Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skilurðu myndmál Biblíunnar?

Skilurðu myndmál Biblíunnar?

Skilurðu myndmál Biblíunnar?

MYND segir oft meira en þúsund orð en stundum þarf aðeins eitt eða tvö orð til að draga upp mynd í huga lesandans. Á síðum Biblíunnar er víða að finna myndmál. Samkvæmt einni talningu grípur Jesús 50 sinnum til myndmáls af ólíku tagi í einni ræðu sem hann flutti — fjallræðunni.

Af hverju ættirðu að hafa áhuga á þessu myndmáli? Ef þú skilur myndmálið í Biblíunni er áhugaverðara fyrir þig að lesa hana og þú lærir betur að meta orð Guðs. Auk þess skilurðu boðskap Biblíunnar betur ef þú berð kennsl á myndmálið og heimfærir það rétt. Ef við áttum okkur ekki á myndmálinu í Biblíunni gæti það bæði valdið ruglingi og leitt til þess að við drögum rangar ályktanir.

Að skilja myndmál

Myndmál er fólgið í því að líkja einu fyrirbæri við annað. Það sem verið er að lýsa er kallað kenniliður og það sem því er líkt við er kallað myndliður. Síðan þarf að glöggva sig á samanburðinum, það er að segja hvað er líkt með þessu tvennu. Lykillinn að því að skilja rétta merkingu myndmáls felst í því að koma auga á og skilja þessi þrjú atriði.

Stundum getur verið frekar auðvelt að koma auga á kenniliðinn og myndliðinn. En það gæti þó verið ýmislegt sem er líkt með þessu tvennu. Hvað getur hjálpað manni að átta sig á samanburðinum? Oft gefur samhengið vísbendingu um það. *

Tökum dæmi. Jesús sagði við söfnuðinn í Sardes: „Ef þú vakir ekki mun ég koma eins og þjófur.“ Hér er Jesús að líkja komu sinni (kenniliðurinn) við það þegar þjófur kemur (myndliðurinn). En hvað er líkt með þessu tvennu, hver er samanburðurinn? Samhengið hjálpar okkur að koma auga á það. Í framhaldinu segir Jesús: „Þú munt alls ekki vita á hverri stundu ég kem yfir þig.“ (Opinberunarbókin 3:3) Samanburðurinn tengist ekki tilganginum með komu hans. Hann var ekki að gefa í skyn að hann kæmi til að stela einhverju. Samanburðurinn er sá að hann kemur óvænt án þess að gera boð á undan sér.

Stundum getur myndmál á einum stað í Biblíunni hjálpað manni að skilja svipað myndmál á öðrum stað. Páll postuli notaði til dæmis sams konar myndmál og Jesús og skrifaði: „Þið vitið það sjálf gjörla að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2) Ekki verður ráðið af samhenginu hver samanburðurinn er. En þegar þessi líking er borin saman við það sem Jesús segir í Opinberunarbókinni 3:3 skýrir það hvað Páll átti við. Þetta myndmál er sterk hvatning til sannkristinna manna um að halda sér andlega vakandi.

Myndmál sem fræðir okkur um Guð

Enginn maður getur skilið til fulls allar hliðar á persónuleika og mætti hins almáttuga. Davíð konungur skrifaði um Jehóva Guð endur fyrir löngu: „Veldi hans er órannsakanlegt.“ (Sálmur 145:3) Eftir að Job hafði gefið gaum að sköpunarverkum Guðs sagði hann: „Þetta eru ystu mörk verka hans, það sem vér heyrum um hann er hvískur en hver fær skilið þrumu máttar hans?“ — Jobsbók 26:14.

Engu að síður notar Biblían myndmál til að hjálpa okkur að skilja, á takmarkaðan hátt, stórfenglega eiginleika hins himneska Guðs. Jehóva er lýst sem konungi, löggjafa, dómara og stríðshetju — hann er greinilega Guð sem á skilið virðingu okkar. Honum er líka lýst sem hirði, ráðgjafa, kennara, föður, lækni og frelsara — hann er einnig Guð sem hægt er að elska. (Sálmur 16:7; 23:1; 32:8; 71:17; 89:27; 103:3; 106:21; Jesaja 33:22; 42:13; Jóhannes 6:45) Hver þessara einföldu líkinga dregur upp hlýlega mynd af Guði og samanburðurinn er margþættur. Slíkt myndmál segir meira en mörg orð gætu gert.

Biblían líkir Jehóva líka við lífvana hluti. Hann er kallaður „klettur Ísraels“, „bjarg“ og „vígi“. (2. Samúelsbók 23:3; Sálmur 18:3; 5. Mósebók 32:4) Hver er samanburðurinn? Jehóva Guð getur veitt okkur öryggi rétt eins og klettur eða stórt bjarg sem er óhagganlegt og stöðugt.

Í Sálmunum er mikið af myndmáli sem lýsir mismunandi hliðum á persónuleika Jehóva. Í Sálmi 84:12 er sagt að Jehóva sé „sól og skjöldur“ af því að hann er uppspretta ljóss, lífs og orku og veitir vernd. Á hinn bóginn segir í Sálmi 36:8: „Mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.“ Rétt eins og skuggi getur verndað okkur gegn brennandi sólinni getur Jehóva veitt þjónum sínum vernd í erfiðleikum. Þessi vernd er eins og skuggi undir ‚vængjum‘ hans eða ‚hönd‘. — Jesaja 51:16; Sálmur 17:8; 121:5.

Myndmál sem lýsir Jesú

Í Biblíunni er margoft sagt að Jesús sé „sonur Guðs“. (Jóhannes 1:34; 3:16-18) Þeir sem eru ekki kristnir eiga stundum erfitt með að skilja þetta þar sem Guð er ekki mennskur og á ekki mennska konu. Það er greinilegt að Guð eignast ekki son á sama hátt og menn. Þess vegna má segja að þetta orðalag sé myndmál. Því er ætlað að hjálpa lesandanum að skilja að samband Jesú og Guðs er eins og samband mennsks sonar og föður. Þetta myndmál lýsir því einnig að Jesús fékk líf sitt frá Jehóva og var skapaður af honum. Á svipaðan hátt er Adam, fyrsti maðurinn, einnig kallaður ‚sonur Guðs‘. — Lúkas 3:38.

Jesús notaði myndmál til að lýsa hinu margþætta hlutverki sem hann gegnir í því að fyrirætlun Guðs nái fram að ganga. Hann sagði til dæmis: „Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn.“ Síðan líkti hann lærisveinum sínum við greinar á vínviði. (Jóhannes 15:1, 4) Hvaða mikilvægu kennslu hefur þetta myndmál að geyma? Til að halda lífi og bera ávöxt verða greinar á bókstaflegum vínviði að vera fastar við stofninn. Lærisveinar Krists verða á svipaðan hátt að vera sameinaðir honum. „Án mín getið þér alls ekkert gert,“ sagði Jesús. (Jóhannes 15:5) Og rétt eins og vínyrki gerir ráð fyrir að vínviðurinn beri ávöxt ætlast Jehóva til þess að þeir sem eru sameinaðir Kristi beri táknrænan ávöxt. — Jóhannes 15:8.

Gakktu úr skugga um hver samanburðurinn er

Við getum dregið ranga ályktun ef við lesum myndmál án þess að skilja samanburðinn. Tökum sem dæmi orðin í Rómverjabréfinu 12:20: „Ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Táknar það hefnd eða refsingu að safna glóðum elds á höfuð einhverjum? Nei, ekki þegar við skiljum hver samanburðurinn er. Þetta myndmál er dregið af því þegar málmar voru hreinsaðir til forna. Málmgrýti var hitað á kolum sem var einnig hrúgað ofan á málmgrýtið. Þetta varð til þess að málmgrýtið bráðnaði og hreinn málmur skildi sig frá óhreinindunum. Ef við sýnum góðvild getur það á sama hátt mýkt viðmót annarra og kallað fram það góða í fari þeirra.

Réttur skilningur á myndmáli er ekki aðeins upplýsandi heldur snertir líka hjartað. Við finnum fyrir þyngslum syndarinnar þegar henni er líkt við skuld. (Lúkas 11:4) En okkur léttir gríðarlega þegar Jehóva fyrirgefur okkur og strikar út skuldina sem við værum annars rukkuð um. Þegar okkur er sagt að hann ‚hylji‘ og „afmái“ syndir — gefi okkur hreinan skjöld ef svo mætti að orði komast — höfum við fullvissu fyrir því að hann erfi syndirnar ekki við okkur í framtíðinni. (Sálmur 32:1, 2; Postulasagan 3:19) Það er einkar hughreystandi að vita að Jehóva getur tekið syndir, sem eru jafn dökkar og skarlat eða purpuri, og gert þær hvítar sem mjöll. — Jesaja 1:18.

Þetta er aðeins brot af því ríkulega myndmáli sem er að finna í orði Guðs, Biblíunni. Þegar þú lest í Biblíunni skaltu gefa sérstakan gaum að myndmálinu. Gefðu þér tíma til að skilja samanburðinn og hugleiða. Ef þú gerir það færðu dýpri skilning á Ritningunni og lærir betur að meta hana.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Biblíuskýringarritið Insight on the Scriptures veitir víðtækar viðbótarupplýsingar sem geta oft auðveldað lesendum að koma auga á samanburðinn. Ritið er í tveim bindum og gefið út af Vottum Jehóva,

[Rammi á blaðsíðu 29]

Myndmál er gagnlegt

Myndmál er gagnlegt á margan hátt. Líkja má því sem er flókið við eitthvað auðskilið. Hægt er að skýra mismunandi hliðar á einu máli með því að draga upp fleiri en eina mynd. Nota má myndmál til að leggja áherslu á mikilvæg atriði eða gera þau meira aðlaðandi.

[Rammi á blaðsíðu 30]

Geturðu útskýrt myndmálið?

MYNDMÁL: „Þér eruð salt jarðar.“ (Matteus 5:13)

KENNILIÐUR: Þér (lærisveinar Jesú)

MYNDLIÐUR: Salt

SAMANBURÐUR Í ÞESSU SAMHENGI: Varðveisluefni

LÆRDÓMUR: Lærisveinarnir höfðu boðskap að flytja sem gat varðveitt líf margra

[Mynd á blaðsíðu 31]

„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ — SÁLMUR 23:1