Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem Jesús kenndi um sjálfan sig

Það sem Jesús kenndi um sjálfan sig

Það sem Jesús kenndi um sjálfan sig

„Jesús var ekki í minnsta vafa um hver hann væri, hvaðan hann kæmi, hvers vegna hann hefði komið í heiminn og hvað biði hans.“ — HERBERT LOCKYER, RITHÖFUNDUR.

ÁÐUR en við getum meðtekið og trúað því sem Jesús kenndi þurfum við að vita eitthvað um hann sjálfan. Hver var hann í raun og veru? Hvaðan kom hann? Hvert var hlutverk hans í lífinu? Við fáum svör við þessum spurningum í guðspjöllunum — hjá Matteusi, Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi — svo að segja beint af vörum Jesú sjálfs.

Hann var til áður en hann fæddist á jörð. Jesús sagði einu sinni: „Áður en Abraham fæddist er ég.“ (Jóhannes 8:58) Abraham var uppi um 2000 árum fyrir daga Jesú. Engu að síður var Jesús til á undan þessum trúaða ættföður. En hvar var hann? „Ég er stiginn niður af himni,“ svaraði hann. — Jóhannes 6:38.

Sonur Guðs. Jehóva á sér marga englasyni. Jesús er hins vegar einstakur. Hann kallaði sig ,Guðs soninn eina‘. (Jóhannes 3:18) Það merkir að hann er sá eini sem Guð skapaði milliliðalaust. Allt annað var skapað fyrir milligöngu einkasonar Guðs. — Kólossubréfið 1:16.

„Mannssonurinn“. Jesús notaði þetta heiti oftar en nokkuð annað þegar hann talaði um sjálfan sig. (Matteus 8:20) Þannig lagði hann áherslu á að hann væri hvorki holdgaður engill né Guð í mannsmynd. Hann var mennskur á allan hátt. Guð beitti heilögum anda sínum til að flytja líf sonar síns frá himnum til jarðar og valda getnaði í móðurlífi meyjarinnar Maríu. Jesús fæddist þar af leiðandi sem fullkomið og syndlaust mannsbarn. — Matteus 1:18; Lúkas 1:35; Jóhannes 8:46.

Hinn fyrirheitni Messías. „Ég veit að Messías kemur,“ sagði samversk kona við Jesú. „Ég er hann, ég sem við þig tala,“ svaraði Jesús. (Jóhannes 4:25, 26) Orðið „Messías“ merkir „hinn smurði“ rétt eins og orðið „Kristur“. Jesús var smurður, það er að segja skipaður af Guði, til að gegna ákveðnu hlutverki í því að uppfylla loforð hans.

Helsta verkefni hans. Jesús sagði einu sinni: „Mér ber . . . að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Enda þótt hann ynni mörg góðverk í þágu bágstaddra einbeitti hann sér öðru fremur að því að boða ríki Guðs. Síðar verður fjallað nánar um það sem hann kenndi varðandi þetta ríki.

Ljóst er að Jesús var enginn venjulegur maður. * Eins og við sjáum síðar höfðu orð hans hér á jörð aukna þýðingu vegna þess að hann hafði áður verið á himnum. Engan skyldi undra að boðskapurinn, sem hann prédikaði, ætti eftir að hafa djúpstæð áhrif á milljónir manna um heim allan.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Nánari upplýsingar um Jesú og hlutverk hans í fyrirætlun Guðs er að finna í 4. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.