Er Gehenna staður þar sem fólk kvelst í eldi eftir dauðann?
Lesendur spyrja . . .
Er Gehenna staður þar sem fólk kvelst í eldi eftir dauðann?
▪ Í guðspjöllunum segir frá því að Jesús hafi bent lærisveinunum á að hægt væri að hljóta þann dóm að lenda í Gehenna. Jesús ætlaðist greinilega til þess að orð hans væru tekin alvarlega. En var hann að tala um eilífar kvalir í logum helvítis? — Matteus 5:22, Biblían 1912, neðanmáls.
Lítum fyrst á orðið sjálft. Gríska orðið Geʹenna samsvarar hebreska orðinu geh Hinnomʹ („Hinnomsdalur“) eða geh veneh-Hinnomʹ („Hinnomssonardalur“). (Jósúabók 15:8; 2. Konungabók 23:10) Um er að ræða djúpan og þröngan dal suður og suðvestur af Jerúsalem. Hann gengur nú undir heitinu Wadi er-Rababi.
Á dögum Júdakonunga, allt frá áttundu öld f.Kr., voru stundaðar heiðnar helgiathafnir í dalnum. Þar á meðal voru börn brennd í eldi í fórnarskyni. (2. Kroníkubók 28:1-3; 33:1-6) Jeremía spámaður boðaði að Jehóva myndi refsa Júdamönnum fyrir illsku þeirra með því að láta Babýloníumenn fella þá í dalnum. * — Jeremía 7:30-33; 19:6, 7.
Gyðingurinn og fræðimaðurinn David Kimhi (um 1160- 1235) segir að dalurinn hafi síðar verið gerður að sorphaugi Jerúsalemborgar. Eldi var haldið logandi þar til að brenna sorpið. Það sem fór þangað eyddist og varð að ösku.
Margir biblíuþýðendur hafa leyft sér að þýða Geʹenna sem ,eldsvíti‘ eða ,helvíti‘. (Matteus 5:22, 30) Af hverju? Af því að þeir setja hina heiðnu hugmynd um að óguðlegir kveljist í vítislogum eftir dauðann í samband við bókstaflegan eldinn sem brann í dalnum utan við múra Jerúsalem. Jesús tengdi Gehenna hins vegar aldrei við kvalir.
Jesús vissi að það væri fráleit hugmynd að Jehóva, faðir hans á himnum, brenndi fólk lifandi. Jehóva sagði sjálfur um barnafórnirnar sem fram fóru í Gehenna á dögum Jeremía spámanns: „Þeir hafa reist Tófetfórnarhæðir í Hinnomssonardal til þess að brenna syni sína og dætur í eldi. Það hef ég hvorki boðið né heldur komið það í hug.“ (Jeremía 7:31) Sú hugmynd að kvelja fólk eftir dauðann gengur algerlega í berhögg við kærleika Guðs. Auk þess stendur skýrum stöfum í Biblíunni að ,hinir dauðu viti ekki neitt‘. — Prédikarinn 9:5, 10.
Jesús notaði orðið Gehenna til að tákna endanlega tortímingu sem dóm af hendi Guðs. Það hefur því áþekka merkingu og „eldsdíkið“ sem nefnt er í Opinberunarbókinni. Hvort tveggja táknar eilífa útrýmingu án möguleika á upprisu. — Lúkas 12:4, 5; Opinberunarbókin 20:14, 15.
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Um þennan spádóm segir í New Catholic Encyclopedia: „Við eyðingu Jerúsalem yrðu svo margir af íbúunum felldir að líkum þeirra yrði hent niður í dalinn til að rotna þar eða brenna.“