Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Var Edengarðurinn til?

Var Edengarðurinn til?

Var Edengarðurinn til?

KANNASTU við söguna af Adam, Evu og Edengarðinum? Hún er þekkt um allan heim. Hvernig væri að lesa frásöguna sem er að finna í 1. Mósebók 1:26–3:24? Sagan er í stuttu máli svona:

Jehóva Guð * myndar mann af moldinni, gefur honum nafnið Adam og setur hann í aldingarð á svæði sem kallað er Eden. Guð plantaði þennan garð sjálfur. Garðurinn er gróðursæll með fjölda fallegra ávaxtatrjáa. Í miðjum aldingarðinum stendur ,skilningstréð góðs og ills‘. Guð bannar manninum að borða af þessu tré og segir að brot á því banni leiði til dauða. Síðar gefur Jehóva Adam félaga, konuna Evu, sem hann myndar af rifi úr honum. Guð gefur þeim það verkefni að hugsa um garðinn og segir þeim að fjölga sér og fylla jörðina.

Höggormur talar við Evu þegar hún er ein á ferð og freistar hennar að borða forboðna ávöxtinn. Hann segir henni að Guð hafi logið og sé í rauninni að halda einhverju góðu frá henni sem muni gera hana eins og Guð. Hún lætur freistast og borðar af ávextinum. Síðar ákveður Adam að óhlýðnast Guði líka. Jehóva kveður upp dóm yfir Adam, Evu og höggorminum. Eftir að Adam og Eva eru rekin úr paradísargarðinum varna englar mönnum inngöngu í hann.

Áður var algengt meðal fræðimanna, sagnfræðinga og annarra menntamanna að reyna að sýna fram á að þeir atburðir, sem sagt er frá í 1. Mósebók, væru söguleg staðreynd. Núna er frekar í tísku að efast um öll svona mál. En á hvaða rökum eru efasemdir um frásögn 1. Mósebókar af Adam, Evu og Edengarðinum byggðar? Skoðum fernt sem algengt er að efasemdamenn nefni.

1. Var Edengarðurinn raunverulegur staður?

Hvers vegna efast menn um að Edengarðurinn hafi verið til? Heimspekin kann að hafa átt sinn þátt í því. Um aldir hugsuðu guðfræðingar að Edengarðurinn væri enn þá til einhvers staðar. En grískir heimspekingar á borð við Platón og Aristóteles höfðu áhrif á kirkjuna. Þeir héldu því fram að ekkert hér á jörð gæti verið fullkomið. Fullkomleiki tilheyrði himninum einum. Guðfræðingar ályktuðu því sem svo að paradísin hlyti að hafa verið nær himnum. * Sumir héldu því fram að Edengarðurinn væri staðsettur uppi á fjalli sem væri svo hátt að spillt jörðin næði ekki að hafa áhrif á hann. Aðrir sögðu að Edengarðurinn væri á norðurskauti jarðar eða suðurskautinu. Og enn aðrir héldu að hann væri á tunglinu eða í námunda við það. Það er því ekkert skrýtið að hugmyndin um Edengarðinn fengi á sig goðsagnakenndan blæ. Sumir fræðimenn nú á tímum vísa þeirri hugmynd á bug að hægt sé að staðsetja Edengarðinn í raunveruleikanum og segja að hann hafi aldrei verið til.

Þetta er hins vegar ekki sú mynd sem Biblían dregur upp af Edengarðinum. Í 1. Mósebók 2:8-14 er að finna nokkuð ýtarlegar upplýsingar um garðinn. Hann var staðsettur í austurhluta svæðis sem kallað var Eden. Um hann rann fljót sem kvíslaðist í fjórar ár. Hver og ein þeirra er nafngreind og stuttlega er skýrt frá því hvernig þær runnu. Þessar upplýsingar hafa löngum valdið fræðimönnum heilabrotum og margir hafa grandskoðað frásögn Biblíunnar í leit að vísbendingum um hvar á jörðinni þessi lystigarður var. En þeir hafa komist að mörgum ólíkum niðurstöðum. Er þá lýsingin á Eden, paradísargarðinum og ánum þar bara goðsögn eða uppspuni?

Hugsaðu um þetta: Atburðirnir í sögunni af Edengarðinum áttu sér stað fyrir einum 6.000 árum. Móse hefur líklega stuðst við munnlegar heimildir eða jafnvel ritaðar þegar hann skráði söguna. En það voru samt liðin um 2.500 ár frá atburðunum, þannig að sagan af Edengarðinum var þegar orðin fornsaga. Kennileiti eins og ár eiga það til að breytast í aldanna rás. Yfirborð jarðar er á stöðugri hreyfingu og landsvæðið, þar sem Eden var að öllum líkindum, er á þekktu jarðskjálftabelti. Um 17 prósent af stærstu jarðskjálftum heims hafa átt upptök sín á því belti. Á slíkum svæðum eru breytingar á landslagi frekar regla en undantekning. Þar að auki getur Nóaflóðið hafa breytt landslaginu á ýmsa vegu sem við getum engan veginn gert okkur grein fyrir. *

Nokkrar staðreyndir erum við þó með á hreinu: Í frásögu 1. Mósebókar er talað um Edengarðinn sem raunverulegan stað. Tvær af ánum fjórum, sem nefndar eru í frásögunni, Efrat og Tígris, eru til enn þann dag í dag. Og mjög stutt er á milli sumra þveránna sem renna í þær. Frásagan nefnir jafnvel löndin sem Efrat og Tígris runnu um og tilgreinir auðlindir sem eru vel þekktar á þeim svæðum. Þessar upplýsingar voru gagnlegar þeim sem lásu frásöguna á sínum tíma í forn Ísrael.

Svona nákvæmar lýsingar eru ekki einkennandi fyrir goðsagnir og ævintýri. Þau eru þekktari fyrir að sleppa smáatriðum sem auðvelt væri að sanna eða afsanna. „Einu sinni var . . . í fjarlægu landi“, er dæmigerð byrjun á ævintýri. Sögulegar frásagnir nefna hins vegar oft smáatriði sem tengjast atburðunum, rétt eins og gert er í frásögunni af Edengarðinum.

2. Er trúlegt að Guð hafi myndað manninn af moldu og Evu af rifi úr Adam?

Vísindamenn hafa sýnt fram á að mannslíkaminn er gerður úr allmörgum frumefnum, meðal annars vetni, súrefni og kolefni. Öll þessi frumefni er að finna í jarðveginum. En hvernig varð til lifandi vera úr þeim?

Margir vísindamenn vilja meina að lífið hafi orðið til af sjálfu sér, með mjög einföldum sameindum í byrjun sem hafi smátt og smátt, á milljónum ára, orðið flóknari að byggingu. En hugtakið „einfalt“ er villandi því að allar lífverur, jafnvel örsmáir einfrumungar, eru ótrúlega flóknar að gerð. Engin sönnun er fyrir því að líf hafi nokkurn tíma orðið til fyrir tilviljun eða að það geti gerst. Öllu heldur ber allt líf augljóst vitni um vitran hönnuð sem skarar langt fram úr okkur. * — Rómverjabréfið 1:20.

Hugsaðu þér að þú hlustir á mikilfenglegt tónverk eða dáist að fallegu málverki eða stórkostlegu tækniafreki. Gætirðu síðan haldið því fram að enginn stæði á bak við þessi verk? Auðvitað ekki. En slík meistaraverk komast ekki í námunda við þá snilldarhönnun sem mannslíkaminn er í öllum sínum margbreytileika og fegurð. Er rökrétt að hugsa að enginn skapari standi á bak við hann? Frásaga 1. Mósebókar greinir líka frá því að maðurinn hafi verið eina lífveran sem var gerð í Guðs mynd. (1. Mósebók 1:26) Maðurinn er líka eina lífveran sem endurspeglar sköpunargleði Guðs og býr stundum til áhrifarík tónverk og listaverk eða merkileg tæki. Ætti það nokkuð að koma okkur á óvart að Guð skuli vera færari skapari en við?

Og var í rauninni svo flókið fyrir Guð að skapa konuna af rifbeini úr manninum? * Hann hefði getað notað aðrar aðferðir til þess en það hafði fallega og táknræna merkingu að skapa konuna á þennan hátt. Hann vildi að maðurinn og konan yrðu hjón og myndu tengjast nánum böndum eða „verða eitt“. (1. Mósebók 2:24) Er það ekki merki um kærleiksríkan og vitran skapara hvernig maður og kona geta bundist hvort öðru sterkum kærleiksböndum og þannig fullkomnað hvort annað?

Erfðafræðingar hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að mannkynið hafi líklega allt komið af sama parinu. Er þá frásaga 1. Mósebókar svo fjarstæðukennd þegar öllu er á botninn hvolft?

3. Sagan af skilningstrénu og lífsins tré hljómar eins og goðsögn.

Í frásögu 1. Mósebókar er því ekki haldið fram að þessi ákveðnu tré hafi verið gædd yfirnáttúrulegum mætti. Þetta voru bara venjuleg tré sem Jehóva gaf táknræna merkingu.

Gerum við mennirnir ekki eitthvað svipað? Til dæmis getur dómsvaldið ákært mann fyrir að vanvirða dómstólinn. Þá er ekki átt við vanvirðingu við stólinn sjálfan, sem dómarinn situr á, heldur stofnunina sem fer með dómsvaldið. Það er valdið sem ber að virða. Konungar og höfðingjar hafa sömuleiðis notað veldissprota eða kórónu sem tákn fyrir valdið sem þeir fara með.

Hvaða táknræna merkingu höfðu þessi tvö tré? Margar flóknar kenningar hafa verið settar fram. Svarið er í rauninni einfalt þó að merkingin sé djúptæk. Skilningstréð góðs og ills stendur fyrir vald sem Guð einn á — réttinn til að ákveða hvað sé gott og hvað illt. (Jeremía 10:23) Það er því engin furða að það skyldi teljast glæpur að stela af því. Lífsins tré merkti hins vegar gjöf sem enginn nema Guð getur veitt, það er að segja eilíft líf. — Rómverjabréfið 6:23.

4. Höggormur sem talar á frekar heima í ævintýrum.

Að vísu getur þetta verið illskiljanlegt, sérstaklega ef við tökum ekki alla Biblíuna með í reikninginn. En Biblían leysir þessa ráðgátu smátt og smátt.

Hver eða hvað lét líta út fyrir að höggormurinn talaði? Ísraelsmenn til forna bjuggu yfir vitneskju sem varpaði ljósi á hlutverk höggormsins. Þeir vissu auðvitað að dýr tala ekki en gerðu sér grein fyrir að andaverur geta látið líta út fyrir að dýr tali. Móse skrifaði líka frásöguna af Bíleam en þar segir frá því hvernig Guð sendi engil til að láta ösnu Bíleams tala. — 4. Mósebók 22:26-31; 2. Pétursbréf 2:15, 16.

Geta aðrar andaverur gert kraftaverk, þar á meðal andaverur sem eru Guði andsnúnar? Móse hafði séð spápresta Egyptalands herma eftir sumum kraftaverkum sem Guð gerði. Eitt þeirra var að láta staf breytast í eiturslöngu. Krafturinn til að framkvæma slíkt gat aðeins komið frá óvinum Guðs á andlega tilverusviðinu. — 2. Mósebók 7:8-12.

Móse skrifaði einnig Jobsbók. Þessi innblásna bók Biblíunnar segir okkur margt um Satan, erkióvin Guðs, sem með lygum dró í efa trúfesti allra þjóna Jehóva. (Jobsbók 1:6-11; 2:4, 5) Drógu Ísraelsmenn til forna þá ályktun að Satan hafi látið höggorminn tala við Evu í Edengarðinum til að blekkja hana svo að hún léti af trúfesti sinni við Guð? Já, það er mjög líklegt.

Stóð Satan á bak við höggorminn? Jesús sagði síðar að Satan væri „lygari og lyginnar faðir“. (Jóhannes 8:44) „Lyginnar faðir“ hlýtur að eiga við fyrsta lygarann í sögunni. Fyrstu lygina er að finna í orðum höggormsins við Evu. Orð hans gengu algerlega í berhögg við viðvörun Guðs við því að borða forboðna ávöxtinn. Guð hafði sagt að þau myndu deyja en Satan sagði: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ (1. Mósebók 3:4) Jesús vissi greinilega að það var Satan sem stjórnaði höggorminum. Opinberunin, sem Jesús gaf Jóhannesi postula, staðfestir þetta þar sem hann kallar Satan ,hinn gamla höggorm‘. — Opinberunarbókin 1:1; 12:9.

Er fjarstæðukennt að trúa því að máttug andavera gæti stjórnað höggormi og látið hann tala? Þó að menn séu ekki næstum eins máttugir og andaverur geta þeir notað búktal á sannfærandi hátt og gert ótrúlegustu tæknibrellur.

Sterkustu rökin

Finnst þér ekki efasemdirnar um frásögu 1. Mósebókar frekar haldlitlar? Hins vegar eru sterk rök fyrir því að hún sé sannsöguleg.

Jesús Kristur er kallaður „votturinn trúi og sanni“. (Opinberunarbókin 3:14) Hann var fullkominn og laug aldrei né fór frjálslega með sannleikann á nokkurn hátt. Þar að auki sagðist hann hafa verið til löngu áður en hann kom til jarðar. Hann hafði verið með föður sínum, Jehóva Guði, á himnum „áður en heimur var til“. (Jóhannes 17:5) Hann var vitni að því þegar lífið á jörðinni hófst. Hvað sagði þessi áreiðanlegi vottur um frásögu 1. Mósebókar?

Jesús talaði um Adam og Evu sem sannsögulegar persónur. Hann vísaði í hjónaband þeirra þegar hann útskýrði mælikvarða Guðs um einkvæni. (Matteus 19:3-6) Ef þau voru aldrei til og Edengarðurinn var bara goðsögn hafði Jesús annað hvort látið blekkjast eða hann var að ljúga. Hvorugt er rökrétt. Jesús var á himnum og varð vitni að syndafallinu. Sterkari rök er varla hægt að finna fyrir sannleiksgildi frásögunnar af Edengarðinum.

Ef maður trúir ekki frásögu 1. Mósebókar hefur maður í rauninni grafið undan trú á Jesú. Þá er ekki heldur hægt að skilja helstu grundvallarkenningar Biblíunnar eða þau loforð hennar sem gefa mesta hughreystingu. Skoðum ástæðurnar fyrir því.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Guð heitir Jehóva samkvæmt Biblíunni.

^ gr. 7 Þessi hugmynd á sér ekki stoð í Biblíunni. Hún kennir að öll verk Guðs séu fullkomin og að spillingin komi annars staðar frá. (5. Mósebók 32:4, 5) Þegar Jehóva lauk sköpun sinni hér á jörð lýsti hann yfir að allt sköpunarverkið væri „harla gott“. — 1. Mósebók 1:31.

^ gr. 9 Flóðið hefur augljóslega þurrkað út öll ummerki um Edengarðinn sjálfan. Í Esekíel 31:18 er gefið í skyn að ,Edenstrén‘ hafi löngu verið horfin á sjöundu öld f.Kr., enda hefur engin leit að Edengarðinum á síðari tímum borið árangur.

^ gr. 14 Sjá bæklinginn The Origin of Life — Five Questions Worth Asking. Hann er gefinn út af Vottum Jehóva.

^ gr. 16 Athygli vekur að læknavísindin hafa komist að raun um að rifbein hafa sérstaka hæfileika til að gróa. Ólíkt öðrum beinum geta þau vaxið aftur ef beinhimnan, sem umlykur beinvefinn, er heil.