Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna háði Guð stríð við Kanverja?

Hvers vegna háði Guð stríð við Kanverja?

Hvers vegna háði Guð stríð við Kanverja?

„Miklu fremur skalt þú gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum [Kanverjum], Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og Drottinn Guð þinn hefir fyrir þig lagt.“ — 5. MÓSEBÓK 20:17, BIBLÍAN 1981.

„Hafið frið við alla menn.“ — RÓMVERJABRÉFIР12:18.

FINNST þér þessi biblíuvers stangast á? Mörgum reynist erfitt að láta skipun Guðs um að gereyða Kanverjum koma heim og saman við áminninguna í Biblíunni um að hafa frið við alla menn. * (Jesaja 2:4; 2. Korintubréf 13:11) Þeim finnst þessi fyrirmæli ekki samræmast siðferðilega.

Ef þú gætir rætt við Guð um þetta málefni, hvaða spurningar myndir þú leggja fyrir hann? Hugleiddu fimm algengar spurningar og svörin sem er að finna í Biblíunni.

1. Hvers vegna voru Kanverjar hraktir burt? Kanverjar voru á vissan hátt landtökumenn í landi sem þeir áttu ekkert í. Hvernig stóð á því? Guð lofaði hinum trúa Abraham um 400 árum áður að niðjar hans myndu eignast Kanaansland. (1. Mósebók 15:18) Guð uppfyllti þetta loforð þegar hann lét Ísraelsþjóðina, afkomendur Abrahams, hernema landsvæðið. Auðvitað gætu sumir andmælt og sagt að Kanverjar hefðu verið búsettir þarna áður og hefðu þess vegna átt tilkall til landsins. En þar sem Guð er Drottinn alheims hefur hann endanlegan rétt til að ákveða hver búi hvar. — Postulasagan 17:26; 1. Korintubréf 10:26.

2. Hvers vegna leyfði Guð Kanverjum ekki líka að búa í landinu? Guð varaði við Kanverjum og sagði: „Þeir mega ekki búa í landi þínu svo að þeir fái þig ekki til að syndga gegn mér með því að þjóna guðum þeirra. Það yrði þér að tálsnöru.“ (2. Mósebók 23:33) Spámaðurinn Móse sagði Ísraelsþjóðinni seinna: „Drottinn [hrekur] þær á brott vegna þess að þær eru ranglátar.“ (5. Mósebók 9:5) Hve ranglátar voru þessar þjóðir eiginlega?

Meðal íbúa Kanaanslands var ósiðsemi og heiðin guðsdýrkun útbreidd og barnafórnir algengar. Biblíufræðingurinn Henry H. Halley bendir á að fornleifafræðingar, sem unnu að uppgrefti á svæðinu, „hafi fundið fjölda kerja sem innihéldu leifar barna er hafði verið fórnað Baal [einum helsta guði Kanverja]“. Hann bætir við: „Allt svæðið reyndist vera grafreitur nýfæddra barna . . . Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum sem helgiathöfn frammi fyrir þeim; og síðan með því að myrða frumgetin börn sín að fórn handa þessum sömu guðum. Svo virðist sem Kanaansland hafi að verulegu leyti orðið eins konar Sódóma og Gómorra á landsvísu . . . Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“

3. Var ekki annað ranglátt fólk á jörðinni á þessum tíma? Hvers vegna voru bara Kanverjar valdir úr? Guð hefur margsinnis valið ákveðna syndara úr og tekið þá af lífi. „Jörðin var spillt í augum Guðs og full ranglætis“ á dögum Nóa. Guð lét þá vatnsflóð eyða öllum að undanskilinni einni fjölskyldu — fjölskyldu Nóa. (1. Mósebók 6:11; 2. Pétursbréf 2:5) Guð eyddi borgunum Sódómu og Gómorru vegna syndar íbúanna sem var orðin „mjög þung“. (1. Mósebók 18:20; 2. Pétursbréf 2:6) Hann kvað upp dóm gegn Níníve, höfuðborg Assýríu, „hinni blóðseku borg“, en þyrmdi samt borginni þegar íbúarnir iðruðust rangrar breytni sinnar. (Nahúm 3:1; Jónas 1:1, 2; 3:2, 5-10) Guð gereyddi hins vegar Kanverjum til að vernda Ísrael, þjóðina sem átti með tíð og tíma að leiða fram Messías. — Sálmur 132:11, 12.

4. Stangaðist eyðing Kanverja ekki á við kærleika Guðs? Við fyrstu sýn getur virst sem útrýming Kanverja samræmist ekki kærleika Guðs. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kærleikur hans kemur hins vegar vel í ljós þegar við athugum málið nánar.

Guð vissi löngu fyrir fram að íbúar Kanaanslands væru á rangri braut. Í stað þess að uppræta þá þegar í stað beið hann þolinmóður í 400 ár uns þeir höfðu „fyllt mæli sektar sinnar“. — 1. Mósebók 15:16.

Þegar synd Kanverja var orðin svo mikil að öll von var úti um að þeir tækju sig á eyddi Jehóva þeim. Samt sem áður útrýmdi hann ekki öllum Kanverjum í blindni. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það var ekki útséð um að einhverjir bættu ráð sitt. Þeim sem vildu breyta sér var sýnd miskunn eins og til dæmis Rahab og Gíbeonítunum. — Jósúabók 9:3-11, 16-27; Hebreabréfið 11:31.

5. Hvernig gat kærleiksríkur Guð eytt nokkrum manni? Þetta er afar skiljanleg spurning vegna þess að það er heldur óskemmtilegt tilhugsunar að tortíma fólki. Guð greip engu að síður til svona rótækra aðgerða gegn hinum ranglátu vegna kærleika. Lýsum þessu með dæmi: Þegar sjúklingur fær drep hafa læknar oft engra annarra kosta völ en að nema sýkta liminn brott. Fáum þykir það vera gleðiefni að framkvæma slíka aðgerð en góður læknir veit að hinn valkosturinn er verri — að sýkingin breiðist út. Læknirinn framkvæmir þetta ógeðfellda verk því að hann ber hag sjúklingsins fyrir brjósti.

Á svipaðan hátt má segja að það hafi ekki verið gleðiefni fyrir Jehóva að eyða Kanverjum. Hann segir sjálfur: „Mér þóknast ekki dauði guðlausra.“ (Esekíel 33:11) Hann hafði á þessum tíma í hyggju að láta Ísraelsþjóðina leiða fram Messías sem átti að opna öllum trúuðum mönnum leið til frelsunar. (Jóhannes 3:16) Guð gat því augljóslega ekki látið Ísraelsmenn smitast af viðbjóðslegu framferði Kanverja. Þess vegna fyrirskipaði hann að Kanverjar skyldu upprættir eða hraktir burt úr landinu. Með þessu sýndi Guð einstakan kærleika — kærleika sem var það mikill að hann framkvæmdi ógeðfellt verk til góðs fyrir trúa tilbiðjendur sína.

Gagn fyrir okkur

Höfum við nú á tímum eitthvað gagn af frásögunni af eyðingu Kanverja? Já, því að í Rómverjabréfinu 15:4 segir: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og þeirrar uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ Hvað lærum við af því sem gerðist í Kanaanslandi og hvaða von veitir það okkur?

Við getum lært margt af þessum frásögum. Tökum dæmi: Guð þyrmdi Rahab og Gíbeonítunum í miskunn sinni þegar þau fóru að trúa á hann. Það minnir okkur á að hver sá sem vill einlæglega þóknast Guði getur það, óháð uppruna sínum eða fyrri syndum. — Postulasagan 17:30.

Frásögurnar af eyðingunni í Kanaanslandi fylla okkur líka von því að þær gefa okkur innsýn í það sem Guð ætlar að gera í náinni framtíð. Við sannfærumst um að Guð muni ekki heimila hinu illa að útrýma hinu góða. Öllu heldur kemur skýrt fram í Biblíunni að hann taki fljótlega í taumana og eyði öllum þeim sem eru ranglátir og leiði þá sem elska hann inn í nýjan réttlátan heim. (2. Pétursbréf 2:9; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þegar það gerist rætast þessi uppörvandi orð: „Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ — Sálmur 37:34, Biblían 1981.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í þessari grein er heitið „Kanverjar“ notað yfir allar þjóðirnar sem Guð bauð Ísraelsmönnum að hrekja burt.

[Rammi á bls. 12]

Er hernaður manna fordæmdur í Biblíunni?

Réttlætir það hernað manna nú á dögum að Guð skyldi gefa Ísraelsmönnum fyrirmæli um að eyða Kanverjum? Nei, og því til stuðnings eru að minnsta kosti þrjár ástæður:

Nú á dögum nýtur engin jarðnesk þjóð sérstakrar velþóknunar Guðs. Eftir að Ísraelsmenn höfnuðu Jesú sem Messíasi voru þeir ekki lengur fulltrúar Guðs og þjónuðu ekki heldur sem aftökumenn fyrir hann. (Matteus 21:42, 43) Þess vegna urðu Ísraelsmenn eins og hver önnur þjóð í augum Jehóva. (3. Mósebók 18:24-28) Upp frá því gat engin þjóð á jörðinni réttilega haldið því fram að hún nyti stuðnings Guðs í hernaði.

Jehóva úthlutar tilbiðjendum sínum ekki lengur ákveðnu landi eða landsvæði. Þjónar hans eru af „öllum þjóðum og kynkvíslum“ jarðar. — Opinberunarbókin 7:9; Postulasagan 10:34, 35.

Jesús lét skýrt í ljós að fylgjendur hans myndu ekki taka þátt í hernaði. Þegar hann varaði við yfirvofandi árás á Jerúsalem gaf hann lærisveinum sínum þau fyrirmæli að vera ekki um kyrrt til að berjast. Þess í stað áttu þeir að flýja, sem þeir og gerðu. (Matteus 24:15, 16) Í stað þess að grípa til vopna treysta trúir kristnir menn algerlega á ríki Guðs sem fjarlægir innan skamms alla illsku af jörðinni. — Daníel 2:44; Jóhannes 18:36.

[Mynd á bls. 13]

Frásagan af Rahab sýnir okkur fram á að allir sem vilja einlæglega þóknast Guði geta það.