Þeir fóru allt til endimarka jarðarinnar
Frumkristnir menn og samtíð þeirra
Þeir fóru allt til endimarka jarðarinnar
„Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe. Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í Derbe og gert marga að lærisveinum sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu.“ — POSTULASAGAN 14:20, 21.
FERÐALANGURINN andar að sér svölu morgunloftinu. Hann rennir lúnum fótunum í slitna ilskóna. Hann á langa og stranga göngu fram undan líkt og í gær.
Í morgunskímunni gengur hann eftir rykugum veginum með fram víngarði, inn á milli ólífutrjáa og upp bratta brekku. En fleiri eru á ferðinni — bændur arka í átt að ökrum sínum, kaupmenn reka á eftir burðardýrum sem eru klyfjuð varningi og pílagrímar eru á leiðinni til Jerúsalem. Ferðalangurinn og félagar hans tala við alla sem verða á vegi þeirra. Af hverju? Af því að Jesús fól þeim að vera vottar sínir „allt til endimarka jarðarinnar“. — Postulasagan 1:8.
Lýsingin á ferðalangnum gæti átt við Pál postula eða Barnabas eða hvern sem var úr hópi þrautseigra trúboða fyrstu aldar. (Postulasagan 14:19-26; 15:22) Þeir voru einbeittir og harðir af sér. Það var ekki auðvelt að ferðast á þeim tíma. Páll postuli lýsti strembnum sjóferðum sínum og sagðist hafa „þrisvar beðið skipbrot [og] verið sólarhring í sjó“. Landleiðin var ekkert skárri. Páll sagðist oft hafa „komist í hann krappan í ám [og] lent í háska af völdum ræningja“. — 2. Korintubréf 11:25-27.
Hvernig ætli það hafi verið að ferðast með trúboðunum? Hve langt kæmust þið á einum degi? Hvað þyrftirðu að hafa meðferðis og hvar mynduð þið gista á leiðinni?
Landleiðin. Á fyrstu öld voru Rómverjar búnir að byggja upp vegakerfi sem teygði sig til allra átta og tengdi saman helstu borgir heimsveldisins. Þessir vegir voru vel hannaðir og traustir, oft fjórir og hálfur metri á breidd og steinlagðir. Vegarbrúnirnar voru lagðar kantsteini og með ákveðnu millibili stóðu mílusteinar. Trúboði eins og Páll gat gengið um 30 kílómetra á dag eftir svona vegi.
Í Palestínu voru flestir vegirnir hins vegar hættulegir malarvegir eða slóðar sem lágu ógirtir með fram ökrum og giljum. Sá sem lagði upp í ferð gat átt á hættu að rekast á villidýr eða ræningja og vegurinn gat jafnvel verið tepptur.
Hvað tók ferðalangurinn með sér? Ýmislegt var nauðsynlegt eins og göngustafur sem hann gat notað sér til varnar (1), svefnvoð (2), pyngja (3), aukaskór (4), nestispoki (5), föt til skiptanna (6), samanbrotin fata úr leðri til að sækja brunnvatn (7), skinnbelgur undir vatn (8) og stór leðurtaska undir persónulega muni (9).
Trúboðarnir mættu örugglega farandkaupmönnum sem voru að flytja vörur milli markaða á svæðinu. Þessir kaupmenn reiddu sig á asnann sem var fótviss með afbrigðum og öllum dýrum fremri á bröttum og grýttum vegunum. Sagt er að sterkur asni hafi getað gengið klyfjaður allt að 80 kílómetra á dag. Uxakerrur og -vagnar fóru hægar yfir, aðeins um 8-20 kílómetra á dag. En uxar gátu borið þyngri byrðar og því voru þeir kjörnir til styttri ferða. Gangandi vegfarandi gat mætt asnaeða
úlfaldalest sem var klyfjuð vörum frá öllum heimshornum. Hraðboði þeysti kannski hjá með póst og opinberar tilskipanir til útvarðarstöðvar innan heimsveldisins.Undir kvöld tjölduðu ferðalangarnir við veginn eða náttuðu í gistihúsum fyrir lestamenn. Þessi gistihús voru með lokuðum húsagarði og litlum herbergjum án húsgagna. Þau voru skítug og óvistleg og veittu lítið skjól fyrir náttúruöflunum eða þjófum. Trúboðar gistu líklega hjá ættingjum eða trúsystkinum hvenær sem færi gafst. — Postulasagan 17:7; Rómverjabréfið 12:13.
Sjóleiðin. Bátar voru notaðir til að flytja vörur og fólk með fram strönd Miðjarðarhafs og milli staða við Galíleuvatn. (Jóhannes 6:1, 2, 16, 17, 22-24) Mörg stærri skip sigldu um Miðjarðarhaf og fluttu farm til og frá fjarlægum höfnum. Þessi skip fluttu matvæli til Rómarborgar og opinbera embættismenn og embættisskjöl milli hafna.
Á daginn sigldu sjómenn eftir kennileitum á landi en á nóttunni eftir stjörnum. Þar af leiðandi voru sjóferðir tiltölulega öruggar aðeins á þeim árstíma þegar veðurskilyrði voru með betra móti, það er að segja frá maí fram í miðjan september. Skipbrot voru tíð. — Postulasagan 27:39-44; 2. Korintubréf 11:25.
Fólk kaus ekki sjóleiðina vegna þess að hún væri þægilegri en landleiðin. Ef fólk vildi ferðast milli hafna var um fátt annað að velja en flutningaskip og þar var lítil áhersla lögð á þægindi. Farþegarnir höfðust við á þilfarinu allan sólarhringinn hvernig sem viðraði. Skjólið neðan þilja var ætlað dýrmætum varningi. Farþegarnir þurftu að hafa með sér nesti á þessum sjóferðum því að þeim var aðeins boðið upp á drykkjarvatn. Á köflum voru veður válynd. Margir urðu sjóveikir, jafnvel dögum saman, í stormum og úfnum sjó.
Þrátt fyrir erfiðleikana og óþægindin, sem fylgdu ferðalögum á sjó og landi, fluttu trúboðar eins og Páll postuli „fagnaðarerindið um ríkið“ um allan þann heim sem þá var þekktur. (Matteus 24:14) Einungis 30 árum eftir að Jesús sagði lærisveinunum að vera vottar sínir gat Páll skrifað að fagnaðarerindið hefði verið boðað „öllu sem skapað er í heiminum“. — Kólossubréfið 1:23.