Hver er Guð?
Kynntu Þér Orð Guðs
Hver er Guð?
Þessi grein fjallar um spurningar sem þú gætir hafa spurt þig og sýnir hvar svörin er að finna í Biblíunni. Vottar Jehóva myndu með ánægju ræða við þig um svörin.
1. Hver er Guð?
Sá sem skapaði allt er hinn sanni Guð. Í Biblíunni er hann kallaður „konungur aldanna“ sem þýðir að hann er eilífur og á sér hvorki upphaf né endi. (Opinberunarbókin 15:3) Þar sem Guð er höfundur lífsins ættum við eingöngu að tilbiðja hann. — Lestu Opinberunarbókina 4:11.
2. Hvernig er Guð?
Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð vegna þess að hann er andavera, miklu æðri lífverum jarðar. (Jóhannes 1:18; 4:24) Eiginleikar Guðs birtast í sköpunarverki hans. Þegar við skoðum hönnun og fjölbreytni blóma og ávaxta skynjum við kærleika Guðs og visku. Víðáttumikill alheimurinn ber vitni um mátt Guðs. — Lestu Rómverjabréfið 1:20.
Við getum kynnst eiginleikum Guðs enn betur þegar við lesum í Biblíunni. Þar sjáum við meðal annars hvað gleður hann og hvað honum mislíkar, hvernig hann kemur fram við fólk og hvernig hann bregst við mismunandi aðstæðum. — Lestu Sálm 103:7-10.
3. Á Guð sér nafn?
Jesús sagði: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) Þó að Guð hafi marga titla hefur hann bara eitt nafn. Framburður þess er misjafn eftir tungumálum en á íslensku er yfirleitt sagt „Jehóva“ eða „Jahve“. — Lestu 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.
Nafn Guðs hefur verið fellt niður í mörgum biblíum og í staðinn hafa verið settir titlar eins og Drottinn og Guð. En þegar Biblían var rituð kom nafnið fyrir um 7.000 sinnum í henni. Jesús kunngerði nafn Guðs með því að nota það þegar hann skýrði ritningarnar. Þannig hjálpaði hann fólki að kynnast Guði. — Lestu Jóhannes 17:26.
4. Er Jehóva annt um okkur?
Jehóva sýnir að hann hefur áhuga á okkur þar sem hann hlustar sjálfur á bænir okkar. (Sálmur 65:3) Benda þjáningar manna til þess að Guði sé sama um okkur? Sumir halda því fram að Guð reyni okkur með því að láta okkur þjást, en það er ekki rétt. Í Biblíunni stendur: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ — Jobsbók 34:10; lestu Jakobsbréfið 1:13.
Guð hefur veitt okkur þann heiður að gefa okkur frjálsan vilja. Erum við ekki þakklát fyrir að geta valið hvort við viljum þjóna Guði eða ekki? (Jósúabók 24:15) Margir velja að gera öðrum illt og valda þannig miklum þjáningum. Slíkt óréttlæti hryggir Jehóva. — Lestu 1. Mósebók 6:5, 6.
Bráðum mun Jehóva, fyrir milligöngu sonar síns, eyða allri illsku og þeim sem valda henni. Jehóva hefur gilda ástæðu fyrir því að leyfa þjáningar um tíma. Síðar í þessari greinaröð verður útskýrt hvers vegna Guð leyfir þjáningar. — Lestu Jesaja 11:4.
5. Hvers væntir Guð af okkur?
Jehóva skapaði okkur þannig að við gætum kynnst honum og lært að elska hann. Hann vill að við fáum að vita sannleikann um sig. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Við getum eignast vináttusamband við Guð með því að læra um hann í Biblíunni. — Lestu Orðskviðina 2:4, 5.
Þar sem Jehóva gaf okkur lífið ætti okkur að þykja vænna um hann en nokkurn annan. Við getum sýnt að við elskum Guð með því að leita til hans í bæn og gera það sem hann væntir af okkur. (Orðskviðirnir 15:8) Jehóva vill að við komum fram við aðra af kærleika. — Lestu Markús 12:29, 30; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Nánari upplýsingar er að finna í 1. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem er gefin út af Vottum Jehóva.
[Mynd á bls. 17]
Gæti verið gild ástæða fyrir því að leyfa þjáningar um tíma?