Hvernig eru lög Guðs okkur til góðs?
Kynntu þér orð Guðs
Hvernig eru lög Guðs okkur til góðs?
Í þessari grein er varpað fram spurningum sem þú gætir hafa velt fyrir þér og bent á hvar þú getur fundið svörin í Biblíunni. Vottar Jehóva hefðu ánægju af að ræða við þig um þessi svör.
1. Af hverju ættum við að hlýða Guði?
Það er rétt að hlýða Guði vegna þess að hann skapaði okkur. Jesús hlýddi alltaf Guði. (Jóhannes 6:38; Opinberunarbókin 4:11) Lög Guðs gefa okkur tækifæri til að sýna að við elskum hann. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Öll lög Jehóva Guðs eru okkur til góðs. Þau kenna okkur hver sé besta lífsstefnan núna og sýna hvernig við getum fengið eilífa umbun í framtíðinni. – Lestu Sálm 19:8, 12; Jesaja 48:17, 18.
2. Hvernig stuðla lög Guðs að góðri heilsu?
Lög Guðs gegn ofdrykkju vernda okkur fyrir banvænum sjúkdómum og slysum. Ofdrykkja er ávanabindandi og leiðir til óviturlegrar hegðunar. (Orðskviðirnir 23:20, 29, 30) Jehóva leyfir notkun áfengis en aðeins í hófi. – Lestu Sálm 104:15; 1. Korintubréf 6:10.
Jehóva varar einnig við öfund, stjórnlausri reiði og annarri skaðlegri hegðun. Það er okkur til heilsubótar að fara eftir ráðum hans. – Lestu Orðskviðina 14:30; 22:24, 25.
3. Hvernig geta lög Guðs verndað okkur?
Í lögum Guðs er kynlíf utan hjónabands bannað. (Hebreabréfið 13:4) Hjón, sem fylgja þessum lögum, finna til öryggiskenndar og skapa börnunum betra umhverfi. Kynlíf utan hjónabands getur aftur á móti valdið sjúkdómum, ofbeldi og tilfinningalegu áfalli. Oft skilja hjón í kjölfarið og börnin líða fyrir það. – Lestu Orðskviðina 5:1-9.
Við eigum vináttu Guðs ef við forðumst aðstæður sem gætu freistað okkar til að hafa kynmök utan hjónabands. Og við sköðum þá ekki aðra. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:3-6.
4. Hvernig er það okkur til góðs að bera virðingu fyrir lífinu?
Lífið er gjöf frá Guði og þeir sem virða það bæta heilsuna þegar þeir hætta að nota tóbak og önnur skaðleg vanabindandi efni. (2. Korintubréf 7:1) Fóstur í móðurkviði er dýrmætt í augum Guðs. (2. Mósebók 21:22, 23) Við ættum því ekki að deyða ófætt barn af ásettu ráði. Þeir sem virða skoðun Guðs á lífinu gæta fyllsta öryggis á vinnustaðnum, heimilinu og í umferðinni. (5. Mósebók 22:8) Þeir stunda ekki áhættuíþróttir því að lífið er gjöf frá Guði. – Lestu Sálm 36:10.
5. Hvernig er það okkur til góðs að blóðið skuli vera heilagt?
Blóð er heilagt því að Guð segir að það tákni líf sköpunarverunnar. (1. Mósebók 9:3, 4) Samkvæmt lögum Guðs er líf og blóð lagt að jöfnu og á grundvelli þessara laga gefur Guð okkur kost á fyrirgefningu synda. – Lestu 3. Mósebók 17:11-13; Hebreabréfið 9:22.
Guð sendi son sinn til jarðar til að kaupa okkur með blóði sínu. Blóð Jesú var sérstaklega dýrmætt því að hann var fullkominn. Jesús færði Guði andvirði lífs síns, það er að segja blóð sitt. (Hebreabréfið 9:12) Úthellt blóð hans gerir það að verkum að við getum hlotið eilíft líf. – Lestu Matteus 26:28; Jóhannes 3:16.
Nánari upplýsingar er að finna í 12. og 13. kafla þessarar bókar, Hvað kennir biblían?, sem gefin er út af Vottum Jehóva.