Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvers konar verkefnum sinnti Jesús sem trésmiður?

Stjúpfaðir Jesú var trésmiður og Jesús lærði sömu iðn. Þegar hann hóf boðunarstarf sitt „um þrítugt“ var hann ekki bara talinn „sonur smiðsins“ heldur var litið á hann sem fullgildan trésmið. — Lúkas 3:23; Matteus 13:55; Markús 6:3.

Í heimabæ Jesú var eflaust þörf fyrir landbúnaðaráhöld eins og plóga og ok. Mörg þessara áhalda voru að mestu úr tré. Einnig smíðuðu trésmiðir þess tíma húsgögn svo sem borð, stóla og kistur, ásamt hurðum, gluggum, sperrum og læsingum úr tré. Byggingarvinna var því stór hluti af starfi trésmiða.

Jóhannes skírari nefnir eitt sinn exi í myndlíkingu og líklegt er að Jesús og aðrir trésmiðir hafi notað þetta verkfæri til að fella tré. Síðan var unnið úr trénu á staðnum eða það flutt á verkstæði. Ef tréð var unnið á staðnum voru oftast gerðir bjálkar úr því. Þessi hluti vinnunnar hefur reynt talsvert á kraftana. (Matteus 3:10) Í spádómsbók Jesaja eru nefnd önnur verkfæri sem smiðir notuðu á þeim tíma: „Trésmiður mælir með þræði, dregur upp útlínur með krít, sker út viðinn með hnífi sínum, markar fyrir með sirkli.“ (Jesaja 44:13) Fornleifafundir hafa staðfest að á biblíutímum voru notaðir steinhamrar, bronsnaglar og sagir úr málmi. (2. Mósebók 21:6; Jesaja 10:15; Jeremía 10:4) Jesús notaði líklega verkfæri af þessu tagi.

Jesús nefndi „banka“ í einni af dæmisögum sínum. Hvers konar banka átti hann við og hvernig störfuðu þeir?

Jesús talaði um húsbónda sem áminnti illan og latan þjón og sagði: „Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.“ — Matteus 25:27.

Stórar fjármálastofnanir eins og við þekkjum nú á dögum voru ekki til þegar Jesús var uppi. Hins vegar hafði lengi tíðkast að fólk ávaxtaði fé sitt hjá mönnum sem síðan lánuðu öðrum með hærri vöxtum. Samkvæmt orðabókinni The Anchor Bible Dictionary var orðið algengt að lána fé gegn vöxtum í Grikklandi á fjórðu öld f.Kr. Á friðartímanum, sem ríkti í Rómaveldi, var algengt að vextir væru á bilinu 4 til 6 prósent á ársgrundvelli.

Samkvæmt Móselögunum var bannað að lána bágstöddum Ísraelmönnum peninga gegn vöxtum. (2. Mósebók 22:25) Þessi regla átti aðallega við lán til fátækra. En í dæmisögu Jesú er gefið til kynna að það hafi verið eðlilegt að lánardrottnar eða ‚bankar‘ lánuðu gegn vöxtum. Eins og Jesús var vanur notaði hann aðstæður sem áheyrendur hans þekktu.