,Hann ákallaði Drottin‘
Nálægðu þig Guði
,Hann ákallaði Drottin‘
„MÉR fannst ég vera svo óverðugur,“ sagði maður sem hafði lært meginreglur Guðs á barnsaldri en hætt að fylgja þeim um tíma. Þegar hann ákvað síðan að breyta um lífsstefnu óttaðist hann að Guð fyrirgæfi honum aldrei. En þessi iðrunarfulli syndari fann von í frásögu Biblíunnar um Manasse sem skráð er í 2. Kroníkubók 33:1-17. Hafi þér einhvern tíma fundist þú vera óverðugur vegna fyrri synda gæti dæmið um Manasse einnig verið hughreystandi fyrir þig.
Manasse ólst upp á trúræknu heimili. Hiskía, faðir hans, var einn af ágætustu konungum Júda. Manasse fæddist um þrem árum eftir að Guð hafði með kraftaverki lengt ævi föður hans. (2. Konungabók 20:1-11) Vafalaust hefur Hiskía litið á þennan son sem gjöf frá miskunnsömum Guði og reynt að innræta honum kærleika til hreinnar tilbeiðslu. En börn trúaðra foreldra feta ekki alltaf í fótspor þeirra. Þannig fór fyrir Manasse.
Manasse var aðeins 12 ára þegar hann missti föður sinn. Því miður „gerði [hann] það sem illt var í augum Drottins“. (Vers 1, 2) Var hinn ungi konungur undir áhrifum ráðgjafa sem báru enga virðingu fyrir sannri tilbeiðslu? Í Biblíunni segir ekkert um það. Þar kemur hins vegar fram að Manasse hafi dýrkað hjáguði og gert margt illt. Hann reisti falsguðum ölturu, fórnaði sonum sínum, stundaði andatrú og lét gera líkneski sem hann reisti í musteri Jehóva í Jerúsalem. Manasse sýndi þrjósku og neitaði hvað eftir annað að verða við viðvörunum Jehóva Guðs sem hafði með kraftaverki gert kleift að hann fæddist. — Vers 3-10.
Að lokum leyfði Jehóva að Manasse yrði fluttur í fjötrum til Babýlonar. Í útlegðinni hafði hann tækifæri til að hugleiða stöðu sína. Skildi hann núna að þessi vanmáttugu, lífvana skurðgoð höfðu ekki getað verndað hann? Hugsaði hann til þess sem trúrækinn faðir hans hafði kennt honum sem barni? Hver svo sem ástæðan var breyttist hugarfar Manasse. Í frásögunni segir: „Ákallaði hann Drottin, Guð sinn. Hann auðmýkti sig mjög frammi fyrir Guði . . . og bað til hans.“ (Vers 12, 13) En gat Guð fyrirgefið manni sem hafði drýgt svona alvarlegar syndir?
Jehóva var snortinn af djúpri iðrun Manasse. Hann heyrði bænir hans og „lét hann snúa aftur til Jerúsalem og taka við konungdómi sínum“. (Vers 13) Manasse sýndi að iðrunin væri ósvikin og gerði allt sem hann gat til að bæta fyrir ranga breytni sína. Hann lét fjarlægja framandi guði úr landinu og bauð þjóðinni „að þjóna Drottni, Guði Ísraels“. — Vers 15-17.
Ef þér finnst þú ekki verðugur þess að Guð fyrirgefi þér vegna fyrri synda skaltu láta dæmið um Manasse verða þér til hvatningar. Frásögnin er hluti af innblásnu orði Guðs. (Rómverjabréfið 15:4) Jehóva vill greinilega að við vitum að hann sé „fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) Það er ekki syndin heldur hjartalag syndarans sem skiptir hann máli. Syndari, sem biður fullur iðrunar, hverfur af rangri braut og er staðráðinn í að gera það sem er rétt, getur,ákallað Drottin‘ eins og Manasse gerði. — Jesaja 1:18; 55:6, 7.