Skapari sem er verður tilbeiðslu okkar
Nálægðu þig Guði
Skapari sem er verður tilbeiðslu okkar
HEFUR þú einhvern tíma velt því fyrir þér hver sé tilgangur lífsins? Þeir sem trúa að lífið sé tilkomið vegna þróunar, þar sem engin hugsun býr að baki, leita árangurslaust að svari. Það sama er ekki hægt að segja um þá sem viðurkenna þann óhrekjandi sannleika að Jehóva Guð sé uppspretta lífsins. (Sálmur 36:10) Þeir vita að hann skapaði okkur í ákveðnum tilgangi eins og kemur fram í Opinberunarbókinni 4:11. Skoðum hvernig þessi orð, sem Jóhannes postuli skrifaði, útskýra hvers vegna við erum til.
Jóhannes skrifar um himneskan kór sem lofsyngur Guð: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva einn er þess verður að fá slíka lotningu og á hana skilið. Hvers vegna? Vegna þess að hann „hefur skapað alla hluti“. Hvað ætti þessi vitneskja að fá vitsmunagæddar sköpunarverur hans til að gera?
Jehóva er sagður verður þess að „fá“ dýrðina, heiðurinn og máttinn. Hann er án efa dýrlegasta, virðingarverðasta og voldugasta persóna í alheiminum. Meirihluti mannkyns viðurkennir hann samt ekki sem skapara sinn. Þrátt fyrir það finnast þeir sem greinilega sjá „ósýnilega veru“ hans af sköpunarverkum hans. (Rómverjabréfið 1:20) Með þakklæti í hjörtum finna þeir sig knúna til að gefa Jehóva heiðurinn og dýrðina. Þeir benda öllum sem heyra vilja á sannanirnar fyrir því að Jehóva hafi skapað alla hluti á undursamlegan hátt og verðskuldi þess vegna lotningu okkar og virðingu. — Sálmur 19: 2, 3; 139:14.
En hvernig getur Jehóva fengið mátt frá tilbiðjendum sínum? Að sjálfsögðu getur engin vera gefið almáttugum skapara mátt eða kraft. (Jesaja 40:25, 26) En þar sem við erum sköpuð eftir Guðs mynd búum við, að takmörkuðu leyti, yfir eiginleikum Guðs og einn þeirra er máttur. (1. Mósebók 1:27) Ef við kunnum að meta það sem skaparinn hefur gert fyrir okkur, mun það knýja okkur til þess að nota krafta okkar og orku til þess að heiðra hann og vegsama. Í stað þess að eyða orkunni eingöngu í að vinna að okkar eigin hagsmunum finnst okkur að Jehóva sé verður þess að við notum alla okkar krafta í þjónustunni við hann. — Markús 12:30.
Hvers vegna erum við þá til? Seinni hluti Opinberunarbókarinnar 4:11 svarar því: „Því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Við sköpuðum okkur ekki sjálf. Við erum til vegna þess að það er vilji Guðs. Af þeirri ástæðu væri líf okkar innantómt og tilgangslaust ef við myndum eingöngu lifa því í eigingjörnum tilgangi. Til þess að finna hugarfrið og upplifa gleði, ánægju og fullnægju í lífinu verðum við að læra hver vilji Guðs er og lifa svo í samræmi við hann. Aðeins þá munum við finna tilganginn með sköpun okkar og tilvist. — Sálmur 40:9.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 31]
NASA, ESA og A. Nota (STScI)