Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Hann lætur þig finna sig‘

,Hann lætur þig finna sig‘

Nálægðu þig Guði

,Hann lætur þig finna sig‘

1. KRONÍKUBÓK 28:9

ÞEKKIRÐU Guð? Það getur verið flóknara en margir halda að svara því. Að þekkja Guð felur í rauninni í sér að vita hver vilji hans sé og þekkja vegi hans vel. Þannig eignumst við náið samband við hann og það hefur sterk áhrif á stefnu okkar í lífinu. En er í raun og veru hægt að eignast þess konar samband við Guð? Og ef svo er, hvernig getum við gert það? Þegar við skoðum þær ráðleggingar sem Davíð konungur gaf Salómon, syni sínum, í 1. Kroníkubók 28:9 fáum við svörin við því.

Sjáðu aðstæðurnar fyrir þér. Davíð hefur ríkt í Ísrael í tæplega 40 ár og þjóðin hefur dafnað undir stjórn hans. Salómon, sem mun bráðum taka við af honum, er enn mjög ungur. (1. Kroníkubók 29:1) Hvaða ráðleggingar fær hann frá Davíð, föður sínum, sem nú á skammt eftir ólifað?

Davíð hafði langa reynslu af þjónustunni við Guð og hann byrjar á því að segja: „Salómon, sonur minn, lærðu að þekkja Guð föður þíns.“ Davíð á greinilega við annað og meira en það að þekkja nokkrar staðreyndir um Guð. Salómon þjónaði þá þegar Jehóva, Guði Davíðs. Búið er að skrifa um það bil þriðjung af Hebresku ritningunum og Salómon veit eflaust vel hvað þessar helgu ritningar segja um Guð. Fræðimaður segir að hebreska orðið, sem þýtt er „þekkja“, geti átt við „mjög náin kynni“. Davíð vill augljóslega að sonur sinn eignist það sem hann sjálfur metur mjög mikils, náið og persónulegt samband við Guð.

Slíkt samband við Guð átti að hafa djúpstæð áhrif á viðhorf Salómons og líferni. Davíð brýnir fyrir syni sínum: „Þjónaðu [Guði] af heilum hug og af fúsum vilja.“ Taktu eftir að tilmælin um að þjóna Guði koma á eftir hvatningunni til að kynnast honum. Ef við þekkjum Guð í raun og veru knýr það okkur til að þjóna honum. En hann hefur ekki velþóknun á að við þjónum honum af hálfum hug og með hangandi hendi eða með hræsni. (Sálmur 12:3; 119:113) Davíð sárbændi son sinn um að þjóna Guði af heilum hug og af fúsum vilja.

Hvers vegna hvetur Davíð son sinn að þjóna Guði af réttum hvötum? Hann segir: „Því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugsanir.“ Salómon átti ekki að þjóna Guði bara til að þóknast Davíð föður sínum. Jehóva leitar að þeim sem hafa heilt hjarta og langar einlæglega til að þjóna honum.

Á Salómon eftir að fylgja fordæmi föður síns og nálægja sig Jehóva? Það er undir sjálfum honum komið. Davíð segir syni sínum: „Ef þú leitar hans lætur hann þig finna sig en ef þú yfirgefur hann útskúfar hann þér um alla framtíð.“ Ef Salómon vill þjóna Jehóva og eiga náið samband við hann þarf hann að leggja sig fram um að kynnast honum. *

Föðurleg ráð Davíðs fullvissa okkur um að Jehóva vill að við kynnumst sér náið. En til að mynda slík tengsl þurfum við að ,leita hans‘, það er að segja að kafa djúpt í orð hans með það að markmiði að þekkja hann náið. Ef við þekkjum hann vel er það okkur hvatning til að þjóna honum af fúsum vilja og heilu hjarta. Jehóva vill að við þjónum sér af þessum hvötum, enda á hann ekkert minna skilið. — Matteus 22:37.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Þó að Salómon hafi upphaflega þjónað Jehóva af heilu hjarta hélt hann því miður ekki tryggð sinni við hann. — 1. Konungabók 11:4.