Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúin hjálpaði mér þegar sorgin knúði dyra

Trúin hjálpaði mér þegar sorgin knúði dyra

Trúin hjálpaði mér þegar sorgin knúði dyra

Soledad Castillo segir frá

Nokkrum sinnum á ævinni hefði einsemdin getað yfirbugað mig — en svo fór ekki. Þegar ég var 34 ára missti ég eiginmann minn. Sex árum síðar dó faðir minn. Átta mánuðum eftir lát föður míns fékk ég að vita að einkasonur minn gengi með ólæknandi sjúkdóm.

ÉG HEITI Soledad sem merkir „einsemd“. Þótt undarlegt sé hefur mér samt aldrei fundist ég vera ein og yfirgefin. Þegar sorgin knúði dyra trúði ég að Jehóva Guð væri hjá mér og ‚héldi í hægri hönd mína og segði við mig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“‘ (Jesaja 41:13) Mig langar til að segja frá því hvernig ég tókst á við sorglega atburði í lífi mínu og hvernig það styrkti samband mitt við Jehóva.

Hamingjusamt líf og litlar áhyggjur

Ég fæddist í Barcelona á Spáni 3. maí 1961 og var einkabarn foreldra minna, José og Soledad. Þegar ég var níu ára kynntist móðir mín sannindum Biblíunnar. Hún hafði leitað svara við trúarlegum spurningum sínum en ekki verið ánægð innan kirkjudeildar sinnar. Dag einn heimsóttu hana tveir vottar Jehóva og notuðu Biblíuna til að svara öllum spurningum hennar. Hún þáði biblíunámskeið þegar í stað.

Fljótlega lét mamma skírast sem vottur Jehóva og nokkrum árum síðar fylgdi pabbi fordæmi hennar. Eliana, sem leiðbeindi mömmu við biblíunámið, tók fljótlega eftir miklum áhuga hjá mér á orði Guðs. Þrátt fyrir ungan aldur lagði hún til að ég fengi einkakennslu við biblíunám. Með hjálp hennar og vegna hvatningar móður minnar lét ég skírast þegar ég var 13 ára.

Ég bað oft til Jehóva á unglingsárunum — sérstaklega þegar ég þurfti að taka ákvarðanir. Á þeim árum átti ég satt að segja við litlar áhyggjur og fá vandamál að stríða. Í söfnuðinum eignaðist ég marga vini og samband mitt við foreldrana var náið. Árið 1982 giftist ég Felipe en hann var vottur Jehóva og hafði sömu trúarlegu markmiðin og ég.

Við ólum barnið okkar upp í kærleika til Jehóva

Fimm árum síðar fæddist okkur yndislegur drengur sem við nefndum Saúl. Við vorum mjög ánægð að hafa eignast barn og vonuðum að Saúl yrði hraustur og góður drengur sem elskaði Guð. Við Felipe vorum mikið með Saúl, töluðum við hann um Jehóva, borðuðum saman, fórum með hann í almenningsgarðinn og lékum við hann. Saúl þótti gaman að fara með pabba sínum þegar hann sagði öðrum frá sannindum Biblíunnar og pabbi hans lét hann taka þátt í boðunarstarfinu frá unga aldri. Hann kenndi Saúl að hringja dyrabjöllum og bjóða fólki smárit.

Ást okkar og fræðsla skilaði sér. Þegar Saúl var sex ára fór hann venjulega með okkur út í boðunarstarfið. Honum þótti mjög gaman að hlusta á biblíusögur og hann hlakkaði til fjölskyldunámsins. Skömmu eftir að hann byrjaði í skóla var hann farinn að taka ýmsar smærri ákvarðanir á grundvelli þekkingar sinnar á Biblíunni.

Þegar Saúl var sjö ára breyttist fjölskyldulífið á örlagaríkan hátt. Felipe fékk veirusýkingu í lungun. Í 11 mánuði barðist hann við sjúkdóminn. Hann var óvinnufær og oft rúmliggjandi. Hann lést 36 ára að aldri.

Ég tárast enn þegar ég minnist erfiðleikanna þetta ár. Ég horfði upp á manninn minn verða smátt og smátt undir í baráttunni við veiruna og það var ekkert sem ég gat gert. Meðan á þessu stóð reyndi ég að uppörva Felipe þótt ég vissi innst inni að vonir mínar og áætlanir væru brostnar. Ég las fyrir hann greinar um biblíuleg málefni og það gaf okkur styrk þegar við gátum ekki mætt á safnaðarsamkomur. Sterk tómleikatilfinning greip mig þegar hann dó.

En Jehóva sá um mig. Ég bað hann aftur og aftur um að gefa mér anda sinn. Ég þakkaði honum fyrir hamingjusömu árin sem við Felipe höfðum átt saman og fyrir vonina um að sjá hann aftur í upprisunni. Ég bað Guð um að hjálpa mér að gleðjast yfir góðum minningum og gefa mér visku til að ala barnið okkur upp í sannkristinni trú. Þrátt fyrir sársaukann lét ég huggast.

Foreldrar mínir og aðrir í söfnuðinum styrktu mig mikið. Eigi að síður varð ég alfarið að hafa umsjón með biblíunámi Saúls og kenna honum að þjóna Jehóva. Fyrrverandi vinnuveitandi bauð mér gott skrifstofustarf en ég vildi heldur vinna við ræstingar svo að ég gæti verið meira með Saúl og sinnt honum eftir að hann kæmi heim úr skólanum.

Það var einn ritningarstaður sem undirstrikaði hve mikilvægt væri fyrir mig að fræða Saúl um vilja Guðs: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6) Þessi orð veittu mér þá von að Jehóva myndi blessa viðleitni mína ef ég gerði mitt besta til að fræða Saúl um andleg verðmæti. Að vísu þurfti ég að færa fórnir varðandi efnahag og afkomu en mér fannst ég þurfa að verja tíma með syni mínum og það vó miklu þyngra en einhver efnisleg gæði.

Faðir minn lést þegar Saúl var 14 ára. Það var mikið áfall fyrir hann að missa afa sinn. Hann upplifði að nýju allan sársaukann sem hann varð fyrir þegar faðir hans dó. Faðir minn hafði verið honum góð fyrirmynd um kærleika til Jehóva. Eftir missinn leit Saúl á sig sem eina „karlmanninn“ í fjölskyldunni og nú bæri honum að annast móður sína og ömmu.

Í baráttu við hvítblæði

Átta mánuðum eftir lát föður míns sagði heimilislæknirinn mér að fara með Saúl á sjúkrahúsið þar sem hann þjáðist af ofþreytu. Eftir nokkrar rannsóknir komust læknarnir að þeirri niðurstöður að Saúl væri með hvítblæði. *

Næstu tvö og hálft árið var Saúl með annan fótinn á sjúkrahúsinu og barðist við krabbameinið og lyfjameðferðina sem læknarnir notuðu í viðureigninni við sjúkdóminn. Meðferðin fyrstu sex mánuðina leiddi til þess að hlé varð á sjúkdóminum og það stóð yfir í um það bil 18 mánuði. En krabbameinið tók sig upp og Saúl gekkst undir aðra styttri lyfjameðferð sem dró alvarlega máttinn úr honum. Að þessu sinni varði sóttarhléið aðeins í stuttan tíma og Saúl gat ekki tekist á við þriðju meðferðarlotuna. Hann hafði vígt líf sitt Guði og látið í ljós að hann óskaði eftir að láta skírast sem vottur Jehóva — en hann lést þegar hann var nýorðinn 17 ára.

Læknar mæla oft með blóðgjöfum til að vinna á móti áhrifum lyfjameðferðarinnar sem gengur mjög nærri sjúklingnum. Blóðgjafir geta auðvitað ekki læknað sjúkdóminn. Þegar læknarnir greindu fyrst hvítblæðið urðum við Saúl að taka skýrt fram að við þæðum ekki slíka meðferð af því að við vildum hlýða lögum Jehóva um að ‚halda okkur frá blóði‘. (Postulasagan 15:19, 20) Þegar ég var ekki á staðnum varð Saúl nokkrum sinnum að sannfæra læknana um að hann hefði sjálfur tekið þá ákvörðun að þiggja ekki blóð. (Sjá rammagreinina bls. 23.)

Læknarnir komust að lokum að þeirri niðurstöðu að Saúl væri þroskað ungmenni sem skildi fullkomlega eðli sjúkdómsins. Þeir ákváðu að virða afstöðu okkar og buðu meðferð án blóðs þótt við værum undir stöðugum þrýstingi að skipta um skoðun. Ég var mjög stolt af Saúl þegar ég hlustaði á hann útskýra afstöðu sína til blóðs fyrir læknunum. Hann hafði greinilega myndað náið samband við Jehóva.

Sumarið, sem við fengum fyrst að vita um sjúkdóm Saúls, var tilkynnt á umdæmismóti okkar í Barcelóna að bókin Nálægðu þig Jehóva væri komin út. Þessi ómetanlega bók reyndist okkur sem akkeri þegar við horfðum fram á öryggisleysi og óvissu framtíðarinnar. Við lásum saman í henni þann tíma sem við vorum á sjúkrahúsinu. Á erfiðleikatímunum, sem á eftir komu, rifjuðum við oft upp það sem við höfðum lesið og lært í bókinni. Orðin í Jesaja 41:13, sem minnst er á í inngangi bókarinnar, höfðu sérstaka þýðingu fyrir okkur. Þar stendur: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“

Trú Saúls snertir hjörtu annarra

Þroski Saúls og bjartsýni höfðu mikil áhrif á lækna og hjúkrunarfólk á Vall d’Hebron-sjúkrahúsinu. Öllum sem önnuðust hann þótti vænt um hann. Blóðmeinafræðingur, sem annast krabbameinssjúklinga, hefur síðan haft til meðferðar önnur börn votta Jehóva sem hafa þjáðst af hvítblæði og hefur sýnt þeim mikla virðingu. Honum er minnisstætt hvernig Saúl sýndi staðfestu í trúnni, hvernig hann sýndi hugrekki þegar dauðinn blasti við og hve jákvæð viðhorf hann hafði til lífsins. Hjúkrunarfræðingarnir, sem önnuðust hann á sjúkrahúsinu, sögðu við Saúl að hann væri besti sjúklingurinn sem þeir hefðu haft á deildinni. Þeir sögðu að hann hefði aldrei kvartað og aldrei misst kímnigáfuna — jafnvel þegar dauðinn nálgaðist.

Sálfræðingur sagði mér að mörg börn á hans aldri, sem fengju banvænan sjúkdóm eins og þennan, ættu til að snúast gegn læknum og foreldrum vegna vanlíðunar og vonbrigða. Hann tók eftir því að svo var ekki farið með Saúl. Hann var undrandi á því hvað Saúl var rólegur og jákvæður. Við Saúl fengum þarna tækifæri til að vitna fyrir sálfræðingnum um trú okkar.

Ég minnist einnig þess hvernig Saúl hjálpaði óbeint votti Jehóva í söfnuði okkar. Hann hafði þjáðst af þunglyndi í sex ár og lyf höfðu ekki bætt heilsu hans. Hann vakti nokkrum sinnum yfir Saúl um nætur og hjúkraði honum á spítalanum. Hann sagði mér að afstaða Saúls til sjúkdómsins hafi snortið sig. Hann tók eftir því að Saúl reyndi að uppörva alla sem heimsóttu hann þótt hann væri örmagna. „Fordæmi Saúls veitti mér hugrekki til að berjast við þunglyndið,“ sagði votturinn.

Þrjú ár eru nú liðin síðan Saúl dó. Sársaukinn er auðvitað enn til staðar. Ég er ekki kraftmikil en Guð hefur gefið mér ‚kraftinn mikla‘. (2. Korintubréf 4:7) Ég hef lært að jafnvel sársaukafyllsta og erfiðasta reynslan í lífinu getur haft jákvæðar hliðar. Ég lærði að afbera dauða eiginmanns míns, föður og sonar en það hefur gert mér auðveldara að vera óeigingjörn og skilningsrík við þá sem þjást. Umfram allt hefur það styrkt samband mitt við Jehóva. Ég get horft til framtíðarinnar án kvíða af því að himneskur faðir minn hjálpar mér. Hann heldur enn í hönd mína.

[Neðanmáls]

^ gr. 19 Saúl var haldinn eitilfrumuhvítblæði, alvarlegri tegund blóðkrabbameins sem eyðir hvítu blóðkornunum.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 23]

VEISTU HVERS VEGNA?

Þú veist kannski að vottar Jehóva þiggja ekki blóðgjafir. Veistu hvers vegna?

Þessi afstaða á sér biblíulega forsendu en er oft misskilin. Sumir halda að vottar Jehóva hafni allri læknismeðferð eða þyki lífið hreinlega ekki dýrmætt. Það er alrangt. Vottar Jehóva óska eftir bestu læknismeðferð, sem völ er á, handa sér og fjölskyldu sinni. Hins vegar vilja þeir að læknismeðferðin sé án blóðgjafar. Af hverju?

Þeir byggja afstöðu sína á mikilvægu lagaákvæði sem Guð setti mannkyni. Strax eftir Nóaflóðið leyfði Guð Nóa og fjölskyldu hans að borða kjöt. Aðeins eitt var undanskilið: Þau máttu ekki neyta blóðsins. (1. Mósebók 9:3, 4) Allir kynþættir manna eru komnir af Nóa þannig að þetta lagaákvæði nær til allra manna. Það hefur aldrei verið fellt úr gildi. Guð staðfesti þetta ákvæði rúmlega átta öldum síðar og skýrði fyrir Ísraelsmönnum að blóð væri heilagt og táknaði lífið sjálft. (3. Mósebók 17:14) Og meira en 1500 árum eftir það gáfu postular kristna safnaðarins öllum kristnum mönnum þau fyrirmæli að ‚halda sig frá blóði‘. — Postulasagan 15:29.

Vottar Jehóva fá ekki séð að það sé hægt að halda sig frá blóði en jafnframt veita blóði inn í líkamann. Þeir vilja því fá læknismeðferð án blóðgjafar. Afstaða þeirra hefur oft í för með sér að þeir fá enn betri læknismeðferð en ella. Það er eflaust ástæðan fyrir því að margir aðrir en vottar Jehóva vilja líka fá læknismeðferð án blóðgjafar.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Með Felipe, eiginmanni mínum, og Saúl, syni okkar.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Foreldrar mínir, José og Soledad.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Saúl, mánuði fyrir andlátið.