpaði hann hóp fólks í samkunduhúsinu í Antíokkíu í Pisidíu með þessum orðum: „Ísraelsmenn og aðrir þið sem óttist Guð.“ — Postulasagan 10:2; 13:16, 26; 17:4; 18:4.

Þegar lærisveinar Jesú tóku að boða fagnaðarerindið í samfélögum Gyðinga utan Júdeu voru margir af áheyrendunum fólk sem hafði alist upp við grísk menningaráhrif. Í þessum samfélögum voru góðir vaxtarmöguleikar fyrir kristnina. Þegar ljóst varð að Guð væri farinn að veita heiðnum mönnum von um hjálpræði gerðu lærisveinarnir sér grein fyrir því að í augum Guðs skipti ekki máli hvort maðurinn væri „Gyðingur“ eða „grískur“. — Galatabréfið 3:28, neðanmáls.

Trúboð meðal Grikkja

Trúar- og siðferðisgildi annarra þjóða voru slík að sumir kristnir menn af gyðingaættum voru þó hikandi í fyrstu við að opna kristna söfnuðinn fyrir fólki af heiðnum uppruna. Þegar ljóst varð að Guð vildi taka við þessu fólki gáfu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem út þau boð að þeir sem tækju trú yrðu að halda sig frá blóði, saurlifnaði og skurðgoðadýrkun. (Postulasagan 15:29) Nauðsynlegt var að taka þetta skýrt fram vegna þess að grísk-rómverskt þjóðfélag var gagnsýrt „svívirðilegum girndum“ og samkynhneigð. Ekkert slíkt átti heima meðal kristinna manna. — Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:9, 10.

Páll postuli er þekktastur þeirra sem boðaði kristna trú í hinum grískumælandi heimi á fyrstu öld. Við rætur Aresarhæðar má enn sjá bronsskjöld til minningar um fræga ræðu sem hann flutti þar í borg. Lesa má frásöguna af því í 17. kafla Postulasögunnar. Páll hóf ræðu sína með orðinu „Aþeningar“ en það var hefðbundið upphafsorð grískra ræðumanna. Það hefur vafalaust fallið áheyrendum hans vel í geð en meðal þeirra voru bæði Epíkúringar og Stóumenn. En þótt Páli væri skapraun að skurðgoðum borgarinnar gætti hann þess að láta það ekki í ljós né gagnrýna trú áheyrenda. Hann reyndi heldur að skapa jákvætt viðmót með því að nefna að þeir virtust mjög trúhneigðir. Hann minntist á altari þeirra helgað „ókunnum guði“ og lagði sameiginlegan grundvöll með því að segja þeim að þetta væri guðinn sem hann ætlaði að ræða við þá um. — Postulasagan 17:16-23.

Páll náði til áheyrenda sinna með því að nota hugtök og orðfæri sem þeir viðurkenndu. Stóumenn gátu tekið undir með honum að mennirnir fengju lífið frá Guði, að allir menn væru sömu ættar, að Guð væri ekki langt frá neinum af okkur og að líf mannanna væri háð honum. Páll rökstuddi hið síðastnefnda með því að vitna í verk Stóuskáldanna Aratosar (Phænomena) og Kleanþesar (Sálmur til Seifs). Epíkúringar hafa einnig komist að raun um að þeir áttu margt sameiginlegt með Páli. Guð er lifandi og það er hægt að kynnast honum. Hann er sjálfum sér nógur, þarfnast einskis frá mönnunum og býr ekki í musterum sem eru gerð með höndum manna.

Áheyrendur Páls þekktu þau hugtök sem hann notaði. Sumar heimildir segja að grískir heimspekingar hafi oft notað orð eins og ‚heimurinn‘ (kosmos), ‚ætt‘ og ‚guðdómur‘. (Postulasagan 17:24-29) Ekki svo að skilja að Páll hafi verið tilbúinn til að vinna þá á sitt band með málamiðlunum. Lokaorð hans um upprisu og dóm gengu meira að segja þvert á skoðanir þeirra. Engu að síður kynnti hann boðskapinn með þeim hætti að hann höfðaði til áheyrenda sem voru vanir heimspekilegum vangaveltum.

Mörg af bréfum Páls eru stíluð á söfnuði í grískum borgum eða rómverskum nýlendum þar sem grískir siðir voru í hávegum hafðir. Páll skrifar á lipurri og kröftugri grísku og notar sér vel hugmyndir og dæmi sem þekkt voru í grískri menningu. Hann minnist á íþróttaleiki, laun sigurvegarans, tyftarann sem fylgir dreng í skóla og margt annað sem tilheyrði daglegu lífi Grikkja. (1. Korintubréf 9:24-27; Galatabréfið 3:24, 25) En þótt Páll hafi gjarnan notað orðfæri grískunnar hafnaði hann afdráttarlaust siðferði og trúarhugmyndum Grikkja.

Að vera öllum allt

Páll postuli vissi að hann yrði að vera „öllum allt“ til að koma fagnaðarerindinu til fólks. „Ég hef verið Gyðingum sem Gyðingur til þess að ávinna Gyðinga,“ skrifaði hann, og hann var líka Grikkjum sem Grikki til að hjálpa þeim að skilja vilja Guðs. Páll var auðvitað vel í stakk búinn til þess því að hann var Gyðingur ættaður frá borg þar sem grísk menning var allsráðandi. Vottar Jehóva nú á tímum ættu að líkja eftir honum. — 1. Korintubréf 9:20-23.

Nú á dögum flytur fólk búferlum í milljónatali milli landa og menningarsvæða. Það er gríðarleg áskorun fyrir kristna menn sem boða fagnaðarerindið um ríkið og fylgja fyrirmælum Jesú um að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matteus 24:14; 28:19) Þeir vita af langri reynslu að þegar fólk heyrir fagnaðarerindið á móðurmáli sínu snertir það hjartað og fólk tekur við boðskapnum.

Það er af þessari ástæðu sem þetta tímarit, Varðturninn kunngerir ríki Jehóva, er gefið út í hverjum mánuði á 169 tungumálum og tímaritið Vaknið! á 81 tungumáli. Og til að geta boðað aðfluttu fólki fagnaðarerindið leggja margir vottar Jehóva það á sig að læra nýtt tungumál — jafnvel erfið mál eins og arabísku, kínversku og rússnesku. Markmiðið er hið sama og það var hjá trúboðum fyrstu aldar. Páll postuli lýsti því vel þegar hann sagði: „Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ — 1. Korintubréf 9:22.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Margir Gyðingar í Jerúsalem voru grískumælandi. Til dæmis eru nefndir í Postulasögunni „nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu en aðrir frá Kilikíu og Asíu“. Sennilegt er að þeir hafi talað grísku. — Postulasagan 6:1, 9.

[Kort á blaðsíðu 10]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Róm

GRIKKLAND

Aþena

ASÍA

Antíokkía (í Pisidíu)

KILIKÍA

SÝRLAND

JÚDEA

Jerúsalem

EGYPTALAND

Alexandría

Kýrene

MIÐJARÐARHAF

[Mynd á blaðsíðu 11]

„Sjötíumannaþýðingin“ stuðlaði að því að útbreiða þekkingu á Jehóva á fyrstu öld.

[Credit line]

Israel Antiquities Authority.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Skjöldur við Aresarhæð þar sem ræðu Páls er minnst.