Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Um fjölskyldulífið

Um fjölskyldulífið

Lærum af Jesú

Um fjölskyldulífið

Hvers konar viðhorf til hjónabandsins stuðlar að farsælu fjölskyldulífi?

Hjónabandið er heilagt. Þegar Jesús var spurður að því hvort hjónum væri heimilt að skilja svaraði hann: „Hafið þið eigi lesið að skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja . . . Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ (Matteus 19:4-6, 9) Þegar hjón fara eftir ráðum Jesú og sýna hvort öðru tryggð eru allir í fjölskyldunni ánægðir og öruggir.

Af hverju stuðlar kærleikurinn til Guðs að farsælu fjölskyldulífi?

Jesús sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.“ Hvert er næstæðsta boðorðið? Jesús sagði: „Þú skalt elska náunga þinn [þar á meðal þá sem standa þér næst — fjölskylduna] eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:37-39) Lykillinn að farsælu fjölskyldulífi er að eiga gott samband við Guð því að ef við elskum hann finnum við okkur knúin til að elska hvert annað.

Hvernig geta hjón glatt hvort annað?

Eiginmaður gleður eiginkonu sína þegar hann fylgir fordæmi Jesú. Jesús sýndi söfnuðinum, táknrænni eiginkonu sinni, fórnfúsan kærleika. (Efesusbréfið 5:25) Hann sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna.“ (Matteus 20:28) Jesús var aldrei stjórnsamur eða harðneskjulegur í samskiptum við þá sem voru í hans umsjá heldur var hann endurnærandi. (Matteus 11:28) Eiginmenn ættu því að fara með forystuhlutverkið á mildan hátt til góðs fyrir alla í fjölskyldunni.

Eiginkonur geta einnig lært af fordæmi Jesú. Í Biblíunni segir: „Guð [er] höfuð Krists.“ Þar segir einnig: „Karlmaðurinn er höfuð konunnar.“ (1. Korintubréf 11:3) Jesús áleit það ekki fyrir neðan virðingu sína að vera undirgefinn Guði. Hann bar djúpa virðingu fyrir föður sínum. „Ég geri ætíð það sem honum þóknast,“ sagði Jesús. (Jóhannes 8:29) Eiginkona sem fylgir forystu eiginmannsins af því að hún elskar og virðir Guð leggur mikið af mörkum til þess að fjölskylda hennar sé hamingjusöm.

Hvað geta foreldrar lært af viðhorfi Jesú til barna?

Jesús gaf börnum af tíma sínum og hafði áhuga á að vita hvernig þeim leið og um hvað þau voru að hugsa. Frásaga Biblíunnar segir: „Jesús kallaði [ungbörnin] til sín og mælti: ,Leyfið börnunum að koma til mín.‘“ (Lúkas 18:15, 16) Við eitt tækifæri gagnrýndi fólkið nokkur börn sem játuðu trú sína á Jesú. En Jesús hrósaði börnunum og sagði við þá sem gagnrýndu þau: „Hafið þið aldrei lesið þetta: Af munni barna og brjóstmylkinga býrð þú þér lof?“ — Matteus 21:15, 16.

Hvað geta börn lært af Jesú?

Jesús gaf börnum afbragðsfordæmi um hvernig þau gætu haft áhuga á að fræðast um Guð. Þegar hann var 12 ára „sat hann [í helgidóminum] mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá“. Með hvaða árangri? „Alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ (Lúkas 2:42, 46, 47) En þótt Jesús vissi mikið varð hann ekki hrokafullur. Þekkingin fékk hann til að virða foreldra sína. Í Biblíunni segir að hann hafi verið þeim hlýðinn. — Lúkas 2:51.

Nánari upplýsingar er að finna í 14. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? *

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Gefin út af Vottum Jehóva.