Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er nauðsynlegt að læra hebresku og grísku?

Er nauðsynlegt að læra hebresku og grísku?

Er nauðsynlegt að læra hebresku og grísku?

STÆRSTUR hluti Biblíunnar var upphaflega skrifaður á einungis tveim tungumálum, hebresku og grísku. * Ritarar hennar, sem skrifuðu á þessum tungumálum, gerðu það undir leiðsögn heilags anda Guðs. (2. Samúelsbók 23:2) Því er hægt að segja að boðskapurinn, sem þeir færðu í letur, hafi verið ,innblásinn af Guði‘. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

Fæstir þeirra sem lesa Biblíuna nú á tímum skilja þó hebresku eða grísku. Þeir þurfa að nota biblíu sem þýdd hefur verið yfir á móðurmál þeirra. Og það þarft þú örugglega líka að gera. En þar sem ekki er hægt að fullyrða að þessar þýðingar séu innblásnar veltirðu kannski fyrir þér hvort hægt sé að fá nákvæman skilning á boðskap Biblíunnar með því að nota þýðingu eða hvort nauðsynlegt sé að læra hebresku og grísku.

Atriði sem gott er að hafa í huga

En áður en við svörum þeirri spurningu er ýmislegt sem gott er að hafa í huga. Í fyrsta lagi fær maður ekki sjálfkrafa einhvern yfirnáttúrulegan skilning á boðskap Biblíunnar bara við það eitt að þekkja forn-hebresku eða -grísku. Jesús sagði við Gyðinga síns tíma: „Þér rannsakið ritningarnar því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær sem vitna um mig en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.“ (Jóhannes 5:39, 40) Hvert var vandamálið? Skildu þeir ekki hebresku? Jú, þeir höfðu góðan skilning á tungumálinu. Hins vegar sagði Jesús í framhaldinu: „Ég þekki yður, ég veit að þér hafið ekki í yður kærleika til Guðs.“ — Jóhannes 5:42.

Páll postuli sagði sömuleiðis við kristna menn í Korintu sem töluðu grísku: „Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku.“ (1. Korintubréf 1:22, 23) Það er því greinilegt að hebresku- eða grískukunnátta nægði ekki ein og sér til að fólk tæki við sannleika Biblíunnar.

Í öðru lagi er hebreskan og grískan, sem töluð er á okkar dögum, þó nokkuð frábrugðin því sem var þegar verið var að rita Biblíuna. Flestum sem tala grísku núna finnst afar snúið að skilja rétt grískuna sem Biblían var rituð á. Þetta er vegna þess að ný orð hafa bæst við tungumálið og komið í staðinn fyrir eldri orð og auk þess hafa mörg orð breytt um merkingu. Orðið, sem þýtt er „fríður“ í Postulasögunni 7:20 og Hebreabréfinu 11:23, merkir til dæmis „fyndinn“ á nútímagrísku. Auk þess hafa orðið miklar breytingar á málfræði og setningarfræði tungumálsins.

Þótt þú myndir læra nútímahebresku eða -grísku hefði það ekki endilega í för með sér að þú fengir nákvæmari skilning á Biblíunni á frummálunum. Þú myndir eftir sem áður þurfa að notast við orðabækur og málfræðibækur til að skilja hvernig þessi tungumál voru notuð þegar bækur Biblíunnar voru ritaðar í upphafi.

Í þriðja lagi getur það reynst þrautin þyngri að læra nýtt tungumál. Þótt það geti verið frekar auðvelt að læra nokkrar setningar á öðru tungumáli getur það tekið mörg ár og mikla vinnu að skilja til fulls öll blæbrigði tungumálsins. Það er mikill sannleikur í gömlu orðatiltæki sem segir: Lítil þekking er hættuleg. Hvernig þá?

Hvað þýðir orðið?

Hefur einhver sem er að læra móðurmál þitt spurt þig hvað ákveðið orð merki? Þá veistu að það er ekki alltaf auðvelt að svara því. Af hverju ekki? Af því að orð getur þýtt svo margt. Þú hefur kannski beðið viðkomandi um að setja orðið í setningu til að fá dæmi. Það getur verið erfitt að vita hvað orð merkir ef maður hefur ekki samhengið. Segjum sem svo að þú værir spurður um orðið „járn“. Orðið getur haft mismunandi merkingu eftir samhengi. Það gæti þýtt málmurinn járn, hjörur, skeifa eða öngull. Í öðru samhengi gæti verið átt við hlekki, sverð eða fæðubótarefni. Og orðatiltækið „að hafa mörg járn í eldinum“ þýðir eitthvað allt annað: að hafa mörg verkefni í takinu. Hver er rétt merking orðsins?

Orðabók gefur kannski upp allar mögulegar þýðingar orðs. Í sumum orðabókum er merkingunni jafnvel raðað eftir því hver þeirra er algengust. En það er samhengið sem hjálpar þér að komast að því hvað orðið merkir. Tökum dæmi: Segjum sem svo að þú hafir örlitla læknisfræðiþekkingu og viljir sjúkdómsgreina sjálfan þig. Þú gætir flett upp í læknahandbók. Þar stendur kannski að í 90 prósenta tilvika séu einkenni þín merki um ákveðinn sjúkdóm en í 10 prósenta tilvika sé um eitthvað allt annað að ræða. Þú myndir þurfa að afla þér meiri þekkingar til að komast að réttri niðurstöðu. Á sama hátt stoðar það lítið að vita að orð hafi ákveðna merkingu í 90 prósenta tilvika ef þú ert að lesa mikilvægan texta þar sem aukamerking orðsins kemur fyrir. Þú þarft að vita meira um samhengið til að geta skilið orðið rétt.

Þegar við erum að rannsaka orð í Biblíunni verðum við líka að vita í hvaða samhengi orðið stendur. Til dæmis geta frummálsorðin, sem oftast eru þýdd „andi“, haft mismunandi merkingu, allt eftir því í hvaða samhengi þau standa. Stundum er rétt að þýða þau „vindur“. (2. Mósebók 10:13; Jóhannes 3:8) Í öðru samhengi er átt við lífskraftinn sem býr í öllum lifandi verum, bæði mönnum og dýrum. (1. Mósebók 7:22; Sálmur 104:29; Jakobsbréfið 2:26) Ósýnilegar verur á himnum eru líka kallaðar andar. (1. Konungabók 22:21, 22; Matteus 8:16) Starfskraftur Guðs er kallaður heilagur andi hans. (1. Mósebók 1:2; Matteus 12:28) Sama orðið er notað til að lýsa aflinu sem fær manneskju til að sýna ákveðið viðhorf, skoðun eða tilfinningu. Og það er líka notað til að lýsa ráðandi hugarfari sem einkennir hóp fólks. — Jósúabók 2:11; Galatabréfið 6:18.

Þótt þessar mismunandi merkingar séu taldar upp í hebreskri eða grískri orðabók þá ræður samt samhengið alltaf hvaða merking á við í hvert skipti. * Þetta á við hvort sem þú lest Biblíuna á frummálinu eða á móðurmáli þínu.

Er rangt að nota biblíuþýðingu?

Sumir hafa lagt mikið á sig til að læra forn-hebresku eða -grísku eða jafnvel bæði. Þó að þeir geri sér ljóst að þeir skilji ekki allt til fulls hafa þeir ánægju af að geta lesið Biblíuna á frummálunum og finnst að það hafi verið erfiðisins virði. En ef þú hefur ekki tækifæri til þess, ættirðu þá að láta það draga úr þér kjarkinn og gefast upp í leitinni að sannleika Biblíunnar? Alls ekki! Fyrir því eru margar ástæður.

Í fyrsta lagi er við hæfi að nota þýðingu á Biblíunni. Ritarar kristnu Grísku ritninganna, eða Nýja Testamentisins, notuðu meira að segja oft gríska þýðingu þegar þeir vitnuðu í Hebresku ritningarnar. * (Sálmur 40:7; Hebreabréfið 10:5, 6) Þótt þeir hafi talað hebresku og hefðu getað vitnað í upprunalegu Hebresku ritningarnar fannst þeim greinilega ekkert athugavert við að nota þýðingu á þessum versum sem lesendur höfðu betri aðgang að. — 1. Mósebók 12:3; Galatabréfið 3:8.

Í öðru lagi má nefna að þótt við myndum skilja biblíutungumálin höfum við aðeins aðgang að orðum Jesú í þýðingu. Það er vegna þess að guðspjallaritararnir skrifuðu á grísku það sem Jesús sagði upprunalega á hebresku. * Hver sá sem telur að það veiti honum einhverja sérstaka visku að geta lesið orð fortíðarþjóna Jehóva á frummálinu ætti að íhuga hvað það gefur í skyn. Jehóva sá til þess að orð mesta þjóns síns varðveittust aðeins í þýðingu — á tungumáli sem margir kunnu á þeim tíma. Og það gefur til kynna að það skipti ekki máli á hvaða tungumáli við lesum Biblíuna. Aðalatriðið er að við lesum innblásinn boðskap hennar á því máli sem við skiljum best og getum tekið til okkar.

Í þriðja lagi átti auðmjúkt fólk af „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“ að hafa aðgang að „fagnaðarboðskap“ Biblíunnar. (Opinberunarbókin 14:6; Lúkas 10:21; 1. Korintubréf 1:27-29) Í samræmi við það getur meirihluti fólks kynnst fyrirætlun Guðs með því að lesa Biblíuna á móðurmáli sínu án þess að þurfa að læra annað tungumál. Á mörgum tungumálum eru í boði fleiri en ein biblíuþýðing svo að það er í höndum lesandans að velja sér þýðingu. *

Hvernig geturðu fullvissað þig um að þú skiljir sannleikann í Biblíunni? Vottar Jehóva hafa komist að raun um að ein besta leiðin til að skilja boðskap Biblíunnar sé að rannsaka hana með skipulögðum hætti og með hliðsjón af samhenginu. Þeir taka til dæmis fyrir ákveðið efni eins og „hjónaband“ og fletta upp ritningarstöðunum sem fjalla um það efni. Þannig láta þeir Biblíuna útskýra sig sjálfa. Hvernig væri að þiggja ókeypis biblíunámskeið sem vottar Jehóva bjóða öllum og fer oftast fram í heimahúsum? Óháð því hvaða tungumál þú talar þráir Guð að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. — 1. Tímóteusarbréf 2:4; Opinberunarbókin 7:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sumir hlutar Biblíunnar voru skrifaðir á arameísku, tungumáli sem er náskylt hebreskunni sem töluð var á biblíutímanum. Dæmi um þetta eru Esrabók 4:8 til 6:18 og 7:12-26; Jeremía 10:11 og Daníel 2:4b til 7:28.

^ gr. 14 Það skal tekið fram að sumar biblíuorðabækur og -orðasöfn telja einungis upp hvernig orðið hefur verið þýtt í ákveðinni biblíuþýðingu, eins og til dæmis King James-biblíunni, en skýra ekki hvað orðið þýðir eitt og sér.

^ gr. 17 Á tímum Jesú og postulanna var hægt að lesa allar bækur Hebresku ritninganna á grísku. Þessi þýðing var kölluð Septuagint eða Sjötíumannaþýðingin og var mikið notuð af grískumælandi Gyðingum. Í kristnu Grísku ritningunum er oft vitnað orðrétt í Hebresku ritningarnar og flestar af þessum beinu tilvitnunum eru teknar úr Sjötíumannaþýðingunni.

^ gr. 18 Talið er að Matteus postuli hafi skrifað guðspjall sitt á hebresku. En þótt svo hafi verið er það grísk þýðing á þessum texta sem hefur varðveist til okkar daga, hugsanlega þýðing sem Matteus vann að sjálfur.

^ gr. 19 Nánar er fjallað um hinar ýmsu stefnur í þýðingum og hvernig hægt sé að velja nákvæma þýðingu í greininni „Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?“ sem birtist í þessu tímariti í júlí-september 2008.

[Rammi/​mynd á bls. 22]

Sjötíumannaþýðingin

Þegar Jesús og postular hans voru uppi notuðu grískumælandi Gyðingar Sjötíumannaþýðinguna mjög mikið en hún er grísk þýðing á Hebresku ritningunum. Þessi þýðing er ekki aðeins eftirtektarverð vegna þess að hún var fyrsta tilraunin, sem vitað er um, til að þýða Heilaga ritningu á annað tungumál heldur var stærð þessa verkefnis líka mjög tilkomumikil. Hópur þýðenda byrjaði að vinna að Sjötíumannaþýðingunni á þriðju öld f.Kr. og meira en hundrað árum seinna náðu aðrir að ljúka verkinu.

Hinir frumkristnu byrjuðu snemma að nýta sér Sjötíumannaþýðinguna til að sanna að Jesús hefði verið Kristur, hinn fyrirheitni Messías. Svo duglegir voru þeir að nota þessa þýðingu að sumir fóru að líta á hana sem „kristna“ þýðingu. Það dró úr vinsældum hennar meðal Gyðinga og leiddi til þess að nýjar þýðingar á grísku litu dagsins ljós. Ein af þessum þýðingum var gefin út á annarri öld e.Kr. og var unnin af manni að nafni Akvílas sem hafði tekið gyðingatrú. Biblíufræðingur segir um þessa þýðingu að hún hafi „nokkuð óvænt séreinkenni“. Í þýðingu Akvílasar var að finna nafn Guðs, Jehóva, skrifað með fornu hebresku letri.

[Rétthafi myndar]

Israel Antiquities Authority.

[Mynd á bls. 23]

Það er afar mikilvægt að við lesum innblásinn boðskap Biblíunnar á því máli sem við skiljum best og getum tekið til okkar.