Hvers vegna er svona mikið um náttúruhamfarir?
NÁTTÚRUHAMFARIR virðast vera mjög oft í fréttum. Fleira fólk en nokkru sinni fyrr lendir í ýmiss konar hörmungum. Rannsóknarmiðstöð í Belgíu, sem sérhæfir sig í að rannsaka tíðni og dreifingu náttúruhamfara, skýrir frá að einungis á árinu 2010 hafi 373 hamfarir átt sér stað og leitt til dauða að minnsta kosti 296.000 manns.
Samkvæmt skýrslum hefur náttúruhamförum einnig fjölgað greinilega undanfarna áratugi. Til dæmis voru á árunum 1975 til 1999 skráðar innan við 300 hamfarir á ári. En á árabilinu 2000 til 2010 nálgaðist meðaltalið 400 á ári. Ef til vill ert þú í hópi þeirra sem velta því fyrir sér hvers vegna það er svona mikið um náttúruhamfarir núna.
Þótt fólk kenni Guði oft um náttúruhamfarir er hann alls ekki valdur að þeim hörmungum sem snerta fjölda manns nú á dögum. Því var engu að síður spáð fyrir í Biblíunni að miklar hörmungar myndu dynja yfir á okkar dögum. Við getum til dæmis lesið orð Jesú í Matteusi 24:7, 8: „Þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ Hvers vegna sagði Jesús fyrir um þessa atburði og hvaða þýðingu hafa þeir fyrir okkur?
Jesús, sonur Guðs, var að svara spurningu sem hafði verið lögð fyrir hann: „Hvernig sjáum við að . . . veröldin [er] að líða undir lok?“ (Matteus 24:3) Hann nefndi ýmislegt sem myndi gerast, þar á meðal fyrrnefndar hörmungar. Síðan gaf hann þýðingarmiklar upplýsingar. Hann sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ (Lúkas 21:31) Þar af leiðandi eru náttúruhamfarir nú á dögum merki um að tímar mikilla breytinga séu rétt fram undan.
Öflin að baki hörmungunum
Margir spyrja sig samt að því hver eða hvað standi á bak við þessar hamfarir ef Guð gerir það ekki? Við getum ekki skilið svarið nema við viðurkennum mikilvægan sannleika. Í Biblíunni segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þetta vers sýnir að Guð veldur ekki hörmungunum í heiminum heldur er það oft óvinur hans, hinn vondi, sem er einnig kallaður „djöfull“ í Biblíunni. – Opinberunarbókin 12:9, 12.
Þessi óvinur Guðs lætur stjórnast af eigingjörnum markmiðum og telur mannslíf einskis virði. Þar sem hann hefur allan heiminn á valdi sínu hefur hann ýtt undir þetta sama hugarfar hjá mönnum. Það er einmitt bent á þetta í Biblíunni og sagt fyrir að „á síðustu dögum“ verði mennirnir „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) Því kemur ekki á óvart að djöfullinn hafi skapað hnattrænt kerfi sem þrífst á þessum og öðrum óguðlegum eiginleikum. Hann ýtir undir eigingirni og misnotkun í hagnaðarskyni, en slíkt skapar oft aðstæður sem kalla hörmungar yfir fólk.
Á hvaða hátt stuðlar græðgin í samfélagi nútímans að náttúruhamförum? Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum um hamfarir á heimsvísu segir: „Oft eru varhugaverð landssvæði allt of þéttbýl, til dæmis þar sem hætta er á flóðum. Auk þess dregur eyðing skóga og votlendis úr getu náttúrunnar til að standa af sér ýmsar ógnir. Yfir öllu þessi vofir svo hættan á hnattrænni loftslagsbreytingu og hækkandi sjávarmáli vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda . . . af mannavöldum.“ Þótt sagt sé að ýmsar framkvæmdir manna eigi að stuðla að efnahagslegum framförum þá býr eigingirni og græðgi, sem gegnsýrir heiminn, oftast að baki.
Af þessum sökum hafa margir sérfræðingar nú viðurkennt að óábyrgar framkvæmdir manna valdi því að áhrif náttúruhamfara verði átakanlegri en ella. Sannleikurinn er sá að menn hafa óafvitandi gengið Satan djöflinum á hönd með því að styðja skipulag sem gerir afleiðingar hamfara enn alvarlegri.
Af þessu má sjá að ýmsar hörmungar stafa af skeytingarlausum framkvæmdum manna. Sumar náttúruhamfarir hafa meiri eyðileggingu í för með sér einmitt vegna þess hvar þær eiga sér stað. Oft hafa lævísar gerðir samviskulausra manna orðið til þess að magna tjónið af völdum náttúruhamfara. Auk þess hefur gífurlegur fjöldi fólks neyðst til að búa á hættusvæðum vegna þess efnahagslega og félagslega ójafnaðar sem ríkir víða í heiminum. Vitaskuld hafa sumir mátt þola þjáningar af völdum náttúruhamfara, sem hvorki má kenna neinum sérstökum um né rekja til vanrækslu, því að „tími og tilviljun hittir . . . alla fyrir“. – Prédikarinn 9:11.
Hvernig er best að bregðast við ef maður verður af einhverjum ástæðum fórnarlamb náttúruhamfara? Við skulum nú kanna hvað hægt er að gera til að draga úr skaðanum þegar slíkar hörmungar dynja yfir.