Þeir elskuðu orð Guðs
Þeir elskuðu orð Guðs
MIKILVÆGAR upplýsingar eru oft þýddar á fjölda tungumála til að tryggja að sem flestir skilji þær. Biblían, sem er orð Guðs, hefur að geyma þýðingarmikið efni. Enda þótt Biblían sé ævaforn var hún skrifuð „okkur til fræðslu“ og efni hennar getur veitt okkur hugrekki og vakið með okkur von um bjarta framtíð. — Rómverjabréfið 15:4.
Úr því að Biblían hefur að geyma mikilvægustu upplýsingar, sem færðar hafa verið í letur, er ekki nema rökrétt að hún sé þýdd á sem flest tungumál. Í aldanna rás hafa menn lagt á sig ómælt erfiði til að þýða Biblíuna andspænis heilsubresti, opinberum bönnum eða jafnvel líflátshótunum. Af hverju? Af því að þeir elskuðu orð Guðs. Í eftirfarandi grein er leitast við að varpa örlitlu ljósi á merkilega sögu biblíuþýðinga.
„Englendingar læra lögmál Krists best á ensku“
John Wycliffe fæddist um 1330. Guðsþjónustur á Englandi fóru þá fram á latínu. Almenningur talaði hins vegar ensku dagsdaglega. Fólk talaði ensku við nágranna sína og bað jafnvel til Guðs á ensku.
Wycliffe var kaþólskur prestur og talaði latínu reiprennandi. Hann taldi hins vegar rangt að nota latínu til að kenna orð Guðs því að hún var að hans mati tungumál yfirstéttarinnar. „Það ætti að kenna lög Guðs á því máli sem auðskildast er,“ skrifaði hann, „því að það er verið að kenna orð Guðs.“ Wycliffe og samstarfsmenn hans völdu því hóp manna til að þýða Biblíuna á ensku. Verkið tók um 20 ár.
Kaþólska kirkjan var lítt hrifin af því að fram kæmi ný biblíuþýðing. Í bókinni The Mysteries of the Vatican er varpað ljósi á
hvers vegna kirkjan var því andsnúin: „Leikmenn fengu þar með tækifæri til að bera einfaldleika frumkristninnar saman við kaþólska trú samtímans . . . Nú lá í augum uppi hvílíkt hyldýpi aðskildi það sem stofnandi kristninnar kenndi og það sem sjálfskipaður fulltrúi hans [páfinn] kenndi.“Gregoríus páfi ellefti gaf út fimm tilskipanir þar sem Wycliffe var fordæmdur. En biblíuþýðandinn lét sér fátt um finnast. Hann svaraði einfaldlega: „Englendingar læra lögmál Krists best á ensku. Móse heyrði lögmál Guðs á sinni tungu og hið sama er að segja um postula Krists.“ Þýðendahópur Wycliffes gaf út fyrstu þýðingu Biblíunnar allrar á ensku um árið 1382. Wycliffe lést skömmu eftir það. Um tíu árum síðar gaf einn af félögum hans út endurskoðaða og auðlesnari útgáfu.
Þar sem prentvélin hafði enn ekki verið fundin upp þurfti að handskrifa hvert einasta eintak Biblíunnar, og það gat verið tíu mánaða verk. Engu að síður hafði kirkjan þvílíkar áhyggjur af hugsanlegri útbreiðslu Biblíunnar að erkibiskup hótaði að bannfæra hvern þann mann sem læsi hana. Rúmlega 40 árum eftir dauða Wycliffes fyrirskipaði páfaráð að jarðneskar leifar hans yrðu grafnar upp, og voru bein hans brennd og öskunni kastað í ána Swift. En þeir sem leituðu sannleikans í fullri einlægni sóttu í að lesa biblíu Wycliffes. Prófessor William M. Blackburn segir: „Biblía Wycliffes var afrituð í stórum stíl. Hún náði mikilli útbreiðslu og gekk mann fram af manni.“
Biblía handa drengnum við plóginn
Á tæplega tveim öldum úreltist enskan sem Wycliffe hafði skrifað á. Ungum prédikara í grennd við Bristol þótti miður að fáir skyldu geta skilið Biblíuna. Hann hét William Tyndale. Einu sinni heyrði hann menntaðan mann segja að lög páfans væru manninum mikilvægari en lög Guðs. Tyndale sagði þá að ef Guð leyfði myndi hann sjá til þess að drengurinn við plóginn þekkti Biblíuna betur en menntamaðurinn.
Wycliffe hafði þýtt eftir latnesku Vúlgata-þýðingunni og biblía hans var handskrifuð. Tyndale hófst handa árið 1524 við að þýða beint úr frummálunum, hebresku og grísku, en hann hafði þá flust frá Englandi til Þýskalands. Hann lét síðan prenta Biblíuna í Köln. Fjandmenn Tyndales urðu fljótlega áskynja hvað var á seyði og töldu öldungaráðið í Köln á að láta gera öll eintök Biblíunnar upptæk.
Tyndale flúði til borgarinnar Worms í Þýskalandi og hélt þar áfram starfi sínu. Áður en langt um leið var Nýja testamenti hans flutt með leynd til Englands. Á hálfu ári var búið að selja svo mörg eintök að biskupar voru boðaðir til neyðarfundar og þeir fyrirskipuðu biblíubrennur.
Lundúnabiskup fól sir Thomasi More það verkefni að gera atlögu að Tyndale í riti.
Vonaðist hann til að þannig mætti stemma stigu við útbreiddum biblíulestri og kveða niður meinta trúvillu Tyndales. More var sérlega í nöp við það að Tyndale skyldi tala um „söfnuð“ (congregation) í stað „kirkju“ (church) og „öldung“ (senior, elder) í stað „prests“ (priest). Með því að nota þessi orð var vegið að völdum páfa og skiptingu safnaðarins í klerka og leikmenn. Thomas More fordæmdi einnig að Tyndale skyldi þýða gríska orðið agaʹpe sem „kærleikur“ (love) en ekki „líknarstarf“ (charity). „Kirkjunni stafaði hætta af þessari hugmynd,“ segir í bókinni If God Spare My Life, „því að með því að gera lítið úr líknarstarfi, að því er virtist, var hætta á að fjaraði undan ábata af framlögum, aflátum og ánöfnun sem hinir trúuðu voru taldir á að gefa til að greiða fyrir för sinni til himna“.Thomas More beitti sér fyrir því að „trúvillingar“ væru brenndir á báli en það varð til þess að Tyndale var kyrktur og lík hans síðan brennt á báli í október árið 1536. Sjálfur var Thomas More hálshöggvinn síðar eftir að hafa fallið í ónáð hjá konungi. Rómversk-kaþólska kirkjan tók hann hins vegar í dýrlingatölu árið 1935, og árið 2000 veitti Jóhannes Páll páfi annar honum þá virðingu að útnefna hann verndardýrling stjórnmálamanna.
Tyndale hlaut enga slíka viðurkenningu. En áður en hann dó hafði Miles Coverdale, vinur hans, gefið út þýðingu hans sem hluta af heildarútgáfu Biblíunnar. Þetta var í fyrsta sinn sem Biblían var þýdd á ensku beint úr frummálunum. Nú gat drengurinn við plóginn lesið orð Guðs. En hvað um þýðingu Biblíunnar á önnur tungumál?
„Nánast ógerningur“
Breskur trúboði, Robert Morrison að nafni, hafði einsett sér að gefa út heildarþýðingu Biblíunnar á kínversku. Hann lagði úr höfn áleiðis til Kína árið 1807 þrátt fyrir mótmæli ættingja og vina. En þýðingarstarfið reyndist engan veginn auðvelt. „Þetta var nánast ógerningur,“ fullyrti Charles Grant sem var yfirmaður Austur-Indíafélagsins á þeim tíma.
Þegar Morrison kom til Kína uppgötvaði hann að dauðarefsing lá við því að Kínverji kenndi útlendingi málið. Til að vernda sjálfan sig og þá sem féllust á að leiðbeina honum við kínverskunámið hélt hann sig innandyra um tíma. Samkvæmt einni heimild „gat hann talað mandarín og fleiri mállýskur eftir tveggja ára nám og jafnframt lesið málið og skrifað“. Um svipað leyti gaf keisarinn út þá tilskipun að bannað væri að prenta kristilegar bækur, og lá dauðarefsing við. Þrátt fyrir hættuna lauk Morrison við að
þýða alla Biblíuna á kínversku 25. nóvember 1819.Árið 1836 höfðu verið prentuð um 2.000 eintök af Biblíunni allri á kínversku, 10.000 eintök af Nýja testamentinu og 31.000 eintök af einstökum hlutum Biblíunnar. Ást á orði Guðs hafði áorkað því sem var talið „nánast ógerningur“.
Biblía í kodda
Hjónin Adoniram og Ann Judson voru bandarískir trúboðar. Þau voru gefin saman í febrúar 1812 og hálfum mánuði síðar lögðu þau upp í langt ferðalag og settust að lokum að í Burma árið 1813. * Þau hófust þegar í stað handa við að læra burmnesku sem er eitt af erfiðustu tungumálum heims. Eftir nokkurra ára nám skrifaði Judson: „Við drekkum í okkur tungumál sem er talað af fólki hinum megin á hnettinum, fólki sem hugsar ákaflega ólíkt okkur . . . Við höfum enga orðabók og engan túlk til að skýra fyrir okkur eitt einasta orð.“
Judson lagði ekki árar í bát þótt tungumálið væri erfitt. Hann lauk við að þýða Nýja testamentið á burmnesku í júní 1823. Þegar borgarastríð skall á var Judson grunaður um njósnir og honum varpað í fangelsi. Þar voru lagðir á hann járnfjötrar, alls þrjú pör, og hann var festur við langan staur til að takmarka hreyfingar hans. „Eitt af því fyrsta sem Adoniram spurði um þegar Ann fékk að heimsækja hann og tala við hann á ensku var handritið með þýðingu Nýja testamentisins,“ segir í ævisögu hans sem Francis Wayland skrifaði árið 1853. Handritið lá grafið undir húsi þeirra og Ann óttaðist að raki og mygla kynnu að eyðileggja það. Hún brá því á það ráð að sauma það inn í kodda sem hún færði eiginmanni sínum í fangelsið. Handritið bjargaðist þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður.
Judson var sleppt eftir að hafa setið mánuðum saman í fangelsi. En gleði hans var skammvinn. Síðar sama ár fékk Ann heiftarlega hitasótt og dó fáeinum vikum síðar. Og ekki leið nema hálft ár þangað til dóttirin Maria, sem var rétt orðin tveggja ára, dó úr banvænum sjúkdómi. Þótt Judson væri niðurbrotinn af harmi tók hann aftur til við þýðinguna og lauk henni að lokum árið 1835.
Elskar þú orð Guðs?
Ást þessara þýðenda á orði Guðs var engin nýlunda. Eitt af sálmaskáldum Forn-Ísraels ávarpaði Jehóva Guð og sagði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Biblían er annað og meira en áhrifamikið bókmenntaverk. Hún hefur að geyma þýðingarmikinn boðskap. Íhugar þú orð Guðs og lest það reglulega? Þú mátt vera viss um að ‚þú verður sæll í verkum þínum‘ ef þú gerir það og reynir að fara eftir því sem þú lærir. — Jakobsbréfið 1:25.
[Neðanmáls]
^ gr. 22 Burma heitir nú Mjanmar. Tungumál landsins er mjanmarska.
[Innskot á blaðsíðu 8]
„Englendingar læra lögmál Krists best á ensku.“ — JOHN WYCLIFFE
[Myndir á blaðsíðu 9]
William Tyndale og síða úr biblíu hans.
[Credit line]
Tyndale: Úr bókinni The Evolution of the English Bible.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Robert Morrison og kínversk biblíuþýðing hans.
[Credit lines]
Í umsjá Asian Division of the Library of Congress.
Robert Morrison, koparstunga eftir W. Holl, úr The National Portrait Gallery Volume IV, gefið út um 1820 (steinprent), Chinnery, George (1774-1852) (eftir)/Private Collection/Ken Welsh/The Bridgeman Art Library International.
[Myndir á blaðsíðu 11]
Adoniram Judson og biblíuþýðing hans á burmnesku.
[Credit line
Judson: Koparstunga eftir John C. Buttre/Dictionary of American Portraits/Dover.
[Mynd credit line á blaðsíðu 8]
Wycliffe: Úr bókinni The History of Protestantism (Vol. I); Biblía: Með góðfúslegu leyfi American Bible Society Library, New York.