Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sinnum þörfum einstæðra foreldra

Sinnum þörfum einstæðra foreldra

Sinnum þörfum einstæðra foreldra

FÁTT er jafn krefjandi og að vera einstætt foreldri. Erfiðleikarnir eru óteljandi. Einstæðir foreldrar þurfa að rísa undir allri þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera foreldrar. Auk þess að vinna utan heimilis verða þeir að sjá um innkaup, matargerð og þrif, auk þess að ala upp börnin. Þá þarf að sjá fyrir heilsugæslu, afþreyingu, sinna tilfinningalegri þörf barnanna og finna nokkur dýrmæt augnablik til að vera út af fyrir sig, ef það er þá hægt.

Þótt einstæðum foreldrum fjölgi jafnt og þétt og þeir verði meira áberandi í samfélaginu er hægðarleikur að sjást yfir að þeir séu til. Eins og ein móðir sagði heiðarlega: „Ég leiddi sjaldan hugann að þeim fyrr en ég varð sjálf einstæð móðir.“ Hvað geturðu gert til að styðja við bakið á einstæðum foreldrum? Ættirðu að láta þér annt um þá? Lítum á þrjár ástæður fyrir því að við ættum að huga að þörfum þeirra.

Ástæður til að vera hjálpsöm

Margir einstæðir foreldrar vilja fá hjálp. Fjörutíu og eins árs ekkja og tveggja barna móðir sagði: „Það koma stundir þegar ég veit ekki hvað skal gera og mér finnst þessi margvíslega ábyrgð, sem hvílir á mér, vera yfirþyrmandi.“ Margt getur orðið til þess að einstæðu foreldri líður eins og móðurinni sem nefnd er hér á eftir, svo sem það að hafa misst maka eða lent í skilnaði eða öðrum óheppilegum aðstæðum. Hún lýsir líðan sinni svo: „Við sárbiðjum um aðstoð og við þurfum sárlega á henni að halda.“

Þú hefur sjálfur ánægju af því. Hefurðu einhvern tíma hjálpað einhverjum að bera byrði sem var of þung fyrir eina manneskju? Ef svo er hefurðu líklega fundið fyrir ánægju yfir því að hafa orðið öðrum að liði. Einstæðir foreldrar bera á líkan hátt ábyrgð sem getur stundum orðið of þung fyrir eina manneskju. Þegar þú bregst við þörfum þeirra og réttir þeim hjálparhönd upplifirðu sannleiksgildi orðanna í Sálmi 41:2: „Sæll er sá sem sinnir bágstöddum.“

Það gleður Guð. Í Jakobsbréfinu 1:27 segir: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra.“ Þetta felur í sér að sinna þörfum einstæðra foreldra. * Í Hebreabréfinu 13:16 stendur: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“

Með þessar þrjár ástæður í huga skulum við líta á hvað hægt er að gera til að sýna einstæðum foreldrum umhyggju og vera viss um að hjálpin, sem látin er í té, komi að gagni.

Komum auga á þarfir þeirra

Það liggur kannski í augum uppi að spyrja einstæða foreldrið: „Er eitthvað sem ég get gert fyrir þig?“ Það leiðir þó sjaldan til þess að þú fáir að vita hvers einstæða foreldrið þarfnast mest. Eins og áður var minnst á er ráðlagt í Sálmi 41:2,sinna bágstöddum‘. Í heimildarriti nokkru er útskýrt að hebreska orðið, sem notað er í þessu sambandi, geti þýtt „það ferli að hugleiða flóknar hugmyndir sem leiðir til viturlegrar breytni“.

Það er því nauðsynlegt að hugleiða alvarlega erfiðleikana sem einstæða foreldrið á við að glíma til að finna út hvaða hjálp komi sér best. Vertu athugull, líttu ekki aðeins yfirborðslega á ástandið. Spyrðu þig: „Hvaða hjálp vildi ég fá ef ég væri í þessum sporum?“ Margir einstæðir foreldrar myndu auðvitað segja að enginn geti skilið til fulls hvað sé að vera einstætt foreldri nema vera það sjálfur. Með því að gera þitt besta til að setja þig í spor þeirra stendurðu samt betur að vígi til að sinna þeim.

Líkjum eftir fullkomnu fordæmi Guðs

Enginn hefur sinnt einstæðum foreldrum á eins kærleiksríkan og áhrifaríkan hátt og Jehóva Guð. Margir ritningarstaðir varpa ljósi á nærgætnina og umhyggjuna sem Jehóva Guð sýnir ekkjum og munaðarlausum og þar af leiðandi einstæðum foreldrum. Með því að rannsaka hvernig Guð hefur sinnt bágstöddum getum við lært hvernig hægt er að veita raunhæfa aðstoð. Fjögur lykilatriði ber að hafa í huga.

Hlustum

Í lögunum, sem Jehóva gaf Ísraelsþjóðinni til forna, lýsti hann yfir að hann myndi ævinlega bænheyra þá sem væru illa staddir og ,hrópuðu á hjálp‘. (2. Mósebók 22:22, 23) Hvernig geturðu líkt eftir þessu góða fordæmi? Einstæðir foreldrar eru oft gripnir ákafri einmanakennd þar sem þeir hafa engan fullorðinn til að tala við. „Þegar börnin fara í rúmið setur öðru hverju að mér óstöðvandi grátur,“ sagði einstæð móðir. „Stundum er einveran óbærileg.“ Gætirðu verið til taks, eftir því sem við á, og hlustað á einstætt foreldri sem ,hrópar á hjálp‘ og þarf að létta á hjarta sínu? Með því að hlusta við viðeigandi aðstæður er oft hægt að hjálpa einstæðum foreldrum að ráða fram úr erfiðleikum sínum.

Uppörvum með orðum

Jehóva sá til þess að ortir væru helgisöngvar eða sálmar sem Ísraelsmenn áttu að syngja við tilbeiðsluathafnir. Ímyndaðu þér uppörvunina sem ekkjur og munaðarlausir í Ísrael fengu þegar þau sungu hin innblásnu orð Guðs sem minnti þá á að Jehóva væri „faðir“ þeirra og“verndari“ og annaðist þau. (Sálmur 68:6; 146:9) Við getum einnig uppörvað einstætt foreldri með orðum sem geta verið þeim minnisstæð árum saman. Ruth er einstæð móðir. Þótt 20 ár séu liðin minnist hún þess enn með hlýhug þegar lífsreyndur faðir sagði við hana: „Þér hefur sannarlega tekist vel að ala upp báða drengina þína. Haltu svona áfram.“ Ruth segir: „Þegar ég heyrði hann segja þetta hafði það mikil áhrif á mig.“ Það má vissulega segja að „vingjarnleg orð“ geti verið meira uppörvandi fyrir einstætt foreldri en við fáum nokkurn tíma vitneskju um. (Orðskviðirnir 16:24) Dettur þér eitthvað í hug sem þú getur hrósað einstæðu foreldri sérstaklega fyrir?

Veitum þeim efnislega aðstoð eftir þörfum

Í lögum Jehóva handa Ísraelsmönnum til forna voru gerðar ráðstafanir til að ekkjur og munaðarlausir fengju nauðsynlegan mat á mannsæmandi hátt. Með þessum ákvæðum var tryggt að þau hefðu nóg ,svo að þau gætu etið sig mett‘. (5. Mósebók 24:19-21; 26:12, 13) Með háttvísi og nærgætni getum við líka veitt efnislega aðstoð einstæðu foreldri sem þarf á því að halda. Geturðu komið við hjá þeim með tilbúinn mat eða poka með matvörum? Áttu fatnað sem einstæða foreldrið eða börnin gætu notað? Eða geturðu látið til falla peninga svo að einstæða foreldrið geti keypt hluti sem fjölskyldan þarfnast?

Veitum félagsskap

Jehóva bauð að ekkjur og munaðarleysingjar ættu að taka þátt í árlegum hátíðum þjóðarinnar þar sem þau gætu notið félagsskapar við aðra Ísraela. Þeim var sagt: „Þú skalt gleðjast.“ (5. Mósebók 16:10-15) Eins er það núna. Kristið fólk er minnt á að ,vera gestrisið hvert við annað‘ og eiga ánægjulegar stundir saman. (1. Pétursbréf 4:9) Væri ekki tilvalið að bjóða einstæðu foreldri ásamt börnunum heim í mat? Maturinn þarf ekki að vera margbrotinn. Einu sinni þegar Jesús var staddur á heimili vina sinna sagði hann að máltíð mætti vera með einföldu sniði. — Lúkas 10:42.

Umhyggja þín er metin

Kathleen er einstæð móðir og hefur alið upp þrjú börn. Hún segir að hún muni aldrei gleyma þessu viturlega ráði: „Væntu einskis, vertu þakklát fyrir allt.“ Margir einstæðir foreldrar gera sér grein fyrir því, líkt og Kathleen, að það er á ábyrgð sjálfra þeirra að ala upp börnin. Þess vegna ætlast þeir ekki til að aðrir geri það sem þeir eiga að gera sjálfir. En það er enginn vafi á því að þeir kunna að meta alla þá aðstoð sem veitt er. Þú getur stuðlað að vellíðan einstæðra foreldra og eigin hamingju með því að sinna þörfum þeirra. Þú mátt treysta að Jehóva mun endurgjalda þér það sem þú hefur gert. — Orðskviðirnir 19:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Þótt orðin „einstætt foreldri“ komi ekki fyrir í Biblíunni eru orðin „ekkja“ og „munaðarlaus“ oft notuð. Þetta bendir til þess að jafnvel á biblíutímanum hafi verið margt um einstæða foreldra. — Jesaja 1:17.

[Mynd á bls. 28]

Hvað er langt síðan þú bauðst einstæðu foreldri ásamt börnunum í mat? Hvers vegna ekki að gera það innan tíðar?