Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig bjuggu þeir?

Hvernig bjuggu þeir?

Frumkristnir menn og samtíð þeirra

Hvernig bjuggu þeir?

„Ég dró ekkert undan . . . heldur boðaði . . . og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ — POSTULASAGAN 20:20.

ÞÚ GENGUR inn um stórt og rammbyggt borgarhliðið og við þér blasir dæmigerð borg fyrstu aldar. Líkt og margar aðrar borgir stendur hún á hæð. Þú lítur upp og sérð efri borgarhlutann gnæfa yfir efst á hæðinni. Fjöldinn allur af glæsilegum hvítum einbýlishúsum, mörg hver með húsagörðum, glampa í sólinni. Þetta er auðmannahverfið. Niður með hlíðinni birtast fleiri hús af ýmsum stærðum og gerðum. Þessi stóru steinhús, tví- eða þrílyft, liggja þétt meðfram steinlögðum götunum. Í þeim búa kaupmenn og landeigendur úr miðstéttinni. Neðar í dalnum búa hinir efnaminni. Fábreytt húsin eru eins og litlir kassar sem mynda þyrpingu í kringum smáan húsagarð eða er raðað þétt meðfram mjóum sundum.

Þú berst áfram með mannþrönginni og hljóðin og lyktin hreyfa við skilningarvitunum. Konur baksa við eldamennsku og lokkandi matarilminn leggur um svæðið. Þú heyrir í dýrum og börnum að leik. Karlmenn eru önnum kafnir við vinnu sína í verslunum og vinnustofum innan um skarkala og kæfandi lykt.

Í þessum húsum vörðu kristnar fjölskyldur mestöllum tíma sínum. Þau voru vettvangur daglegs lífs, trúarkennslu og tilbeiðslu.

Minni húsin. Stærð og gerð húsanna var breytileg eftir staðsetningu og fjárhagfjöl- skyldunnar, líkt og algengt er nú á dögum. Minnstu húsin (1) voru ekki annað en lítið og dimmt herbergi sem var íverustaður allrar fjölskyldunnar. Mörg minni húsanna voru hlaðin úr tigulsteini úr sólþurrkuðum leir. Önnur voru hlaðin úr grófhöggnum steini. Báðar húsagerðirnar voru yfirleitt reistar á steingrunni.

Að innan voru veggirnir múrhúðaðir og gólfin lögð steinum og kostaði þetta mikið viðhald. Á þaki eða vegg var að minnsta kosti eitt lítið op til að hleypa út reyk og gufu sem myndaðist við matseldina. Húsbúnaður var fátæklegur, yfirleitt bara það nauðsynlegasta.

Þakið hvíldi á bjálkum og stoðum úr tré. Ofan á bjálkana voru lagðar sperrur, greinar og reyr og þar ofan á var lagður jarðvegur. Hann var þjappaður og síðan múrhúðaður og veitti þá þokkalega vörn í rigningu. Til að komast upp á þakið þurfti að klifra upp stiga á utanverðu húsinu.

Jafnvel þótt plássið væri ekki mikið voru heimili kristinna manna ánægjulegur dvalarstaður og við slíkan húsakost gátu meira að segja efnalitlar fjölskyldur verið andlega ríkar og hamingjusamar.

Miðstéttin. Stærri, tvílyftu steinhúsin, (2) sem miðstéttarfólkið bjó í, voru búin gesta- herbergi. (Markús 14:13-16; Postulasagan 1:13, 14) Þetta stóra herbergi á efri hæðinni var nægilega rúmgott til að hægt væri að halda þar samkomur og oft var hægt að fá þar inni á hátíðum. (Postulasagan 2:1-4) Þessi hús og enn stærri hús (3) kaupmanna og landeigenda voru hlaðin úr kalksteini sem bundinn var með kalksteypublöndu. Gólf og innveggir voru lagðir steini og múrhúðaðir en útveggir voru hvíttir með kalki.

Tröppur lágu upp í herbergin á efri hæðinni og upp á þak. Handrið var hlaðið umhverfis öll flöt þök til að koma í veg fyrir að fólk dytti fram af og önnur slys. (5. Mósebók 22:8) Í miðdegishitanum gat verið indælt að fara upp á þak og koma sér fyrir í skugga undir léttu skýli til að lesa orð Guðs, hugleiða, biðja eða hvílast. — Postulasagan 10:9.

Stærri fjölskyldur bjuggu oft í þessum sterkbyggðu húsum með rúmgóðum herbergjum. Þessi hús buðu upp á meira rými, aðskilin svefnherbergi og stærra eldhús og borðstofu.

Íburðarmeiri húsin. Hús byggð í rómversk- um stíl (4) voru mjög ólík að stærð, hönnun og gerð. Rúmgóð herbergi lágu umhverfis stóra borðstofu (triclinium) og þar kom fjölskyldan saman. Sum húsin voru tvær eða þrjár hæðir (5) og við sum þeirra var afluktur garður.

Í íburðarmeiri húsunum var líklega að finna vönduð húsgögn sem sum hver voru skreytt innlögðu fílabeini og gulli. Þessi heimili voru búin þægindum eins og rennandi vatni og baðlaug. Gólfið var líklega lagt viði eða mislitum marmara og veggirnir þiljaðir með sedrusviði. Glóðarker voru notuð til upphitunar. Grindur, yfirleitt úr tré, voru settar í gluggaopin til varnar innbrotum og gluggatjöld veittu fólki visst næði. Sæti voru höggvin í steinveggina undir gluggunum. — Postulasagan 20:9, 10.

Frumkristnir menn voru gestrisnir og örlátir á eigur sínar sama í hvernig húsi þeir bjuggu. Það var því auðvelt fyrir farandumsjónarmenn að fá inni hjá vingjarnlegum og gestrisnum fjölskyldum þar til þeir luku verkefnum sínum í þeirri borg eða bæ. — Matteus 10:11; Postulasagan 16:14, 15.

„Hús Símonar og Andrésar.“ Jesús fékk hlýjar móttökur þegar hann kom í „hús Símonar og Andrésar“. (Markús 1:29-31) Hugsanlegt er að þessir fiskimenn hafi búið í látlausu húsi (6) sem stóð ásamt nokkrum öðrum í þyrpingu kringum steinlagðan húsagarð.

Dyr og gluggar sneru að húsagarðinum og þar stundaði fólk sín daglegu störf eins og að matbúa, baka, mala korn, spjalla saman og matast.

Einlyft húsin í Kapernaúm voru reist úr óhöggnu blágrýti. Stigar eða tröppur voru utan á húsinu og lágu upp á flatt þakið. Það hvíldi á bjálkum og ofan á voru lagðar sperrur og reyr sem var síðan klæddur þjöppuðum leir eða flísum. (Markús 2:1-5) Gólfin voru steinlögð og algengt var að leggja mottur á þau.

Húsaþyrpingar mynduðu götur og mjóstræti meðfram strönd Galíleuvatns. Kapernaúm var kjörið heimili fyrir fiskimenn sem stunduðu atvinnu sína á Galíleuvatni.

„Í heimahúsum.“ Við höfum séð að húsin, sem frumkristnir menn bjuggu í, voru margs konar, allt frá litlum eins herbergis tigulsteinshúsum upp í stór og glæsileg steinhús.

Þessi hús höfðu annað og meira hlutverk en að veita fjölskyldunni skjól. Það var á heimilinu sem fjölskyldan fræddist um trúna og sameinaðist í tilbeiðslunni á Jehóva. Fjölskyldur söfnuðust saman á einkaheimilum til að rannsaka Ritninguna og njóta félagsskapar við trúsystkini. Það sem kristnir menn lærðu á heimilinu notuðu þeir þegar þeir sinntu mikilvægasta verkefninu, því að prédika og kenna „í heimahúsum“ út um allt rómverska heimsveldið. — Postulasagan 20:20.