Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju er Biblían góður leiðarvísir?

Af hverju er Biblían góður leiðarvísir?

Af hverju er Biblían góður leiðarvísir?

„Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:16.

Í ALDANNA rás hefur Biblían verið fólki í mörgum menningarsamfélögum hvatning til að breyta líferni sínu til betri vegar. Versið, sem vitnað er í hér að ofan, varpar ljósi á það hvers vegna ráð Biblíunnar eru áhrifarík. Viska hennar er frá Guði komin. Þótt Biblían sé skrifuð af mönnum miðlar hún okkur viðhorfum Guðs. „Menn [töluðu] orð frá Guði, knúðir af heilögum anda,“ segir þar. — 2. Pétursbréf 1:21.

Biblían er góður leiðarvísir á að minnsta kosti tvo vegu. Í fyrsta lagi gefur hún raunhæfa sýn á það hvernig hægt sé að breyta lífi sínu til betri vegar. Í öðru lagi getur hún verið fólki hvöt til að gera nauðsynlegar breytingar og bæta sig. Við skulum líta nánar á þetta tvennt.

Raunhæf markmið

Guð gefur eftirfarandi loforð í Biblíunni: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ (Sálmur 32:8) Guð býðst ekki aðeins til að gefa okkur ráð heldur líka fræða okkur svo að við verðum fær um að skoða málin frá öllum hliðum. Ef við erum fær um að vega og meta hvaða markmið séu skynsamleg getur það forðað okkur frá því að sóa tíma og kröftum í hluti sem skila okkur engu.

Margir setja sér það markmið í lífinu að auðgast eða skapa sér nafn. Nóg er til af sjálfshjálparbókum sem eiga að kenna fólki að leika á aðra til að koma sér áfram eða græða. Í Biblíunni segir hins vegar: „Öfund eins manns við annan . . . er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum.“ (Prédikarinn 4:4; 5:9) Eru þetta góð og raunhæf ráð handa okkur sem nú lifum?

Við skulum líta á dæmi sem sýnir að ráðleggingar Biblíunnar eru til góðs. Akinori er búsettur í Japan. Þrátt fyrir óvægilega samkeppni náði hann því markmiði sínu að útskrifast úr frægum háskóla og hljóta starf hjá virtu fyrirtæki. Allt virtist ganga honum í haginn. En velgengnin veitti honum ekki þá hamingju sem hann hafði vonast eftir heldur fylgdi starfinu streita og álag sem kom niður á heilsunni. Hann fékk litla hughreystingu hjá vinum sínum í vinnunni. Hann lagðist í þunglyndi og drykkjuskap og það hvarflaði jafnvel að honum að fyrirfara sér. En þá fór hann að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Það sem hann lærði breytti sýn hans á það hvað skipti mestu máli í lífinu. Ekki leið á löngu áður en streitusjúkdómarnir tóku að réna. Akinori hætti að láta stolt og metnaðargirni ráða ferðinni og kynntist af eigin raun því sem segir í einum af orðskviðum Biblíunnar: „Hugarró er líkamanum líf.“ — Orðskviðirnir 14:30.

Hvað finnst þér vera eftirsóknarverðast í lífinu? Hvað heldurðu að veiti þér ósvikna hamingju? Farsælt hjónaband? Að gefa börnunum gott veganesti? Eignast marga vini? Njóta tilverunnar? Allt eru þetta markmið sem er þess virði að vinna að. Í Biblíunni erum við hvött til að sækjast eftir öllu þessu þó að það eigi ekki að vera aðalmarkmiðið í lífinu. Biblían bendir á hver sé grundvöllurinn að því að vera farsæll og hamingjusamur. Hún segir: „Óttastu Guð og haltu boðorð hans því að það á hver maður að gera.“ (Prédikarinn 12:13) Ef við sinnum ekki þessu grundvallaratriði verður lífið stefnulaust, innihaldslítið og fullt af vonbrigðum. Hins vegar segir í Biblíunni: „Sæll er sá sem treystir Drottni.“ — Orðskviðirnir 16:20.

Hvernig vekur Biblían löngun hjá fólki til að breyta sér?

„Orð Guðs er lifandi og kröftugt,“ skrifaði Páll postuli. Það getur smogið inn í innstu fylgsni huga og hjarta líkt og beitt, tvíeggjað sverð. (Hebreabréfið 4:12) Biblían býr yfir krafti til að breyta fólki vegna þess að hún hjálpar því að sjá sjálft sig eins og það er í raun og veru en ekki bara eins og það heldur sig vera. Sé hjartalagið rétt áttar fólk sig á því að það getur þurft að breyta sér. Í söfnuði kristinna manna í Korintu á fyrstu öld voru menn sem höfðu verið þjófar, drykkjumenn, saurlífismenn og þar fram eftir götunum. Páll sagði í bréfi til þeirra: „Þannig voruð þið sumir hverjir. En þið létuð laugast.“ Hann bætti við: „Það gerði . . . andi vors Guðs.“ (1. Korintubréf 6:9-11) Heilagur andi Jehóva Guðs er jafn virkur og öflugur núna og hann var á fyrstu öld, og hann getur vakið löngun hjá fólki til að gera nauðsynlegar breytingar.

Mario býr á meginlandi Evrópu. Hann var ofbeldishneigður og bæði reykti og seldi maríúana. Einu sinni reiddist hann svo þegar fíkniefni, sem hann hafði í fórum sínum, voru gerð upptæk að hann réðst á lögregluþjóninn og eyðilagði bílinn hans. Mario var auk þess atvinnulaus og stórskuldugur. Hann vissi að hann gæti ekki leyst vandamál sín upp á eigin spýtur og féllst á að kynna sér Biblíuna. Það hafði þau áhrif að hann varð snyrtilegri í útliti, hætti að neyta fíkniefna og selja þau og lét af ofbeldisverkunum. Margir sem þekktu hann frá fyrri tíð voru forviða. Þeir stöðvuðu hann á förnum vegi og sögðu: „Mario, þú hefur aldeilis breyst!“

Hvað fær fólk eins og Akinori og Mario til að söðla svona rækilega um og uppskera fyrir vikið lífsgleði og hamingju? Augljóslega það að kynnast Biblíunni og læra að þekkja Guð. Enginn nema Guð getur gefið fólki þær leiðbeiningar sem þarf til að njóta farsældar í lífinu og eiga von um eilíft líf í framtíðinni. Jehóva Guð talar til okkar í Biblíunni eins og ástríkur faðir og segir: „Hlustaðu, sonur minn, og gefðu gaum að orðum mínum, þá verða æviár þín mörg . . . á göngunni verður leið þín ekki þröng og hlaupirðu muntu ekki hrasa. Varðveittu leiðsögnina og slepptu henni ekki, varðveittu hana því að hún er líf þitt.“ (Orðskviðirnir 4:10-13) Er hægt að ímynda sér betri og öruggari ráðleggingar en þær sem koma frá skaparanum?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

Góð ráð handa okkur

Biblían hefur að geyma einföld en raunhæf ráð sem geta nýst okkur vel á öllum sviðum lífsins. Lítum á nokkur dæmi:

Góð samskipti við aðra

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ — Matteus 7:12.

„Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ — Filippíbréfið 2:3.

„Leggið stund á gestrisni.“ — Rómverjabréfið 12:13.

Að sigrast á skaðlegum venjum

„Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Orðskviðirnir 13:20.

„Vertu ekki með drykkjurútum.“ — Orðskviðirnir 23:20.

„Leggðu ekki lag þitt við reiðigjarnan mann.“ — Orðskviðirnir 22:24.

Traust hjónaband

„Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan ætti að bera djúpa virðingu fyrir manni sínum.“ — Efesusbréfið 5:33, New World Translation.

„Íklæðist . . . hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru.“ — Kólossubréfið 3:12, 13.

Barnauppeldi

„Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ — Orðskviðirnir 22:6.

„Feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ — Efesusbréfið 6:4.

Að forðast deilur

„Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði.“ — Orðskviðirnir 15:1.

„Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ — Rómverjabréfið 12:10.

Oft er hægt að afstýra deilum vegna viðskipta, jafnvel meðal vina, með því að gera skriflega samninga. Jeremía, spámaður Guðs skrifaði: „Síðan skrifaði ég kaupsamninginn og innsiglaði hann. Þá lét ég votta staðfesta hann og vó silfrið á vog.“ — Jeremía 32:10.

Að temja sér jákvæð viðhorf

„Allt sem er satt . . . elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

Í Biblíunni er fólk hvatt til þess að forðast neikvæðar hugsanir og hún átelur þá sem eru „síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín“. „Verið glöð í voninni,“ segir annars staðar. — Júdasarbréfið 4, 16; Rómverjabréfið 12:12.

Þeir sem fara eftir þessum góðu meginreglum skapa sér bæði frið og lífsánægju og laga sig einnig að vilja Guðs og hljóta blessun hans. „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega,“ segir í Biblíunni. — Sálmur 37:29.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Akinori hefur yndi af því að boða fagnaðarerindið með eiginkonu sinni. Til vinstri er mynd af honum frá þeim tíma þegar hann var í viðskiptalífinu.