Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Litun og vefnaður á biblíutímanum

Litun og vefnaður á biblíutímanum

Litun og vefnaður á biblíutímanum

Í BIBLÍUNNI er oft getið um vefnað, liti og fatastíl sem var algengur hjá fólki sem var uppi fyrir mörgum öldum.

Biblían er auðvitað ekki fræðibók um tískustrauma og klæðnað. Þær upplýsingar, sem fylgja frásögum hennar, geta hins vegar gætt atburðina lífi í huga lesandans.

Tökum sem dæmi skýlurnar sem sagt er frá að Adam og Eva hafi gert sér til að hylja nekt sína. Þetta voru mittisskýlur sem þau saumuðu úr fíkjuviðarblöðum. Síðar gerði Guð endingarbetri föt handa þeim og lét þau klæðast skinnkyrtlum. – 1. Mósebók 3:7, 21.

Í 28. og 39. kafla 2. Mósebókar er að finna ýtarlega lýsingu á klæðnaði æðstaprestsins í Ísrael. Hann klæddist undirfötum úr líni, hvítri skikkju með ofnu belti, blárri ermalausri yfirhöfn, útsaumuðum hökli og vefjarhetti. Auk þess var hann með brjóstskjöld og skínandi gullplötu á vefjarhettinum. Lýsingin á þessum verðmætu efnum og samsetningu þeirra nægir til að gefa okkur allgóða mynd af því hve glæsileg fötin hljóta að hafa verið. – 2. Mósebók 39:1-5, 22-29.

Elía spámaður klæddist með þeim hætti að ekki þurfti annað en að lýsa klæðnaði hans til að fólk vissi hvern um var að ræða. „Hann var í skinnfeldi og gyrtur leðurbelti um lendar sér,“ sagði í lýsingunni. Öldum síðar héldu sumir að Jóhannes skírari væri Elía. Hugsanlegt er að það hafi að hluta til stafað af því hve líkir þeir voru til fara. – 2. Konungabók 1:8; Matteus 3:4; Jóhannes 1:21.

Efni og litir. Í Biblíunni er oft minnst á fataefni, liti og litunarefni og auk þess á spuna, vefnað og saumaskap. * Algengasta efnið var ull af búfénaði og lín unnið úr trefjum hörplöntunnar. Abel var kallaður „hjarðmaður“ en Biblían lætur ósagt hvort hann ræktaði búféð ullarinnar vegna. (1. Mósebók 4:2) Fyrst er getið um lín í Biblíunni þegar faraó lét færa Jósef í „dýrindis línklæði“ á 18. öld f.Kr. (1. Mósebók 41:42) Þess er varla getið í frásögum Biblíunnar að Gyðingar hafi notað bómull í fatnað en hún var þó notuð frá fornu fari í Mið-Austurlöndum.

Bæði hör og ull mynda fíngerðar trefjar sem garn var spunnið úr. Garnið gat verið misjafnlega fíngert og úr því var ofinn dúkur. Bæði garn og vefnaðarvara voru lituð í margs konar litum. Vefnaðurinn var síðan sniðinn eftir þörfum notandans. Föt voru oft skreytt með útsaumi eða ofnir í þau þræðir í mismunandi litum til að auka á fegurð þeirra og verðmæti. – Dómarabókin 5:30.

Oft er minnst á að vefnaðarvara hafi verið lituð blá, purpurarauð eða skarlatsrauð. Ísraelsmenn áttu að hafa „purpurabláan þráð í hverjum skúfi á klæðafaldinum“ til að minna á hið sérstaka samband sem þeir áttu við Jehóva, Guð sinn. (4. Mósebók 15:38-40) Tveir litir eru nefndir sérstaklega í sambandi við klæði æðstaprestsins og skreytingar í tjaldbúðinni. Annar er „blár“ (á hebresku tekheleth) og hinn er oftast þýddur „rauður“ (argaman á hebresku).

Tjaldbúðin og útbúnaður í musterinu. Tjaldbúðin í eyðimörkinni og síðar musterið í Jerúsalem voru tilbeiðslumiðstöðvar Ísraelsmanna. Það er því eðlilegt að ýtarlegar upplýsingar séu gefnar í Biblíunni um gerð og búnað tjaldbúðarinnar og musterisins sem Salómon reisti. Auk þess að geta um efni og liti er rætt um vefnað, litun, saum og útsaum tjalddúka og fortjalda.

Þeir Besalel og Oholíab voru handverksmenn í sérflokki og unnu dyggilega, ásamt fjölda annarra karla og kvenna, að því einstaka verki að búa til tjaldbúð sem var þess verðug að vera miðstöð þar sem Jehóva var tilbeðinn. Til þess nutu þau handleiðslu og leiðsagnar Guðs. (2. Mósebók 35:30-35) Í 26. kafla 2. Mósebókar er lýst í smáatriðum gerð tjaldbúðarinnar og þeim efnum sem til voru notuð. Tjalddúkarnir voru miklir og litríkir, ofnir úr „tvinnuðu, fínu líni, bláum og rauðum purpura og skarlati“. Ísraelsmenn hafa trúlega flutt efnið með sér að mestu leyti þegar þeir yfirgáfu Egyptaland. Getið er sérstaklega um litfagurt og þykkt fortjaldið sem var ofið myndum af kerúbum og skildi milli „hins heilaga og hins allra helgasta“ innst í tjaldbúðinni. (2. Mósebók 26:1, 31-33) Þeir sem unnu að vefnaði fyrir musterið í Jerúsalem undir handleiðslu Salómons konungs fengu fyrirmæli sem svipar mjög til þessara lýsinga. – 2. Kroníkubók 2:1, 6.

Af þeim upplýsingum, sem varðveittar eru í Biblíunni, má sjá að Hebrear til forna notuðu af miklu hugviti þann efnivið sem þeir höfðu aðgang að. Sú þjóðfélagsmynd, sem Biblían bregður upp, er ekki af nauðþurftabúskap og fábreyttu fatavali heldur blasir við mynd af fólki sem klæddist litríkum fatnaði, breytilegum eftir efnum og aðstæðum, tilefni og árstíðum.

Í Biblíunni segir að Ísraelsmönnum hafi verið gefið til búsetu ,gott land sem flaut í mjólk og hunangi‘. (2. Mósebók 3:8; 5. Mósebók 26:9, 15) Meðan þeir tilbáðu Jehóva nutu þeir blessunar hans. Tilveran var ánægjuleg og lífið gott í alla staði. Um eitt slíkt tímabil er sagt í Biblíunni: „Íbúar Júda og Ísraels bjuggu við öryggi. Frá Dan til Beerseba sat hver maður undir vínviði sínum og fíkjutré á meðan Salómon lifði.“ – 1. Konungabók 5:5.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Nánari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi rammagreinum.

[Rammi/​Myndir á bls. 20, 21]

Ull og hör

Á biblíutímanum var sauðfé aðallega ræktað vegna ullar og mjólkur. Bóndi þurfti ekki að eiga nema nokkrar kindur til að fá ull í föt handa allri fjölskyldunni. Ef hann átti allmargt fjár gat hann selt vefnaðarframleiðendum þá ull sem umfram var. Í sumum bæjum og þorpum áttu vefnaðarframleiðendur með sér samtök. Frá fornu fari var það fastur liður í árlegum verkum fólks að rýja sauðfé. – 1. Mósebók 31:19; 38:13; 1. Samúelsbók 25:4, 11.

Lín var algengt fataefni og var gert úr trefjum hörplöntunnar. (2. Mósebók 9:31) Hörplantan var skorin þegar hún var næstum fullvaxin. Stönglarnir voru látnir þorna í sólinni og síðan lagðir í bleyti í vatni til að mýkja trénaða hlutann. Að þurrkun lokinni var hörinn laminn niður og trefjarnar skildar frá, og síðan var spunninn úr þeim hörþráður til vefnaðar. Konungborið fólk og höfðingjar gengu yfirleitt í línklæðum.

[Mynd]

Þurrkaðir hörleggir áður en þeir eru lagðir í bleyti.

[Rammi/​Mynd á bls. 21]

Spuni

Einfaldur þráður, hvort heldur úr hör, ull, geitahári eða öðru, er bæði of stuttur og viðkvæmur til að hægt sé að nota hann til vefnaðar. Margir þræðir eru því snúnir saman eða spunnir til að framleiða langan samhangandi þráð af viðeigandi sverleika. Um „dugmikla konu“ er sagt í Biblíunni: „Hún réttir út hendurnar eftir rokknum [eða keflinu] og fingur hennar grípa snælduna.“ (Orðskviðirnir 31:10, 19) Hér er lýst í hnotskurn hvernig garn var spunnið með tóvinnuáhöldum sem voru lítið annað en tvö kefli.

Í annarri hendi heldur kona á kefli með óspunnum trefjum. Með hinni hendinni togar hún trefjar af keflinu, snýr þær saman í band og festir það í krók eða skoru á öðrum enda snældunnar. Snældan er gerð úr priki með allþungum snúð á öðrum endanum en hann virkar eins og kasthjól. Snældan hangir í bandinu og konan snýr henni. Þannig spinnur hún hæfilega svert band og vefur því síðan upp á hala snældunnar. Hún endurtekur leikinn eins oft og þarf uns trefjarnar á keflinu eru orðnar að löngu samfelldu bandi. Það er síðan hægt að lita eða vefa úr því dúk.

[Rammi/​Mynd á bls. 22, 23]

Litun

Eftir að búið er að spinna og þvo garn úr ull eða hör, eða vefa úr því dúk, er garnið eða dúkurinn litaður með ýmsum hætti. Hægt er að fá sterkari lit með því að leggja efnið nokkrum sinnum í litunarvökvann. Þar sem liturinn er verðmætur er það sem umfram er undið úr garninu eða dúknum þegar hann er tekinn upp úr litunarkerinu, og efnið síðan lagt til þerris. Litinn er þá hægt að nota aftur.

Gervilitarefni voru ekki þekkt til forna en hægt var að búa til fasta liti í ótrúlega mörgum litbrigðum með því að nýta það sem til var í dýra- og jurtaríkinu. Gulur litur var til dæmis gerður úr möndluviðarlaufi og muldu granateplahýði, og svartur litur úr berki af granateplatrjám. Rauður litur var unninn úr rótum roðagrass eða úr skjaldlús. Blár litur fékkst úr plöntu af ertublómaætt (Indigofera tinctoria). Með því að blanda saman litarefnum úr ýmsum tegundum purpurasnigla var hægt að búa til purpurarauðan lit, bláan og fagurrauðan, auk alls konar litbrigða þar á milli.

Hve marga purpurasnigla skyldi hafa þurft til að lita eina flík? Svo lítið litarefni er í hverjum snigli að samkvæmt einni rannsókn þurfti um 10.000 snigla til að lita eina skikkju purpurarauða. Aðeins konungborið fólk hafði efni á slíku dýrindi. Í valdatíð Nabónídusar konungs í Babýlon var purpuralit ull sögð 40 sinnum dýrari en ull í öðrum litum. Borgin Týrus var svo fræg að fornu fyrir purpuralitinn sem fékkst þar að þessi dýri litur var kallaður Týrusarpurpuri.

[Myndir]

Skel af sjávarsnigli.

Litunarker fyrir purpura frá annarri eða þriðju öld f.kr. í Tel Dor í Ísrael.

[Rétthafi]

The Tel Dor Project

[Rammi/​Mynd á bls. 23]

Vefnaður

Vefstóll er notaður til að vefa dúka af hæfilegri stærð til að sníða úr flíkur og fleira. Á lengdina liggja uppistöðuþræðir og þvert á þá liggur svokallað fyrirvaf eða ívaf. Þræðirnir eru ofnir saman með því að bregða ívafsþræðinum á víxl yfir og undir uppistöðuþræðina.

Vefstólar á biblíutímanum voru einfaldur rammi sem lá ýmist flatur á gólfi eða var reistur upp. Þegar vefstólar voru uppreistir voru stundum bundnir svonefndir kljásteinar í neðri enda uppistöðuþráðanna til að halda þeim strekktum. Fornir kljásteinar hafa fundist víða í Ísrael.

Vefnaður tilheyrði oft heimilisstörfum en sums staðar helguðu íbúar heilla þorpa sig þessari iðngrein. Til dæmis er í 1. Kroníkubók 4:21 talað um „ættir línvefaranna í vefstofunni í Asbea“, og mun þar vera átt við samtök vefara.

[Myndir á bls. 20, 21]

Blár og rauður purpuri. – 2. Mósebók 26:1.