Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er Guð?

Hver er Guð?

Hver er Guð?

HVERNIG myndirðu svara þessari spurningu? Sumir telja sig þekkja Guð vel og finnst hann vera eins og náinn vinur. Aðrir líta frekar á hann eins og fjarskyldan ættingja. Þeir trúa að hann sé til en vita lítið um hann. Ef þú trúir á Guð hvernig myndirðu þá svara eftirfarandi spurningum?

1. Er Guð raunveruleg persóna?

2. Heitir Guð eitthvað?

3. Er Jesús almáttugur Guð?

4. Er Guði annt um mig?

5. Viðurkennir Guð hvaða trúarbrögð sem er?

Ef þú spyrð fólk þessara spurninga færðu líklega mjög breytileg svör. Það er því ekki að furða að til séu alls konar bábiljur og ranghugmyndir um Guð.

Af hverju svörin skipta máli

Þegar Jesús Kristur talaði við trúaða konu sem hann hitti við brunn lagði hann áherslu á nauðsyn þess að þekkja sannleikann um Guð. Konan, sem var Samverji, gerði sér grein fyrir því að Jesús væri spámaður. En það var eitt sem truflaði hana. Trú Jesú var ólík hennar trú. Þegar hún tjáði Jesú áhyggjur sínar sagði hann beint út: „Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki.“ (Jóhannes 4:19-22) Jesús taldi greinilega ekki að allt trúað fólk þekkti Guð í raun og veru.

Þýða orð Jesú að enginn geti þekkt Guð? Nei. Í framhaldinu sagði hann við konuna: „Hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda.“ (Jóhannes 4:23) Ert þú meðal þeirra sem tilbiðja Guð „í anda og sannleika“?

Það er mjög mikilvægt fyrir þig að finna svar við þessari spurningu. Af hverju? Jesús lagði áherslu á nauðsyn þess að búa yfir nákvæmri þekkingu. Hann sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Já, framtíðarhorfur þínar eru nátengdar því að þekkja sannleikann um Guð.

Er hægt að þekkja sannleikann um Guð? Já. En hvar er hægt að finna þennan sannleika? Jesús sagði um sjálfan sig: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóhannes 14:6) Hann sagði líka: „Enginn veit . . . hver faðirinn er nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.“ — Lúkas 10:22.

Lykilinn að því að þekkja Guð er að finna í kennslu Jesús Krists, sonar Guðs. Jesús gefur okkur meira að segja eftirfarandi loforð: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:31, 32.

En hvernig myndi Jesús svara spurningunum fimm í byrjun greinarinnar?

[Mynd á blaðsíðu 4]

Tilbiður þú Guð sem þú þekkir ekki?