Vandaðu valið á vinum
4. Ráð
Vandaðu valið á vinum
HVAÐ KENNIR BIBLÍAN? „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“ — Orðskviðirnir 13:20.
HVERS VEGNA ER ÞAÐ EKKI AUÐVELT? Vinir okkar gera okkur annaðhvort ánægðari með hlutskipti okkar eða óánægðari. Viðhorf þeirra og tal hefur vissulega áhrif á það hvernig við lítum á líf okkar. — 1. Korintubréf 15:33.
Tökum sem dæmi frásögu Biblíunnar af 12 mönnum sem sneru til baka úr leiðangri til Kanaanslands. Flestir þeirra „báru út óhróður meðal Ísraelsmanna um landið sem þeir höfðu kannað“. Þó töluðu tveir mannanna jákvætt um Kanaansland og kölluðu það „afar gott“ land. En neikvætt viðhorf njósnaranna tíu smitaði út frá sér meðal fólksins. „Tók allur söfnuðurinn að kveina hástöfum,“ segir frásagan, „og allir Ísraelsmenn mögluðu.“ — 4. Mósebók 13:30–14:9.
Margir nú á tímum eru líka „síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín“. (Júdasarbréfið 16) Ef maður er innan um fólk sem er aldrei ánægt er hætt við að maður verði óánægður sjálfur.
HVAÐ GETURÐU GERT? Veltu fyrir þér hvernig samræður þú átt við vini þína. Grobba þeir sig af eigum sínum eða kvarta stanslaust yfir því sem þeir eiga ekki? Og hvers konar vinur ert þú? Reynirðu að vekja öfund vina þinna eða hveturðu þá til að vera ánægða með það sem þeir hafa?
Hugleiddu fordæmi Davíðs og Jónatans. Davíð var tilvonandi konungur og Jónatan var sonur Sáls konungs. Davíð hafði verið flóttamaður í eyðimörkinni. Sál fannst sér ógnað af Davíð og vildi hann feigan. Jónatan og Davíð voru orðnir bestu vinir þó að Jónatan hefði samkvæmt hefðinni átt að erfa konungdóminn. Jónatan vissi að Guð hafði valið Davíð til að taka við konungdómi og var fyllilega sáttur við að styðja vin sinn. — 1. Samúelsbók 19:1, 2; 20:30-33; 23:14-18.
Þú þarft að eiga þannig vini — vini sem gera sitt besta til að vera ánægðir með sitt og bera hag þinn fyrir brjósti. (Orðskviðirnir 17:17) Og þú þarft auðvitað að sýna sömu eiginleika sjálfur til að laða að þér slíka vini. — Filippíbréfið 2:3, 4.
[Mynd á bls. 7]
Gera vinirnir þig ánægðari með hlutskipti þitt eða óánægðari?