Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er búið að finna örkina hans Nóa?

Er búið að finna örkina hans Nóa?

Er búið að finna örkina hans Nóa?

AF OG TIL koma æsifréttir í fjölmiðlum um leitina að örkinni hans Nóa. Það er skiljanlegt að fólki finnist þetta spennandi. Nói og fjölskylda hans voru í risastórri örk þegar þau lifðu af flóðið 2370-2369 f.Kr. Ef örkin fyndist væri það sannarlega merkur viðburður. Örkin hefur ekki komið í leitirnar þrátt fyrir að menn hafi lagt mikið á sig til að finna hana. Ýmsar getgátur hafa verið uppi um örkina og miklar yfirlýsingar hvað hana varðar. En hvað er í raun vitað?

Í Biblíunni er sagt að örkin hans Nóa „kenndi grunns á Araratsfjöllum“. (1. Mósebók 8:4) Araratfjall er áberandi fjallstindur á Araratsvæðinu austarlega í Tyrklandi nærri landamærum Armeníu og Írans.

Farið hefur verið í marga leiðangra á þetta svæði til að leita að örkinni. Áhugaverðar fullyrðingar hafa komið fram en engar óyggjandi sannanir. Athyglisverðar loftmyndir, bútar af tjörubornum viði og frásögur þeirra sem segjast hafa séð örkina hafa orðið til þess að menn hafa reynt að finna afgerandi sannanir fyrir tilvist hennar. En sú leit hefur reynst erfið. Einn staður, sem oft er minnst á í þessu sambandi, er um 4600 metra upp í hlíðum Araratfjalls. Og erfitt hefur reynst fyrir erlenda leiðangursmenn að fá leyfi til að fara á fjallið vegna pólitískrar spennu á svæðinu.

Áhugmenn um örkina vilja engu að síður gera út fleiri leiðangra á staðinn. Þeir trúa að hlutar arkarinnar séu enn óskemmdir á snækrýndum tindi Araratfjalls, faldir undir snjó og ís mestallt árið. Þeir halda því fram að aðeins á heitum sumrum sé einhver von um að sjá örkina og ná til hennar.

Slíkar vonir eru byggðar á allnokkrum frásögum. Jósefus, sem var Gyðingur og sagnfræðingur á fyrstu öld e.Kr., vísar í nokkra fyrri sagnfræðinga sem sögðu að örkin væri enn sýnileg hátt upp í Araratfjallgarðinum. Sagt var að fólk hefði jafnvel tekið tjöruborið timbur úr örkinni sem minjagripi. Á meðal þeirra sem Jósefus vitnar í er Berossus en hann var babýlonskur annálaritari á þriðju öld f.Kr.

Á síðustu öld sagði Armeninn George Hagopian eina athyglisverðustu frásöguna af örkinni. Hann sagði að þegar hann var strákur hafi hann komið að örkinni ásamt frænda sínum snemma á 20. öld og meira að segja klifrað um hana. Hagopian dó árið 1972 en mörgum finnst frásaga hans mjög spennandi enn þann dag í dag.

Grundvöllur trúar?

Er einhver grundvöllur fyrir því að trúa að könnuðir séu búnir að finna örkina eða eigi eftir að gera það? Kannski, en raunar virðist vera meiri ástæða til að efast um það. Í Biblíunni er til dæmis ekki útskýrt nákvæmlega hvar örkin tók niðri þegar flóðvatnið sjatnaði. Það er einungis sagt að það hafi verið „á Araratsfjöllum“.

Það er eðlilegt að könnuðir og áhugamenn velji hæsta fjallstindinn á svæðinu. En í Biblíunni er ekki sagt að Guð hafi látið örkina koma niður á toppinn á Araratfjalli sem nú á tímum er jökulkaldur og geysilega hár. Hann nær í fimm kílómetra hæð yfir sjávarmál. * Munum að Nói og fjölskylda hans bjuggu í örkinni í nokkra mánuði eftir að hún staðnæmdist. (1. Mósebók 8:4, 5) Einnig virðist ólíklegt að þau og öll dýrin um borð hafi líkt og fjallgöngumenn þurft að klifra niður himinháan fjallstind eftir að þau yfirgáfu örkina. Kannski var svæðið þar sem örkin tók niðri aðgengilegra en margir af könnuðum nútímans gera ráð fyrir en samt nægilega hátt uppi til að passa við lýsinguna í  1. Mósebók 8:4, 5. Og hvar sem örkin lenti á Araratsvæðinu þá gæti hún samt verið horfin fyrir mörgum öldum. Hún gæti hafa orðið fúa að bráð eða þá að menn hafi smám saman hirt viðinn úr henni.

Enn fremur er hægt að efast um yfirlýsingar könnuða um trúarlegt mikilvægi rannsókna þeirra. Því var slegið fram af einum könnuði að ef örkin fyndist myndi það „staðfesta trú milljóna manna . . . og margir aðrir myndu snúast til trúar“. Hann sagði einnig á ráðstefnu árið 2004 að ef örkin fyndist yrði það „merkasti atburður sögunnar síðan Jesús Kristur reis upp frá dauðum“. Könnunarleiðangri hans var síðar aflýst.

Ef örkin hans Nóa fyndist, myndi það gefa mönnum trú eða staðfesta hana? Biblían sýnir að ósvikin trú er ekki háð einhverju sem við sjáum eða snertum. (2. Korintubréf 5:7) Sumir eru svo miklir efasemdamenn að þeir segja að þeir trúi einungis ef þeir fái áþreifanlegar sannanir fyrir ákveðnum frásögum Biblíunnar. En sannleikurinn er sá að engar sannanir duga fyrir slíka einstaklinga alveg sama hversu miklar þær eru. Jesús sagði að það væri ekki hægt að sannfæra suma um sannleika Biblíunnar — jafnvel þó þeir sæju einhvern rísa upp frá dauðum — Lúkas 16:31.

En sönn trú er ekki trúgirni heldur er hún byggð á áreiðanlegum sönnunum. (Hebreabréfið 11:1) Eru til öruggar sannanir sem geta hjálpað skynsömu fólki að trúa því sem Biblían segir um flóðið? Já, slíkar sannanir eru til. Jesús Kristur sagði: „Nói gekk í örkina og flóðið kom.“ (Lúkas 17:26, 27) Þetta er besta sönnunin sem hægt er að fá. Af hverju?

Jesús var á himnum áður en hann kom til jarðar. (Jóhannes 8:58) Hann fylgdist með smíði arkarinnar og sá flóðið. Hvor af eftirfarandi sönnunum finnst þér trúverðugri? Vitnisburður sjónarvottar sem hefur reynst algjörlega áreiðanlegur og lét okkur í té sannanir fyrir því að hann væri sonur Guðs? Eða óljósar fréttir um að könnuðir hafi fundið forna viðarbúta á frosnum fjallstindi? Þegar málið er skoðað frá þessum sjónarhóli er ljóst að nú þegar eru til yfirgnæfandi sannanir fyrir því að örkin hans Nóa hafi verið til.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Fjallið, sem nú er kallað Ararat, er eldfjall og hefur verið óvirkt síðan 1840. Það er 5.165 metrar á hæð og er þakið snjó allt árið um kring.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Eru til öruggar sannanir fyrir frásögu Biblíunnar af flóðinu?

[Innskot á blaðsíðu 14]

Jesús Kristur sagði: „Nói gekk í örkina og flóðið kom.“