Um endinn
Lærum Af Jesú
Um endinn
Hvað tekur enda?
Lærisveinar Jesú spurðu hann: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matteus 24:3) Þegar Jesús svaraði þessari spurningu sagði hann ekki að hin bókstaflega jörð myndi líða undir lok. Áður hafði hann talað um „veröld“ og átti þá við stjórnmála-, trúarbragða- og viðskiptakerfi manna í heild sem Satan stjórnar. (Matteus 13:22, 40, 49) Og það var þessi „veröld“ sem hann hafði í huga þegar hann sagði: „Þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
Hvernig lýsti Jesús endinum?
Það eru fagnaðartíðindi að þetta óréttláta heimskerfi skuli taka enda. Jesús sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ Jesús lýsti endi núverandi heimskerfis á þennan veg: „Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir kæmist enginn maður af.“ — Matteus 24:14, 21, 22.
Hverjum verður eytt?
Þeim einum verður eytt sem hvorki elska né þjóna Jehóva og Jesú. Slíkt fólk gefur Guði engan gaum. Jesús sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins . . . þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ (Matteus 24:36-39) Jesús sagði að margir væru á vegi sem lægi til glötunar. En hann fullyrti hins vegar að til væri „mjór . . . vegur er liggur til lífsins“. — Matteus 7:13, 14.
Hvenær tekur þetta heimskerfi enda?
Þegar Jesús var spurður hvert yrði tákn komu sinnar og endaloka þessa heimskerfis sagði hann: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar . . . og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna.“ (Matteus 24:3-12) Það má því segja að allar sorglegu fréttirnar, sem við heyrum, hafi uppörvandi merkingu — bráðum mun stjórn Guðsríkis færa hlýðnum mönnum frið. Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ — Lúkas 21:31.
Hvað ættir þú að gera?
Jesús sagði að Guð hefði gefið einkason sinn til þess að „hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. (Jóhannes 3:16) Til að trúa á Guð og son hans verður þú að þekkja þá vel. Þess vegna sagði Jesús: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
Gættu þess að áhyggjur og vandamál lífsins komi ekki í veg fyrir að þú lærir að sýna Guði að þú elskir hann. Jesús sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki . . . áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara. En hann mun koma.“ Ef þú hlustar á varnaðarorð Jesú geturðu ‚umflúið allt þetta sem koma á‘. — Lúkas 21:34-36.
Finna má nánari upplýsingar í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Kaflinn ber heitið „Lifum við á ‚síðustu dögum‘“? *
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Gefin út af Vottum Jehóva.