Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu börnunum

Rebekka vildi gleðja Jehóva

Rebekka vildi gleðja Jehóva

NAFNIÐ Rebekka er vel þekkt víða um lönd. Þekkirðu einhvern sem heitir það? – * Rebekka var þýðingarmikil persóna í frægustu bók í heimi, Biblíunni. Hvað veistu um Rebekku? – Við ættum að læra um Rebekku því að fordæmi hennar getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva, hinum sanna Guði.

Rebekka er önnur í röðinni af þeim konum, sem sagt er frá í Biblíunni að hafi tilbeðið Jehóva. Veistu hver var fyrsta konan sem gerði það? – Það var Sara, eiginkona Abrahams. Þegar Sara var komin á efri ár eignaðist hún Ísak, einkabarn sitt. Við skulum nú kynna okkur hvernig Rebekka fór að því að gleðja Jehóva og hvernig hún hitti Ísak.

Meira en 60 ár eru liðin frá því að Guð sendi Abraham og Söru frá Haran til Kanaanslands. Þegar Abraham og Sara eru orðin háöldruð lofar Guð þeim að þau muni eignast son sem á að heita Ísak. Eins og þú getur ímyndað þér þykir foreldrunum mjög vænt um Ísak. Þegar Sara deyr, 127 ára gömul, er Ísak orðinn fullvaxta og syrgir móður sína sárt. Abraham vill ekki að Ísak kvænist konu frá Kanaanslandi af því að fólkið þar tilbiður ekki Jehóva. Hann sendir því þjón sinn, líklega Elíeser, til að velja konu handa Ísak meðal ættingja Abrahams í Haran. En þangað eru meira en 800 kílómetrar. – 1. Mósebók 12:4, 5; 15:2; 17:17, 19; 23:1.

Eftir langa ferð kemur Elíeser til Haran ásamt öðrum þjónum Abrahams. Þeir eru með tíu úlfalda sem bera farangur og gjafir handa brúðinni. Þeir nema staðar við vatnslind því að Elíeser veit að fólk kemur þangað síðla dags til að ná í vatn handa dýrum sínum og fjölskyldum. Elíeser fer með bæn. Hann biður þess að stúlkan, sem hann eigi að velja sem eiginkonu handa Ísak, svari honum þegar hann biður um vatn að drekka og segi: „Fáðu þér að drekka og ég skal einnig brynna úlföldum þínum.“

Þetta er nákvæmlega það sem gerist! Ung stúlka, Rebekka, sem er „forkunnarfögur á að líta“, kemur að brunninum. Þegar Elíeser biður hana að gefa sér að drekka svarar hún: „Ég skal einnig ausa vatn úlföldum þínum.“ Elíeser horfir þögull á hana þar sem hún hleypur „jafnskjótt aftur að lindinni að ausa“. Hugsaðu þér! Til að brynna tíu þyrstum úlföldum þurfti Rebekka að færa þeim þúsund lítra af vatni!

Elíeser gefur Rebekku fallegar gjafir og hann fær að vita að hún er dóttir Betúels, ættinga Abrahams. Rebekka býður Elíeser og vinum hans heim til fjölskyldu sinnar og segir að þar sé nóg „húsrúm til gistingar“. Síðan hleypur hún á undan og segir frá gestunum sem Abraham hefur sent alla leiðina frá Kanaanslandi til að hitta fjölskylduna.

Þegar Laban, bróðir Rebekku, sér þessar verðmætu gjafir sem systir hans hefur fengið og fær að vita hver Elíeser er, býður hann honum inn. En Elíeser segir: „Ég neyti ekki matar fyrr en ég hef borið upp erindi mitt.“ Hann útskýrir síðan hvers vegna Abraham hafi sent hann. Betúel, eiginkona hans og Laban eru ánægð og samþykkja hjónabandið.

Elíeser og þeir sem með honum eru matast og gista um nóttina. Morguninn eftir segir Elíeser: „Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.“ En móðir Rebekku og bróðir vilja að þeir verði um kyrrt „svo sem tíu daga“. Þegar Rebekka er spurð hvort hún vilji fara undireins svarar hún: „Já.“ Hún fer umsvifalaust með Elíeser. Þegar ferðalagið er á enda verður hún eiginkona Ísaks. – 1. Mósebók 24:1-58, 67.

Heldurðu að það hafi verið auðvelt fyrir Rebekku að yfirgefa fjölskyldu og vini, fara til fjarlægs staðar og vita að hún sæi þau kannski aldrei aftur? – Nei, það var það ekki. En Rebekka hlaut blessun fyrir að gera það sem gladdi Jehóva. Hún var ein af formæðrum Jesú Krists, frelsara okkar. Við hljótum einnig blessun ef við erum fús, eins og hún, til að gera það sem gleður Jehóva. – Rómverjabréfið 9:7-10.

^ gr. 3 Sértu að lesa með barni á þankastrikið að minna þig á að staldra við og hvetja barnið til að tjá sig.