Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann efnir loforð sín

Hann efnir loforð sín

Nálægðu þig Guði

Hann efnir loforð sín

Jósúabók 23:14

ÁTTU erfitt með að treysta öðrum? Því miður er heimurinn þannig að fólk missir oft traust til annarra. Ef einhver sem þú hafðir trú á hefur sært þig, með því að skrökva að þér eða svíkja loforð sem hann gaf þér, er traust þitt til hans kannski orðið að engu. En til er sá sem þú getur treyst fullkomlega og mun aldrei bregðast þér. Við fáum þessa hvatningu í Orðskviðunum 3:5: „Treystu Drottni af öllu hjarta.“ Hvers vegna getum við sett svona mikið traust á Jehóva Guð? Til að svara því skulum við skoða Jósúabók 23:14, en Jósúa setti allt sitt traust á Guð.

Sjáðu þetta fyrir þér: Jósúa er að verða 110 ára. Hann tók við af Móse sem leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar. Á langri ævi hefur Jósúa orðið sjónarvottur að mörgum máttarverkum Jehóva í þágu Ísraels, þar á meðal hvernig hann frelsaði þjóðina með kraftaverki þegar hann leiddi hana gegnum Rauðahafið sex áratugum áður. Nú kallar hann saman „öldunga [Ísraels], höfðingja, dómara og embættismenn“ og rifjar upp sögu sína. (Jósúabók 23:2) Það sem hann segir núna ber ekki aðeins vott um visku öldungsins heldur sýna orð hans að hann hefur hugleitt málin í sterkri trú.

„Sjálfur geng ég nú í dag veg allrar veraldar,“ segir Jósúa. Með orðunum „veg allrar veraldar“ á hann við dauðann. Hann er í rauninni að segja: „Ég á ekki langt eftir ólifað.“ Þar sem Jósúa veit að hann fer bráðum að deyja hefur hann eflaust notað margar stundir til að hugleiða lífshlaup sitt. Hvaða kveðjuorð hefur hann handa bræðrum sínum?

Hann heldur áfram: „Ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.“ Þetta eru orð manns sem treysti fullkomlega á Guð. Hvers vegna treysti Jósúa Guði svona vel? Þegar hann leit til baka á allt sem hann hafði sjálfur séð gat hann verið þess fullviss að Jehóva efnir alltaf loforð sín. * Það er augljóst hvað hann á við. Hann vill að meðbræður sínir treysti því algerlega að öll loforð Jehóva um framtíðina rætist einnig.

Biblíuskýringarit segir um Jósúabók 23:14: „Taktu saman öll loforð sem finna má í Biblíunni, skoðaðu síðan annála veraldarsögunnar og rannsakaðu sögu allra einstaklinga. Reyndu svo að finna eitt einasta dæmi um að Guð hafi svikið eða gleymt loforði.“ Ef hægt væri að gera slíka rannsókn kæmumst við að sömu niðurstöðu og Jósúa — loforð Jehóva bregðast aldrei. — 1. Konungabók 8:56; Jesaja 55:10, 11.

Í Biblíunni er að finna loforð Guðs sem hafa ræst, þar á meðal þau sem eru að rætast núna fyrir augum okkar. Þar eru líka dásamleg loforð Jehóva um framtíðina. * Við hvetjum þig til að skoða þau. Nám í Biblíunni gæti sannfært þig um að þú getir treyst Jehóva Guði, sem alltaf efnir loforð sín.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nokkur dæmi um loforð sem Jósúa sá rætast: Jehóva gaf Ísrael land. (Berðu saman 1. Mósebók 12:7 og Jósúabók 11:23.) Jehóva frelsaði Ísrael úr Egyptalandi. (Berðu saman 2. Mósebók 3:8 og 2. Mósebók 12:29-32.) Jehóva sá fyrir þjóð sinni. (Berðu saman 2. Mósebók 16:4, 13-15 og 5. Mósebók 8:3, 4.)

^ gr. 6 Nánari upplýsingar um loforð Guðs varðandi framtíðina er að finna í kafla 3, 7 og 8 í bókinni Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.