Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hverjum dettur í hug að stoppa hér?“

„Hverjum dettur í hug að stoppa hér?“

Bréf frá Suður-Afríku

„Hverjum dettur í hug að stoppa hér?“

„HÆTTUSVÆÐI — RÁN OG VÆNDI,“ stendur á viðvörunarskilti við mjóan sveitaveginn. Við beygjum út af veginum og staðnæmumst í rykinu hjá nokkrum öðrum bílum sem standa undir stóru auglýsingaskilti. Skiltið vísar veginn að fjölsóttum lúxusstað og spilavíti neðar við þjóðveginn. Fínir bílar bruna fram hjá og undrunarsvipurinn, sem birtist okkur gegnum bílrúðurnar, fer ekki fram hjá okkur. „Hverjum dettur í hug að stoppa hér?“ virðist mega lesa út úr svipnum.

Við stígum út úr bílnum og sláumst í hóp með snyrtilega klæddu fólki sem stendur í skugga auglýsingaskiltisins. Í hópnum er fólk af ýmsum kynþáttum og þjóðernum en það er enn þá fremur sjaldgæf sjón í Suður-Afríku. Við höfum ferðast til þessa landssvæðis um 100 kílómetra norðvestur af Jóhannesarborg og vonumst til að miðla sannleika Biblíunnar þeim sem eiga heima í þorpunum þar um slóðir.

Við stöndum smástund við vegarkantinn til að ræða biblíutexta og ljúka við að skipuleggja prédikunarstarfið hús úr húsi. Farið er með bæn og við setjumst aftur inn í bílana. Á sléttunni standa hús og hreysi í óskipulögðum þyrpingum eins langt og augað eygir. Himinháir haugar af úrgangi frá platínunámum gnæfa yfir þau. Fátæktin, sem blasir alls staðar við okkur, stingur í stúf við hinn gífurlega jarðefnaauð sem liggur þar neðanjarðar.

Við hjónin erum á ferðinni með tveim gestum frá Þýskalandi og hefjum daginn með því að boða trúna hús úr húsi. Um þriðjungur íbúanna er atvinnulaus og heimilin eru því fábrotin. Mörg þeirra eru hreysi, hrörleg timburgrind klædd bárujárni. Það er fest á grindina með stórum nöglum og útflattir tappar af bjórflöskum eru notaðir sem skinnur.

Þegar við nálgumst hús köllum við kveðjuorð frá hliðinu og oft er það húsmóðirin sem tekur á móti okkur. Þeir sem við tölum við eru áhugasamir að heyra boðskapinn sem við flytjum og okkur er tekið með virktum. Brennheitir sólargeislarnir á bárujárninu breyta húsunum í hreina bakaraofna á daginn. Börnin eru gjarnan send inn í húsið að sækja stóla til að setja undir tré, og okkur er boðið að setjast í skugganum.

Fjölskyldan safnast saman og sest niður á hrjúfa kolla eða kassa. Það er jafnvel kallað á litlu börnin þar sem þau eru að leika sér með heimagerð leikföng. Þau eiga að koma og hlusta. Við förum yfir nokkra ritningarstaði og bjóðum börnunum, sem eru á skólaaldri, að lesa upp úr biblíutengdum ritum sem við höfum meðferðis. Næstum allir sem við hittum taka með ánægju við ritunum og margir bjóða okkur að koma aftur.

Í hádeginu tökum við okkur hlé til að borða samloku og drekka eitthvað svalandi áður en haldið er af stað aftur til að heimsækja þá sem við höfum hitt áður. Við förum fyrst til Jimmys, innflytjanda frá Malaví, sem vinnur í einni af platínunámunum á staðnum. Við höfum heimsótt Jimmy í nokkra mánuði. Hann er ávallt glaður að sjá okkur og við höfum rætt um biblíuleg málefni við hann í þó nokkurn tíma. Jimmy er kvæntur konu sem talar setswana og á tvö yndisleg börn. Hann var ekki heima síðast þegar við komum svo að við hlökkum til að sjá hvernig hann hefur það.

Þegar við ökum upp að látlausu húsinu þar sem Jimmy á heima sjáum við strax að eitthvað er að. Garðurinn, sem venjulega er snyrtilegur, er nú óhirtur, kornskikinn visnaður og hænsnin, sem krafsa upp úr jörðinni það litla sem þau finna sér til viðurværis, eru farin. Dyrnar eru læstar utan frá með sterklegri keðju. Nágrannakona kemur til okkar til að kanna hvað sé um að vera. Við spyrjum hvort hún viti hvar Jimmy sé niðurkominn. Hún færir okkur átakanlegar fréttir. Jimmy er dáinn og eiginkona hans og börn eru flutt til fjölskyldu hennar.

Það er álitið ókurteisi að hnýsast en við biðjum samt um nánari upplýsingar. „Hann var veikur og síðan dó hann,“ segir hún. „Það er mikið um sjúkdóma þessa dagana. Margir deyja.“ Hún nefndi engan sérstakan sjúkdóm því að það er sjaldan haft orð á slíku, en röðin af nýjum gröfum í kirkjugarðinum lengist jafnt og þétt og það ber þess dapurlegt vitni að hún hafði lög að mæla. Við ræðum dálitla stund við hana um upprisuvonina og döpur í bragði förum við síðan í næstu heimsókn.

Við komum inn í annað þorp og ökum að síðustu húsaröðinni þar sem haugurinn frá námunni rís hátt frá jörðu. Við beygjum inn í heimkeyrsluna við enda götunnar. Á stóran stein í garðinum er málað skærum litum: „Óákveðni er tímaþjófur, frestun fylgifiskur hennar.“ David, * höfundur textans, rekur fram höfuðið þar sem hann er að bogra við vélina í gömlu Volkswagen-bjöllunni sinni. Hann pírir augun á móti sólinni sem er að setjast og brosir breitt þegar hann áttar sig á hver við erum. Það glampar á nýtískulegt gullið í framtönnunum. Hann þurrkar sér um hendurnar og kemur til okkar og heilsar.

„Halló, vinir!“ hrópar hann. „Hvar hafið þið verið?“ Það er gott að hitta David aftur. Hann afsakar að hann hafi ekki mikinn tíma aflögu í dag til að ræða við okkur vegna þess að hann hafi fengið vinnu frá því við hittumst síðast. Hann þurfi að vera mættur í námuna eftir smá stund. Hann er síbrosandi meðan á fjörlegum umræðum okkar stendur. „Líf mitt breyttist daginn sem ég hitti ykkur fyrst!“ segir hann ákafur. „Í alvöru talað þá veit ég ekki hvar ég væri núna ef þið hefðuð ekki komið.“

Það er léttara yfir okkur þegar við kveðjum David. Sólin er að ganga til viðar þegar við snúum bílnum og ökum heim á leið. Við lítum í síðasta sinn yfir sléttuna. Sólin glampar í rykmistrinu og við veltum fyrir okkur hvernig hægt sé að koma fagnaðarerindinu til alls þessa fólks. Við skiljum vel hvað Jesús átti við með orðunum: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir.“ — Lúkas 10:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Nafninu er breytt.

[Rétthafi myndar á bls. 29]

Með góðfúslegu leyfi South African Post Office.