Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma“

„Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma“

„Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma“

„GUÐ er kærleikur.“ Sums staðar í heiminum rammar fólk þessi orð inn og hengir upp á vegg hjá sér. Þessi fallegu orð lýsa Guði vel en hann er persónugervingur kærleikans.

Margir vita reyndar ekki að þessi orð er að finna í Biblíunni. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Jóhannes skrifaði líka um kærleika Guðs til mannanna: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ – Jóhannes 3:16.

Sumir halda ef til vill að þetta merki að Guð sé alltaf fús til að líta fram hjá því ranga sem við gerum. Eins og sjá má af líferni fólks halda margir að það skipti engu máli hvernig þeir haga sér því að Guð geri þá ekki ábyrga gerða sinna. En er það rétt? Elskar Guð alla, jafnt góða sem vonda? Hatar Guð yfirleitt nokkurn tíma?

Kærleikur Guðs og hatur

Salómon konungur, sem var þekktur fyrir visku sína, sagði: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma . . . Að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 8) Þessi meginregla gefur til kynna að enda þótt Guð sé mjög kærleiksríkur og góður þá kemur það fyrir af og til hann hati.

Byrjum á því að athuga hvað orðið „hatur“ merkir eins og það er notað í Biblíunni. Í uppsláttarriti nokkru segir: „Það er blæbrigðamunur á því hvernig orðið ,hatur‘ er notað í Biblíunni. Það getur merkt ákafan og langvarandi fjandskap sem er oft samfara meinfýsi. Slíkar tilfinningar geta orðið svo sterkar að fólk reyni að gera þeim mein sem það hatar.“ Þetta er sú merking sem við þekkjum best og afleiðingar þess konar haturs sjást alls staðar í heiminum. En þetta sama uppsláttarrit heldur áfram: „Orðið ,hatur‘ getur líka falið í sér megna andúð en þó án þess að nokkur ásetningur fylgi um að gera öðrum mein.“

Við fjöllum um seinni merkinguna í þessari grein, það er að segja megna óbeit eða andstyggð, en þó hvorki meinfýsi né illgirni eða löngun til að gera öðrum mein. Er hatur Guðs þannig? Lítum á það sem segir í Orðskviðunum 6:16-19: „Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð: hrokafullt augnaráð, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar fjörráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem sver meinsæri og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.“

Af þessu má sjá að Guð hatar ákveðin verk. En hann hatar ekki endilega einstaklinginn sem framkvæmir þessi verk. Hann tekur tillit til aðstæðna svo sem veikleika holdsins, umhverfis, uppeldis og vanþekkingar viðkomandi. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12) Ritari Orðskviðanna notar gott dæmi sem útskýrir þetta: „Drottinn agar þann sem hann elskar og lætur þann son finna til sem hann hefur mætur á.“ (Orðskviðirnir 3:12) Þótt foreldrar hafi andúð á einhverju sem óhlýðið barn hefur gert þykir þeim engu að síður vænt um barnið sitt. Foreldrarnir aga barnið og reyna þannig eftir fremsta megni að hjálpa því að hætta rangri hegðun. Í kærleika sínum hefur Jehóva sama háttinn á þegar von er um að bjarga einstaklingi sem hefur syndgað.

Hvenær á hatur rétt á sér?

Hvað gerist þegar einhver hefur öðlast þekkingu á vilja Guðs en neitar að fara eftir því sem hann hefur lært? Hann ávinnur sér ekki kærleika Guðs heldur bakar sér vanþóknun hans. Með því að leggja viljandi stund á það sem Guð hatar kallar hann yfir sig hatur hans. Til dæmis segir í Biblíunni: „Drottinn reynir réttlátan og ranglátan, hann hatar þann sem elskar ofríki.“ (Sálmur 11:5) Iðrunarlaus maður fær ekki fyrirgefningu eins og Páll postuli útskýrir svo vel í bréfi sínu til Hebrea: „Ef við syndgum af ásettu ráði, eftir að hafa öðlast þekkingu á sannleikanum, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar heldur er það óttaleg bið eftir dómi og heitum eldi sem eyða mun andstæðingum Guðs.“ (Hebreabréfið 10:26, 27) Hvers vegna tekur kærleiksríkur Guð þessa afstöðu?

Þegar einhver drýgir alvarlega synd af ásettu ráði getur hann orðið svo illskufullur að það er enginn leið að uppræta illskuna. Hann getur orðið siðspilltur, forhertur og óforbetranlegur. Í Biblíunni er slíkum einstaklingi líkt við pardusdýr sem getur ekki breytt blettum sínum. (Jeremía 13:23) Syndari, sem iðrast einskis, gerir sig sekan um „eilífa synd“ eins og það kallast í Biblíunni. Fyrir slíka synd er enga fyrirgefningu að fá. – Markús 3:29.

Þannig var ástatt fyrir Adam og Evu og sömuleiðis Júdasi Ískaríot. Þar sem Adam og Eva voru sköpuð fullkomin og skildu bæði tvö skýr fyrirmæli Guðs er ljóst að þau syndguðu viljandi og af ásettu ráði. Þess vegna var synd þeirra ófyrirgefanleg. Það sem Guð sagði við þau eftir að þau syndguðu sýnir að þau áttu þess ekki kost að iðrast. (1. Mósebók 3:16-24) Þótt Júdas hafi verið ófullkominn starfaði hann náið með sjálfum syni Guðs. Samt sem áður gerðist hann svikari. Jesús kallaði hann ,son glötunarinnar‘. (Jóhannes 17:12) Það kemur einnig fram í Biblíunni að Satan djöfullinn sé forfallinn syndari og að hans bíði ekkert annað en tortíming. (1. Jóhannesarbréf 3:8; Opinberunarbókin 12:12) Þessir einstaklingar hafa kallað yfir sig hatur Guðs.

Það er hins vegar gott til þess að vita að það eru ekki allir óforbetranlegir sem hafa syndgað. Jehóva er mjög þolinmóður og hann hefur enga ánægju af því að refsa þeim sem hafa syndgað vegna vanþekkingar. (Esekíel 33:11) Hann hvetur þá til að iðrast og fá fyrirgefningu. Við lesum: „Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum, til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.“ – Jesaja 55:7.

Sjáum kærleika og hatur í réttu ljósi

Ljóst er að sannkristnir menn, sem líkja eftir Guði, þurfa að vita hvenær er við hæfi að elska og hvenær að hata. Tilfinningasemi getur valdið því að við sjáum það ekki í réttu ljósi. Orð lærisveinsins Júdasar geta hjálpað okkur að bera skyn á hvenær á að sýna miskunn og hvenær á að hata synd. Hann sagði: „Sýnið sumum óttablandna mildi og forðist jafnvel klæði þeirra sem flekkuð eru af synd.“ (Júdasarbréf 22, 23) Við skulum því hata það sem illt er en ekki einstaklinginn sem aðhefst hið illa.

Kristnum mönnum er líka sagt að sýna óvinum sínum kærleika með því að gera þeim gott. Jesús sagði: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:44) Þess vegna boða vottar Jehóva nágrönnum sínum aftur og aftur fagnaðarerindið um Guðs ríki, jafnvel þótt sumir taki ekki á móti boðskapnum. (Matteus 24:14) Vottarnir líta á málið frá sjónarhóli Biblíunnar og í þeirra huga á hver einasti einstaklingur möguleika á að njóta kærleika og miskunnar Jehóva. Þegar fólk kann ekki að meta starf votta Jehóva, vísar þeim frá eða ofsækir þá jafnvel fara þeir eftir leiðbeiningum Páls postula: „Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki . . . Gjaldið engum illt fyrir illt.“ (Rómverjabréfið 12:14, 17) Þeir hafa hugfast að Jehóva ákveður hverjir verskuldi kærleika hans og hverjir hatur. Það er hann sem kveður upp lokadóminn varðandi líf og dauða. – Hebreabréfið 10:30.

Já, „Guð er kærleikur“. Við ættum að sýna að við kunnum að meta kærleika hans og komast að því hver vilji hans er og breyta síðan samkvæmt honum. Vottar Jehóva í þinni heimabyggð munu með ánægju hjálpa þér að nota þína eigin biblíu til að kynnast vilja Guðs og lifa í samræmi við hann. Þannig geturðu umflúið hatur Guðs og notið kærleika hans.

[Innskot á bls. 29]

„Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð: hrokafullt augnaráð, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar fjörráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvottur sem sver meinsæri og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 6:16-19.

[Innskot á bls. 30]

„Ef við syndgum af ásettu ráði, eftir að hafa öðlast þekkingu á sannleikanum, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar heldur er það óttaleg bið eftir dómi.“ – HEBREABRÉFIÐ 10:26, 27.

[Innskot á bls. 31]

„Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum . . . því að hann fyrirgefur ríkulega.“ – JESAJA 55:7.

[Mynd á bls. 30]

Kærleiksríkir foreldrar aga börnin sín til að hjálpa þeim.

[Mynd á bls. 31]

Margir fangar hafa notið góðs af kærleika og miskunn Guðs.