Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvert er viðhorf Guðs til áfengis?

Hvert er viðhorf Guðs til áfengis?

Hvert er viðhorf Guðs til áfengis?

SKAPARI okkar, sem vill okkur aðeins það besta, bannar ekki hóflega notkun áfengis. * Hann hefur gefið okkur „vín sem gleður mannsins hjarta, olíu sem lætur andlit hans ljóma og brauð sem veitir honum þrótt“. (Sálmur 104:15) Einu sinni þegar Jesús Kristur var staddur í brúðkaupi breytti hann vatni í eðalvín og stuðlaði þannig að ánægjulegum veisluhöldum. — Jóhannes 2:3-10.

Það er rökrétt að ætla að skaparinn viti nákvæmlega hvaða áhrif áfengi hefur á starfsemi líkamans og heilans. Í Biblíunni kennir hann okkur „það sem gagnlegt er“ og varar okkur við því að misnota áfengi. (Jesaja 48:17) Taktu eftir þessum afdráttarlausu viðvörunum:

„Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar.“ (Efesusbréfið 5:18) „Enginn . . . vínsvallari . . . fær að erfa Guðs ríki.“ (1. Korintubréf 6:9-11) Orð Guðs fordæmir ,ofdrykkju, svall og annað þessu líkt‘. — Galatabréfið 5:19-21.

Skoðum nú nánar hvaða hættur felast í því að drekka of mikið.

Hætturnar sem fylgja ofdrykkju

Þótt áfengi geti að sumu leyti gert okkur gott inniheldur það sterk efni sem breyta starfsemi líkamans og heilans. Ofnotkun áfengis getur leitt til eftirfarandi vandamála:

Mikil drykkja skerðir dómgreindina þannig að maður er ekki fær um að hugsa skýrt. (Orðskviðirnir 23:33) Allen, sem minnst var á í greininni á undan, segir: „Alkóhólismi er ekki bara líkamlegur sjúkdómur; þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á hugsanir manns og viðhorf. Maður lokar augunum fyrir sársaukanum sem maður veldur öðrum.“

Of mikil neysla áfengis getur líka losað um hömlur. Í Biblíunni segir: „Vín og vínberjalögur tekur vitið burt.“ (Hósea 4:11, Biblían 1981) Hvernig þá? Undir áhrifum áfengis geta hugsanir og langanir, sem við venjulega höldum í skefjum, farið að virðast fýsilegar — jafnvel aðlaðandi. Áfengi getur veikt ásetning okkar um að halda okkur við það sem er rétt. Það getur slævt siðferðilegar varnir okkar og leitt til andlegs skipbrots.

Jón hafði til dæmis verið að rífast við konuna sína þegar hann rauk í reiðikasti út á næsta bar. Hann hafði þegar fengið sér nokkur glös til að róa sig niður þegar kona kom og settist hjá honum. Eftir nokkur glös til viðbótar yfirgaf Jón barinn með henni og framdi hjúskaparbrot. Eftir á sá Jón einlæglega eftir því að hafa haldið fram hjá konunni sinni, eitthvað sem hann hefði aldrei gert ef áfengið hefði ekki losað um hömlur hans.

Ofneysla áfengis getur leitt til taumlausra orða og verka. „Hver barmar sér? Hver veinar? Hver á í stælum?“ spyr Biblían. „Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á vínblöndu.“ (Orðskviðirnir 23:29, 30) Ofdrykkja getur fengið þig til að líða „eins og sá sem liggur í úthafinu miðju, eins og sá er liggur efst uppi á siglutré“. (Orðskviðirnir 23:34) Sá sem hefur fengið sér of mikið vín getur vaknað daginn eftir barinn og lemstraður án þess að muna hvernig það gerðist. — Orðskviðirnir 23:35.

Ofdrykkja getur skaðað heilsuna. „Að síðustu bítur [áfengið] sem höggormur og spýtir eitri sem naðra.“ (Orðskviðirnir 23:32) Læknavísindin hafa staðfest orðin í þessum gamla orðskvið. Áfengi í miklu magni getur reynst banvænt eitur sem leiðir til ýmiss konar krabbameins, áfengislifrarbólgu, skorpulifrar, briskirtilsbólgu, lágs blóðsykurs hjá sykursjúkum, fósturskemmda, heilablóðfalls eða hjartabilunar — svo fátt eitt sé nefnt. Og manneskja getur fallið í dá eða jafnvel dáið eftir að hafa í eitt skipti drukkið of mikið eða sturtað í sig mörgum drykkjum í röð. En alvarlegustu afleiðingum ofdrykkju er þó ekki lýst í læknisfræðiritum.

Alvarlegasta hættan. Þótt maður verði ekki ölvaður getur óhófleg áfengisneysla sett sambandið við Guð í hættu. Í Biblíunni segir skýrt: „Vei þeim sem fara snemma á fætur til að sækja sér áfengan drykk og sitja langt fram á nótt eldrauðir af víni.“ Af hverju? Jesaja spámaður bendir á hvaða afleiðingar ofdrykkja hafi á trú þeirra: „[Þeir] gefa verkum Drottins engan gaum. Þeir sjá ekki handaverk hans.“ — Jesaja 5:11, 12.

Orð Guðs ráðleggur okkur að vera „ekki með drykkjurútum“. (Orðskviðirnir 23:20) Öldruðum konum er bent á að vera ekki „í ánauð ofdrykkjunnar“. (Títusarbréfið 2:3) Af hverju ekki? Hægt og bítandi fer fólk — oft án þess að átta sig á því — að drekka meira áfengi og oftar. Að lokum getur það orðið eins og drykkjumaðurinn, sem lýst er í Biblíunni, þar sem hann liggur í rúminu og spyr: „Hvenær mun ég vakna? Ég vil meira vín!“ (Orðskviðirnir 23:35, Biblían 1981) Drykkjumenn eru komnir yfir hættuleg mörk þegar þeir sárþarfnast afréttara, áfengis að morgni dags til að jafna sig á ofdrykkju næturinnar.

Í Biblíunni segir að þeir sem lifa í „ofdrykkju, óhófi [og] samdrykkjum . . . verða að gera reikningsskil þeim sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða“. (1. Pétursbréf 4:3, 5) Og í tengslum við þá erfiðu tíma sem við lifum á sagði Jesús: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur [Jehóva] komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara.“ — Lúkas 21:34, 35.

En hvað geta þeir sem neyta áfengis í óhófi gert til þess að ,drykkjan nái ekki tökum á þeim‘?

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Þegar talað er um áfengi, vín og drykki í þessari grein er átt við allar tegundir áfengis, bjór, léttvín og sterk vín.

[Myndir á bls. 4, 5]

Ofnotkun áfengis getur leitt til margra vandamála.