Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann var trúr í prófraunum

Hann var trúr í prófraunum

Líkjum eftir trú þeirra

Hann var trúr í prófraunum

PÉTUR fylgdist áhyggjufullur með viðbrögðum áheyrenda Jesú. Þeir voru staddir í samkunduhúsinu í Kapernaúm. Heimili Péturs var í þessum bæ og þaðan stundaði hann fiskveiðar á Galíleuvatni. Margir af viðskiptafélögum hans, ættingjum, vinum og kunningjum bjuggu í Kapernaúm. Pétur var án efa spenntur fyrir hönd bæjarbúa. Hann vonaðist til að þeir myndu líta Jesú sömu augum og hann og fá að njóta þess að hlýða á kennslu mesta kennara allra tíma. En það virtist ólíklegt á þessum degi.

Margir hættu að hlusta og sumir nöldruðu og mótmæltu boðskap Jesú. Það sem var Pétri erfiðast voru viðbrögð sumra af lærisveinum Jesú. Af svipbrigðum þeirra mátti ráða að þeir væru ekki lengur ánægðir með að læra eitthvað mikilvægt og uppgötva eitthvað nýtt. Gleðin, sem fylgir því að læra sannleikann, var ekki lengur til staðar. Þeir litu út fyrir að vera í uppnámi og jafnvel bitrir. Sumir létu í ljós vanþóknun sína og sögðu að ræða Jesú væri hneykslanleg. Þeir neituðu að hlusta, yfirgáfu samkunduhúsið og hættu einnig að fylgja Jesú.

Þetta var erfiður tími fyrir Pétur og hina postulana. Hann skildi ekki til fulls það sem Jesús sagði. Hann áttaði sig eflaust á því að ef orð Jesú væru tekin bókstaflega gætu þau misboðið áheyrendum. En hvað gerði Pétur engu að síður? Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem hollusta hans við meistarann yrði prófuð. Við skulum skoða hvernig trú Péturs hjálpaði honum að takast á við slíkar prófraunir og vera trúr.

Trúr þegar aðrir voru ótrúir

Jesús kom Pétri endurtekið á óvart. Oft talaði hann eða hegðaði sér öfugt við væntingar annarra. Daginn áður hafði Jesús mettað þúsundir manna með kraftaverki. Fólkið reyndi því að gera hann að konungi. En hann kom mörgum á óvart með því að draga sig í hlé og segja lærisveinunum að fara um borð í bát og sigla til Kapernaúm. Þegar lærisveinarnir voru að fara yfir Galíleuvatn um nóttina kom Jesús þeim aftur á óvart með því að ganga á vatninu í storminum og þá fékk Pétur mikilvæga kennslu um trú. *

Um morguninn sáu þeir að mannfjöldinn hafði elt þá kringum vatnið. Það var greinilegt að fólkið elti þá til að sjá Jesú framreiða meiri mat með kraftaverki en ekki af því að það hungraði eftir andlegum sannindum. Jesús ávítaði fólkið fyrir að vera upptekið af efnislegum hlutum. Þessi umræða hélt áfram í samkunduhúsinu í Kapernaúm. Aftur gekk kennsla Jesú þvert á væntingar viðstaddra þegar hann reyndi að útskýra fyrir þeim mikilvæg en torskilin sannindi.

Jesús vildi ekki að fólkið liti á hann sem uppsprettu bókstaflegrar fæðu heldur sem ráðstöfun frá Guði, að líf hans og dauði myndi gefa öðrum möguleika á eilífu lífi. Hann sagði því dæmisögu og bar sjálfan sig saman við manna, brauðið sem féll af himnum á dögum Móse. Þegar sumir mótmæltu notaði hann áhrifamiklar líkingar og útskýrði að það væri nauðsynlegt að eta hold hans og drekka blóð hans til að lifa. Þegar hér var komið sögu urðu mótmælin hávær. Sumir sögðu: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ Margir af lærisveinum Jesú hættu að fylgja honum. * — Jóhannes 6:48-60, 66.

Hvað gerði Pétur? Hann hlýtur að hafa verið undrandi á orðum Jesú eins og hinir. Hann skildi ekki enn þá að Jesús þyrfti að deyja til þess að vilji Guðs næði fram að ganga. En freistaði það Péturs að hætta að fylgja Jesú eins og sumir af lærisveinunum sem voru hverflyndir? Nei, því að Pétur var frábrugðinn þeim að einu mikilvægu leyti. Hvað var það?

Jesús sneri sér að postulunum og spurði: „Ætlið þið að fara líka?“ (Jóhannes 6:67) Hann ávarpaði þá tólf en eins og oft áður var það Pétur sem svaraði. Vera má að hann hafi verið elstur af þeim. Hvað sem því líður þá var það Pétur sem tók oftast til máls í þessum hópi og virtist sjaldan hika við að tjá það sem honum lá á hjarta. Í þetta skiptið var það þessi fagra og eftirminnilega yfirlýsing sem var honum efst í huga: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ — Jóhannes 6:68.

Finnst þér þessi orð ekki hjartnæm? Trú Péturs á Jesú hafði hjálpað honum að þroska með sér framúrskarandi eiginleika — hollustu. Pétur vissi greinilega að það væri enginn annar frelsari til en Jesús og að hann bjargaði með orðum sínum — því sem hann kenndi um Guðsríki. Þó að Pétur skildi ekki allt sem Jesús sagði vissi hann að velþóknun Guðs og þá blessun að hljóta eilíft líf væri hvergi annars staðar að finna.

Ert þú sama sinnis? Því miður eru margir nú á tímum sem segjast elska Jesú en reynast ekki trúir honum. Sönn hollusta við Krist krefst þess að við höfum sömu skoðun og Pétur á kennslu Jesú. Við þurfum að þekkja kennsluna, skilja hana og lifa í samræmi við hana — jafnvel þó að kennslan komi okkur stundum á óvart eða sé ekki í samræmi við væntingar okkar eða persónulegar skoðanir. Við getum aðeins vonast til að hljóta eilífa lífið, sem Jesús vill að við hljótum, með því að reynast honum trú.

Trúr þegar hann var leiðréttur

Ekki löngu eftir þennan erilsama tíma fór Jesús í langferð norður á bóginn og tók postulana og suma af lærisveinunum með sér. Snækrýndur tindur Hermonfjalls er nyrst í fyrirheitna landinu. Stundum er hægt að sjá hann alla leið frá fagurbláu Galíleuvatninu. Leið hópsins lá upp á við að þorpum sem voru nálægt Sesareu Filippí. * Fjallið virtist hækka eftir því sem hópurinn nálgaðist það. Við þessar fögru aðstæður, með útsýn yfir fyrirheitna landið til suðurs, spurði Jesús lærisveinana mikilvægrar spurningar.

„Hvern segir fólkið mig vera?“ spurði Jesús. Við getum rétt ímyndað okkur að Pétur hafi litið í athugul augu Jesú og skynjað eins og oft áður góðvild meistara síns og skarpar gáfur. Jesús hafði áhuga á því að vita hvaða ályktun áheyrendur hans drægju af því sem þeir höfðu séð og heyrt. Lærisveinar Jesú svöruðu spurningunni með því að endurtaka sumar af algengum ranghugmyndum um hver hann væri. En Jesús vildi vita meira. Gerðu nánustu fylgjendur hans sömu mistök og aðrir? „En þið, hvern segið þið mig vera?“ spurði hann. — Lúkas 9:18-22.

Pétur var fljótur að svara eins og oft áður. Skýrt og greinilega dró hann saman það sem margir þeirra höfðu ályktað og trúðu í hjarta sér og sagði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Við getum séð fyrir okkur hvernig Jesús brosti til Péturs og hrósaði honum hlýlega. Hann minnti Pétur á að það væri Jehóva Guð en ekki einhverjir menn sem gerðu þennan mikilvæga sannleika svo auðskilinn fyrir þá sem hafa sanna trú. Pétri hafði verið gert kleift að bera kennsl á einn mikilvægasta sannleika sem Jehóva hafði opinberað — hver væri hinn fyrirheitni Messías eða Kristur. — Matteus 16:16, 17.

Kristur var sá sem hafði í fornum spádómum verið kallaður steinninn sem smiðirnir höfnuðu. (Sálmur 118:22; Lúkas 20:17) Með slíka spádóma í huga greindi Jesús frá því að Jehóva myndi grundvalla söfnuð á þessum steini eða kletti sem Pétur var nýbúinn að bera kennsl á. * Hann fól síðan Pétri mjög mikilvægt verkefni í þeim söfnuði. Hann hóf Pétur ekki yfir hina postulana eins og sumir hafa ályktað heldur fól honum ábyrgð. Hann gaf honum „lykla himnaríkis“. (Matteus 16:19) Það kæmi í hlut Péturs að færa þrem mismunandi hópum vonina um að komast í Guðsríki — fyrst Gyðingum, svo Samverjum og að lokum fólki af öðrum þjóðum eða heiðingjum.

En Jesús sagði síðar að mikils yrði krafist af þeim sem mikið væri gefið og það sýndi sig með Pétur. (Lúkas 12:48) Jesús hélt áfram að segja frá hvað Messías yrði að þola, þar á meðal að hans biðu þjáningar og dauði í Jerúsalem. Pétur tók það nærri sér að heyra þetta. Hann fór með Jesú afsíðis og tók að átelja hann og sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ — Matteus 16:21, 22.

Pétur hefur eflaust meint vel svo að svar Jesú hlýtur að hafa komið á óvart. Hann sneri sér frá Pétri og leit á hina lærisveinana sem höfðu líklega verið að hugsa eitthvað svipað. Hann sagði: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ (Matteus 16:23; Markús 8:32, 33) Við getum öll lært af þessum orðum Jesú. Það er mjög auðvelt að hugsa eins og menn fremur en að láta hugsunarhátt Guðs stýra okkur. Ef við gerum það, jafnvel þó að við séum að reyna að aðstoða, getum við óafvitandi orðið málsvarar Satans fremur en Guðs. En hvernig brást Pétur við?

Hann áttaði sig auðvitað á því að Jesús var ekki að kalla hann Satan í bókstaflegum skilningi. Jesús ávarpaði ekki Pétur eins og hann ávarpaði Satan. Jesús sagði við Satan: „Vík brott.“ En við Pétur sagði hann: „Vík frá mér“ eða samkvæmt frummálinu: „Farðu aftur fyrir mig.“ (Matteus 4:10) Jesús sá marga góða kosti í fari postulans og var ekki að hafna honum. Hann var einfaldlega að leiðrétta hugsunarhátt hans. Það er auðséð að Pétur þurfti að hætta að reyna að grípa fram fyrir hendurnar á meistara sínum og verða þannig að hrösunarhellu. Hann átti fremur að skipa sér að baki honum og styðja hann.

Varð Pétur reiður, fór hann að rífast eða fór í fýlu? Nei, hann var hógvær og tók leiðréttingu og sýndi þannig enn og aftur hollustu. Allir sem fylgja Kristi þurfa stundum á leiðréttingu að halda. Við getum aðeins orðið nánari Jesú Kristi og föður hans, Jehóva Guði, ef við tökum auðmjúklega við aga og lærum af honum. — Orðskviðirnir 4:13.

Trúfesti hans launuð

Skömmu síðar sagði Jesús nokkuð sem kom á óvart: „Sannlega segi ég ykkur: Nokkrir þeirra sem hér standa munu ekki mæta dauða sínum fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:28) Þessi yfirlýsing vakti án efa forvitni Péturs. Hvað átti Jesús eiginlega við? Kannski hefur Pétur hugsað með sér að hann myndi ekki njóta slíks heiðurs vegna þess hversu harða áminningu hann hafði fengið.

En um viku síðar fór Jesús með þá Jakob, Jóhannes og Pétur upp á „hátt fjall“ — hugsanlega Hermonfjall sem var í nokkurra kílómetra fjarlægð. Sennilega var nótt því að mennirnir þrír áttu mjög erfitt með að halda sér vakandi. En þegar Jesús fór með bæn glaðvöknuðu þeir vegna þess sem gerðist næst. — Matteus 17:1; Lúkas 9:28, 29, 32.

Þeir tóku eftir því að Jesús breyttist. Birtu stafaði frá andliti hans þangað til hann skein eins skært og sólin. Föt hans urðu líka hvít og skínandi. Síðan birtust tveir menn með honum, annar táknaði Móse og hinn Elía. Þeir ræddu við hann um „brottför hans sem hann skyldi fullna í Jerúsalem“, þar að segja dauða hans og upprisu. Pétur hafði greinilega rangt fyrir sér þegar hann vildi koma í veg fyrir að Jesús myndi ganga í gegnum þjáningarnar sem biðu hans. — Lúkas 9:30, 31.

Pétur fann sig knúinn til að taka einhvern þátt í þessari óvenjulegu sýn. Það leit út fyrir að Móse og Elía væru að fara frá Jesú. Því sagði hann: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Auðvitað þurftu löngu dánir þjónar Jehóva, sem sáust í þessari sýn, ekki á tjöldum að halda. Pétur vissi ekki hvað hann var að segja. En finnst okkur hann ekki vera aðlaðandi maður í ljósi þess hve kappsamur og hlýlegur hann var? — Lúkas 9:33.

Pétur, Jakob og Jóhannes fengu annars konar laun þessa nótt. Það myndaðist ský sem skyggði yfir þá á fjallinu. Frá því heyrðu þeir rödd Jehóva Guðs sjálfs. Hann sagði: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið, hlýðið á hann!“ Síðan lauk sýninni og þeir voru aftur einir með Jesú á fjallinu. — Lúkas 9:34-36.

Sýnin var stórkostleg gjöf til Péturs og til okkar allra. Áratugum síðar skrifaði hann um þann heiður sem hann hlaut þessa nótt með því að vera einn af ,sjónarvottum að hátign hans‘. Hann fékk í raun að sjá fyrirmynd af dýrð Jesú sem himneskum konungi. Sýnin staðfesti marga spádóma í orði Guðs og styrkti trú Péturs fyrir prófraunir sem hann átti eftir að ganga í gegnum. (2. Pétursbréf 1:16-19) Sýnin getur einnig styrkt okkur ef við erum trú meistaranum sem Jehóva hefur skipað yfir okkur. Eins og Pétur þurfum við að læra af honum, taka aga og leiðréttingu og fylgja honum auðmjúklega frá degi til dags.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sjá greinina „Imitate Their Faith — He Fought Against Fear and Doubt“ í Varðturninum 1. október 2009.

^ gr. 9 Mannfjöldinn, sem var í samkunduhúsinu, var ósamkvæmur sjálfum sér. Það kemur í ljós þegar við berum saman viðbrögð manna við ræðu Jesú og orð þeirra daginn áður. Þá lýstu þeir yfir af mikilli sannfæringu að hann væri spámaður Guðs. — Jóhannes 6:14.

^ gr. 15 Frá ströndum Galíleuvatns ferðaðist hópurinn 48 kílómetra leið um svæði sem skartar mikilli náttúrufegurð. Hópurinn hóf ferðina í 210 metrum undir sjávarmáli og endaði hana í 350 metra hæð yfir sjávarmáli.

^ gr. 18 Sjá rammagreinina „Hver er kletturinn?“ á bls. 28.

[Rammi/​mynd á bls. 28]

Hver er kletturinn?

„Ég segi þér: Þú ert Pétur, og á þessum kletti mun eg byggja söfnuð minn.“ (Matteus 16:18, Biblían 1912) Þessi orð, sem Jesús mælti við Pétur postula, hafa oft verið túlkuð á þann hátt að Pétur yrði undirstaða kristna safnaðarins. Kaþólska kirkjan kennir að Jesús hafi verið að upphefja Pétur yfir hina postulana og hann hafi því verið fyrsti páfinn. Hvelfingin í Péturskirkjunni í Róm er því skreytt með orðum Jesú skrifuðum á latínu með meira en mannhæðarháu letri.

Átti Jesús við að Pétur væri kletturinn sem hann myndi byggja söfnuðinn á? Nei. Skoðum þrjár ástæður fyrir því að við getum verið viss um það. Í fyrst lagi voru postularnir viðstaddir og þeir lögðu enga slíka merkingu í orð Jesú. Ef Jesús upphóf Pétur fyrir framan þá alla, hvers vegna deildu þeir þá oft um hver þeirra væri mestur? (Markús 9:33-35; Lúkas 22:24-26) Í öðru lagi sýndi Páll postuli síðar fram á að Jesús Kristur væri kletturinn en ekki Pétur. (1. Korintubréf 3:11; 10:4) Í þriðja lagi lét Pétur sjálfur í ljós, áratugum síðar, að hann stæði ekki í þeirri trú að hann væri kletturinn. Hann skrifaði að Jesús væri ,hornsteinninn‘ sem hafði verið spáð fyrir um, sá sem Guð valdi sjálfur. — 1. Pétursbréf 2:4-8.

Samt sem áður vilja sumir meina að þar sem nafn Péturs þýði klettur hafi Jesús verið að benda á að hann væri kletturinn. En staðreyndin er sú að nafn Péturs er ekki samheiti fyrir orðið ,klettur‘ sem er notað í versinu. Nafnið Pétur þýðir raunar „steinn“ og er karlkynsnafnorð. Orðið, sem er þýtt „kletturinn“, er hins vegar kvenkynsnafnorð. Hvernig eigum við þá að skilja orð Jesú? Hann var raunar að segja við Pétur: „Þú ert sá sem ég kalla Pétur, eða klett, og þú hefur komist að því hver er ,kletturinn‘, það er að segja Kristur, sá sem verður grundvöllur kristna safnaðarins.“ Pétri hlotnaðist mikill heiður að fá að aðstoða við að leiða í ljós svo mikilvægan sannleika.

[Mynd á bls. 24, 25]

Pétur var trúr, jafnvel þegar þurfti að leiðrétta hann.

[Mynd á bls. 26]

Pétri var launuð trúfestin með stórkostlegri sýn.