Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leiða öll trúarbrögð að sama marki?

Leiða öll trúarbrögð að sama marki?

Leiða öll trúarbrögð að sama marki?

„Ég hef mína eigin trú og ætla að halda mig við hana. Það skiptir heldur ekki máli hvaða trúarbrögðum maður tilheyrir því að þau leiða öll að sama marki.“

HEFURÐU einhvern tíma heyrt fólk segja eitthvað þessu líkt? Margir eru þeirrar skoðunar að hægt sé að finna Guð og skilja tilgang lífsins í hvaða trúarbrögðum sem er. Sú hugmynd er einnig útbreidd að það sé eitthvað gott og slæmt í öllum trúarbrögðum og að engin ein trú hafi einkaleyfi á sannleikann eða geti fullyrt að hún sé eina leiðin að Guði.

Slíkar hugmyndir eru vinsælar í hinu svokallaða umburðarlynda fjölhyggjusamfélagi nútímans. Og þeir sem eru annarrar skoðunar eru oft taldir þröngsýnir og jafnvel fordómafullir. Hvað finnst þér? Heldurðu að öll trúarbrögð leiði á endanum að sama Guði? Skiptir máli hverju maður trúir?

Er einhver munur?

Samkvæmt einni alfræðiorðabók eru um 9.900 trúarbrögð til í heiminum. Sum þeirra eru mjög útbreidd og áhangendurnir teljast í milljónum. Það er talið að um 70 prósent jarðarbúa tilheyri einhverjum af fimm stærstu trúarbrögðunum — búddatrú, kristni, hindúatrú, íslam eða gyðingatrú. Ef öll trúarbrögð leiða að sama Guði ættu þessi fimm trúarbrögð að hafa margar sameiginlegar kenningar, hafa svipaða sýn á Guð og hver sé tilgangur hans með okkur. Hvað sýna staðreyndirnar?

Hans Küng, rómversk-kaþólskur guðfræðingur, segir að helstu trúarbrögð heims hafa svipaðar skoðanir á mannlegri hegðun. Flest þeirra fordæma til dæmis morð, lygar, þjófnað og sifjaspell og kenna að börn eigi að virða foreldra sína og að foreldrar eigi að elska börnin sín. En þegar kemur að öðrum málum, ekki síst sýn þeirra á Guð, eru kenningar þessara trúarbragða gerólíkar.

Hindúar tilbiðja til dæmis marga guði en búddistar segjast ekki vera vissir um að til sé guð sem sé persóna. Íslam kennir að það sé aðeins til einn Guð. Og það gera líka kirkjur kristinna manna, þótt flestar þeirra telji líka að Guð sé þríeinn. Innan kirkna kristna heimsins eru auk þess margar mismunandi kenningar. Kaþólikkar dýrka Maríu mey en það gera mótmælendur hins vegar ekki. Getnaðarvarnir eru yfirleitt leyfðar hjá mótmælendum en ekki hjá kaþólikkum. Og mótmælendur eru ekki sammála um hvaða afstöðu þeir eiga að taka til samkynhneigðar.

Er rökrétt að halda að trúarbrögð, sem hafa svo ólíkar kenningar, geti öll verið leiðir til að dýrka sama guðinn? Varla. Þessi mismunur veldur miklu frekar ruglingi um hver Guð sé og hvers hann krefjist af þeim sem tilbiðja hann.

Stuðla þau að einingu eða sundrung?

Ef öll trúarbrögð leiða að sama marki ættum við að geta séð hvernig þau stuðla hvert og eitt að friði og einingu. Sýna staðreyndirnar að svo sé? Sagan ber þess glöggt merki að trúarbrögð hafa miklu frekar ýtt undir sundrung og átök. Skoðum nokkur dæmi.

Þjóðir, sem sögðust vera kristnar, herjuðu á íslömsk ríki í krossferðunum á 11. til 13. öld. Á 17. öld börðust kaþólikkar og mótmælendur í Evrópu í þrjátíuárastríðinu. Um leið og Indland hlaut sjálfstæði frá Bretlandi árið 1947 fóru hindúar og múslímar í hár saman. Á okkar dögum hafa kaþólikkar og mótmælendur á Norður-Írlandi háð baráttu sín á milli svo árum skiptir. Fyrir botni Miðjarðarhafs geta gyðingar og múslímar ekki samið um frið. Og efst á lista trónir síðari heimsstyrjöldin sem meðlimir allra fimm helstu trúarbragðanna tóku þátt í og börðust jafnvel við trúbræður sína hinum megin víglínunnar.

Það er nokkuð ljóst að trúarbrögð heims hafa ekki komið á friði og einingu, né leitt fólk að sama marki. Þvert á móti hafa þau sundrað mannkyninu og dregið upp mjög ruglingslega mynd af Guði og hvernig eigi að tilbiðja hann. Þess vegna verður sá sem vill kynnast hinum sanna Guði að velja vandlega hvernig hann gerir það. Þetta er í samræmi við það sem við erum hvött til í Biblíunni en hún er ein af elstu trúarbókum mannkyns.

Veldu hverjum þú vilt þjóna

Í Biblíunni kemur skýrt fram að ef við viljum finna leiðina að hinum sanna Guði verðum við að kynna okkur málin vel og taka síðan yfirvegaða ákvörðun. Jósúa var þjónn Jehóva Guðs og hann sagði við Ísraelsþjóðina til forna: „Kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna, hvort heldur guðunum sem forfeður ykkar þjónuðu handan Efrat eða guðum Amoríta en í landi þeirra búið þið nú. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ Árum síðar hvatti Elía spámaður fólkið til að taka svipaða ákvörðun: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða? Ef Drottinn er Guð, fylgið honum. En ef Baal [guð Kanaaníta] er Guð, þá fylgið honum.“ — Jósúabók 24:15, 16; 1. Konungabók 18:21.

Þessi biblíuvers og önnur undirstrika að þeir sem vildu þjóna hinum sanna Guði urðu að taka yfirvegaða ákvörðun. Það á líka við nú á dögum. Ef við viljum tilbiðja hinn eina sanna Guð og þjóna honum verðum við að velja rétt. En hvað getur hjálpað okkur að gera það? Hvernig getum við borið kennsl á sanna tilbiðjendur Guðs?

Sannir tilbiðjendur þekkjast af ávöxtunum

Jesús Kristur sagði um sanna og falska tilbiðjendur: „Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu . . . Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“ Samkvæmt þessu átti að vera hægt að þekkja sanna tilbiðjendur af ávöxtum þeirra eða verkum. Hverjir eru þessir ávextir? — Matteus 7:16-20.

Í fyrsta lagi á sönn tilbeiðsla að sameina fólk í kærleika. Jesús sagði við lærisveina sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ Kærleikurinn, sem sannir fylgjendur Krists eiga að sýna hver öðrum, á að vera eins og auðkennismerki sem aðrir eiga auðvelt með að sjá. — Jóhannes 13:34, 35.

Það væri því óhugsandi fyrir sannkristna menn að taka upp vopn og berjast hver við annan í stríði. Er þessum mælikvarða fylgt í kirkjum kristna heimsins? Eini trúarhópurinn, sem staðfastlega neitaði að taka þátt í seinni heimsstyrjöldinni, var söfnuður Votta Jehóva. Dr. Hanns Lilje, fyrrverandi biskup mótmælendakirkjunnar í Hannover í Þýskalandi, skrifaði um vottana: „Þeir geta réttilega fullyrt að þeir séu eini hópurinn sem mótmælti Þriðja ríkinu samvisku sinnar vegna.“ Í þeim átökum völdu vottarnir víðs vegar að þola frekar refsingu en að styðja eða styrkja stríðið.

Hvaða aðra ávexti hafði Jesús í huga sem áttu að einkenna sanna fylgjendur hans? Í bæninni, sem flestir kalla faðirvorið, byrjaði Jesús á því að segja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Jesús lét það hafa forgang að helga nafn Guðs sem er Jehóva. Hann bað þess að vilji Jehóva yrði gerður hér á jörðinni fyrir tilstuðlan Guðsríkis. Hvaða trúarbrögð eru þekkt fyrir að vekja athygli á nafninu Jehóva og fyrir að boða að ríki Guðs sé eina von mannkyns um frið? Vottar Jehóva boða fagnaðarerindið um Guðsríki í 236 löndum og landsvæðum og dreifa biblíutengdu lesefni á meira en 470 tungumálum. — Matteus 6:9, 10.

Enn fremur fylgja vottar Jehóva fordæmi Jesú og taka ekki afstöðu í stjórnmálum eða deilum í þjóðfélaginu. „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum,“ sagði Jesús um lærisveina sína. Auk þess viðurkenna vottarnir að Biblían sé innblásið orð Guðs og eru sannfærðir um að „sérhver ritning [sé] innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti til þess að sá sem trúir á Guð sé albúinn og hæfur ger til sérhvers góðs verks“. — Jóhannes 17:14, 17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

Sönn trúarbrögð eru ólík öðrum

Sannir tilbiðjendur þekkjast af öllum þessum ávöxtum — að sýna fórnfúsan kærleika, helga nafn Jehóva, boða ríki hans, halda sér aðgreindum frá heiminum og trúa að Biblían sé innblásin. Og þessir ávextir aðgreina líka sanna tilbiðjendur frá öðrum trúarbrögðum. Kona, sem hafði talað nokkrum sinnum við votta Jehóva og haft ánægju af, dró sína eigin ályktun og sagði: „Ég þekki mörg trúarbrögð og þau líkjast öll hvert öðru. Þið eruð þeir einu sem eru gerólíkir öllum öðrum.“

Það er ljóst að það leiða ekki öll trúarbrögð að sama marki. En það er einn hópur sem er ólíkur öllum öðrum — Vottar Jehóva. Þeir eru núna um það bil sjö milljónir talsins út um allan heim. Með því að beina athyglinni að Biblíunni og fylgja því sem hún segir hafa þeir gert það sem engum öðrum hópi eða félagi hefur tekist. Þeim hefur tekist að sameina fólk af mismunandi þjóðerni, uppruna, kynþætti og tungumálum í tilbeiðslu á Jehóva, hinum eina sanna Guði. Vottarnir vilja mjög gjarnan hjálpa þér að kynnast hinum sanna Guði, fræða þig um hvers hann ætlast til af þér og hjálpa þér að njóta þess friðar og öryggis sem fylgir því að tilbiðja hann á velþóknanlegan hátt. Er það ekki þess virði að athuga málið nánar?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Rétttrúnaðarprestur blessar nýjan herflokk í Úkraínu árið 2004.

[Credit line]

GENIA SAVILOV/AFP/Getty Images

[Mynd á blaðsíðu 15]

Vottar Jehóva hjálpa fólki alls staðar að fræðast um Guð og ríki hans.

[Mynd credit line á blaðsíðu 12]

Bls. 12: búddisti: © Yan Liao/Alamy; helgur hindúi: © imagebroker/Alamy; bls. 13: maður að lesa Kóraninn: Mohamed Amin/Camerapix; gyðingur: Todd Bolen/Bible Places.com.